spot_img
HomeFréttirUnnur Tara: Æfi stundum með karlaliðinu í Kauhajoki

Unnur Tara: Æfi stundum með karlaliðinu í Kauhajoki

07:00
{mosimage}

Unnur Tara Jónsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli í Finnlandi undanfarið fyrir vasklega framgöngu sína á körfuboltavellinum. Að lokinni síðustu leiktíð með Haukum söðlaði Unnur um og hélt til Finnlands með kærasta sínum Roni Leimu sem m.a. hefur leikið með Haukum og Hamri hér á Íslandi en parið spilar nú í Finnlandi þar sem Leimu hefur verið inn og út úr finnska landsliðinu.

,,Liðið sem ég spila með heitir Salama og er í 2. deild og þetta er mjög fínt. Eiginlega akkúrat það sem ég þurfti, smá frí frá íslenskum körfubolta og engar tæknivillur komnar,“ sagði Unnur Tara létt í bragði en hún er mikil keppnismanneskja.

Unnur er einnig í fjarnámi í Finnlandi en reynir að æfa eins mikið og hún getur og æfir m.a. með karlaliðinu í Kauhajoki. Tungumálið er eitthvað að flækjast fyrir henni. ,,Já ég er að reyna að læra þetta en finnskan er bara flóknasta tungumál ever!“ sagði Unnur en þegar Karfan.is náði tali af Unni var Salama í 2. sæti í deildinni.

,,Það er voðalega lítill munur á 1. og 2. deild hérna því þetta fer eiginlega eftir staðsetningu en markmiðið okkar er að vinna alla leikina en það gæti reynst okkur erfitt að fara upp því þá yrðu allir okkar leikir í minnst tæplega þriggja tíma fjarlægð,“ sagði Unnur sem reynir að komast í ræktina á hverjum degi en Salama leikur allar helgar en ekkert á virkum dögum.

Unnur þarf alltaf að keyra rúma klukkustund til þess að komast á æfingar en hún býr í Kauhajoki og æfir því mikið með karlaliðinu þar í bæ. ,,Það er því hægt að segja að það sé nóg að gera,“ sagði Unnur hress í bragði sem hefur verið að gera um 30 stig að meðaltali í leik með Salama.

Á meðfylgjandi mynd kom viðtal við Unni Töru í staðarblaðinu en undirritaður biðst velvirðingar á því að geta ekki útskýrt fyrir lesendum hvað þar fer fram sökum tungumálaörðugleika. Séu lesendur Karfan.is vel að sér í finnsku eru þeir vinsamlegast beðnir um að gefa sig fram við þýðingu á blaðagreininni.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -