Njarðvíkingar unnu í kvöld gríðarlegan karaktersigur gegn Stjörnumönnum í Iceland Express deild karla. Stjörnumenn leiddu eftir 20 mínútna leik en seinni 20 mínúturnar voru þeim jafn slæmar eins og hinar voru góðar og það eitt nýttu Njarðvíkingar sér vel.
Leikurinn var nokkuð jafn framan af en Njarðvíkingar vöktu Stjörnumenn fljótlega úr draumaheiminum með því að komast í 17:5 forystu á upphafsmínútunum. Gestirnir úr Garðabæ voru hinsvegar ekki lengi að komast aftur inn í leikinn og náðu að jafna áður en fyrsti fjórðungur rann út og gerðu þremur stigum betur.
Jovan Zdraveski mætti í búning í kvöld og hitaði upp með félögum sínum en kom hinsvegar ekkert við sögu í leiknum. Vissulega stórt skarð höggvið í lið Stjörnumanna og áttu þeir eftir að sakna hans gríðarlega þar sem hann hefur iðulega reynst Njarðvíkingum erfiður ljár í þúfu. Stjörnumenn héldu áfram að hamra stálið heitt í öðrum leikhluta og komust mest í 12 stiga forystu og leiddu með 10 stigum þegar hálfleiksbjallan klingdi.
Rólegir á tauginni komu Stjörnumenn nokkuð öryggir með sig til leiks í seinni hálfleik og ekki nema von því þeir höfðu nokkuð góð tök á leiknum fram að hálfleik og bjuggust ekki við neinu öðru en að það myndi halda. En heimamenn voru á öðru máli. Drifnir áfram af Elvari Már Friðrikssyni fóru Njarðvíkingar hreinlega hamförum í þriðja leikhluta. Stórglæsileg og föst vörn Stjörnumanna frá fyrri hálfleik varð eftir inni í klefa og gríðarlega myndarleg spilamennska heimamanna skilaði þeim auðveldum körfum hvað eftir annað. Lítið var að sama skapi að ganga upp hjá sóknarleik Stjörnunnar og þegar Justin Shouse var tekinn útaf um miðbik leikhlutans hrundi leikur liðsins gersamlega. 33-13 var lokastað þessa leikhluta og allt í einu voru það Njarðvíkingar sem voru komnir í bílstjórasætið.
Njarðvíkingar voru skynsamir í loka leikhlutanum og spiluðu agað. Maceij Baginski aðeins 16 ára gamall var að spila vel fyrir Njarðvíkinga og þrátt fyrir að Travis Holmes hafi verið seinn í gang var hann að skila fínu varnarhlutverki. Cameron Echols þurfti nánast einn síns liðs að berjast við alla turna Stjörnumanna í fráköstunum og leysti hann það hlutverk vel með 21 frákasti í leiknum. 29 stigum bætti hann svo við og það má alveg kalla það fullorðins! Uggur fór líkast til um Njarðvíkinga undir lok leikhlutans þegar Justin Shouse sjóðhitnaði eins og hraðsuðuketill. 11 stig frá kappanum í röð kom muninum niður í 4 stig á loka mínútunum. En Njarðvíkingar héldu haus og enn og aftur var það Elvar Már sem var að setja niður risastóra körfur ásamt því að senda stoðsendingar á félaga sína sem skiluðu ómetanlegum körfum. Ungviði Njarðvíkinga halda áfram að koma á óvart, eða hvað? Þeir hafa sýnt það með þessum sigri að þá ber að taka alvarlega á stóra sviðinu þó svo að þeir eigi langt í land með að ná fullum þroska. Mikið um lítil "rookie" mistök eru enn að sjást en þeim minnkar með hverjum leiknum og fróðlegt verður að fylgjast með liðinu út þennan vetur. Stjörnumenn eiga Jovan inni og munar um minna.
Hjá Stjörnumönnum var Justin Shouse þeirra allra bestur með 35 stig og 7 stoðsendingar.
Cameron Echols var vel traustur með 29 stig og 21 frákast sem fyrr segir.