spot_img
HomeFréttirUngir og getum hlaupið

Ungir og getum hlaupið

Þrátt fyrir að FSu hafi misst allan meginkjarna liðsins frá því í fyrra er engan bilbug að heyra á einum af nýju leikmönnunum sem bæst hafa í hópinn nú á haustdögum. Spilandi þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson er farinn aftur til Stjörnunnar, Sæmundur Valdimarsson einnig, Birkir Víðisson í skóla í Bandaríkjunum, Bjarni Bjarnason tekinn við sem spilandi þjálfari Laugdæla og Þorkell bróðir hans hættur. Einungis Svavar Stefánsson er eftir af þeim sem fengu einhverjar mínútur í liðinu á síðasta tímabili.
 
Í staðinn eru nokkrir leikmenn komnir og ber þar fyrst að nefna þá Ara Gylfason og Daða Berg Grétarsson, sem báðir gengu til liðs við FSu í byrjun hausts, Ari frá KFÍ þar sem hann hafði leikið í tvö ár, en Daði kemur frá Fjölni. Þeir félagar eru sannkallaður hvalreki fyrir liðið sem er skipað mjög ungum og flestum óreyndum leikmönnum. Einnig bættist í hópinn Bjarki Gylfason frá Þór Þ., en hann er að ná sér aftur á strik eftir meiðsli, og fleiri mjög ungir og efnilegir strákar.
Tíðindamaður náði í skottið á Daða Berg á æfingu í Iðu.
 
Hvernig tilfinning er það að vera kominn aftur í FSu?
 
„Það er frábær tilfinning, virkilega fallegur bær og flott lið og Iða náttúrulega besta íþróttahús á Íslandi“.
 
Og hvernig líst þér svo á veturinn?
 
„Mér líst bara vel á hann. Við erum með góðan þjálfara, ungan og metnaðarfullan, og við erum með ungt lið líka, þannig að við verðum bara sprækir“.
 
Hvaða markmið hafið þið sett ykkur fyrir tímabilið?
 
„Ég held að markmiðið sé klárlega það að komast í úrslitakeppnina. Fyrsta deildin er bara með 10 liðum þannig að þetta er stutt tímabil og ekkert má út af bregða, en við setjum stefnuna á úrslitakeppnina“.
 
Nú ert þú búinn að vera á mála hjá Fjölni í úrvalsdeild, hvernig stendur á því að þú kemur til FSu sem spilar í fyrstu deild?
 
„Það er margt sem liggur á bak við það, en mér líkar vel hérna á Selfossi og ekki síst að þeir hér réðu flottan þjálfara. Og ekki skemmir það fyrir að Ari Gylfason, góðvinur minn, er að spila hérna líka, það er einstaklega gaman að spila með honum“.
 
Það hefur nú ekki alltaf heppnast fullkomlega þegar lið hafa fengið erlenda þjálfara hingað til Íslands, en þér líst vel á Erik Olson?
 
„Já, tvímælalaust. Tímabilið er svo sem bara rétt að byrja en kynni mín af honum það sem af er eru mjög góð og æfingarnar hafa verið góðar líka“.
 
Tímabilið hefst á föstudaginn, hvernig leggst það í þig að taka á móti Haukum í fyrsta leik?
 
„Það verður krefjandi verkefni og bara gaman að byrja þetta loksins. Haukarnir eru náttúrulega með hörku lið og þeim er spáð beint upp aftur, þannig að það verður bara gaman að taka á þeim“.
 
Þið eruð ekki enn komnir með erlendan leikmann, er það ekki áhyggjuefni á móti þessu sterka liði?
 
„Nei, nei, ég held að það sé bara meiri áskorun fyrir okkur að standa okkur, það ætti að mótivera okkur enn betur. Þetta er auðvitað erfið staða í upphafi móts en okkar útlendingur kemur inn í þetta og við veðrum bara sterkari eftir því sem líður á mótið“.
 
Þannig að þér líst þokkalega vel á hópinn hjá FSu núna?
 
„Já, eins og ég segi, við erum ungir og eigum að vera lið sem getur hlaupið og spilað góða og agressiva vörn í heilar 40 mínútur, þannig að þetta lítur bara vel út“.
 
Mynd/ Daði Berg t.v. og Ari t.h.
Fréttir
- Auglýsing -