spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Vestri sigruðu Breiðablik í Smáranum

Umfjöllun: Vestri sigruðu Breiðablik í Smáranum

Breiðablik tók á móti Vestramönnum í Smáranum í kvöld í 1. deild karla. Þetta var þriðji leikur liðanna í deildarkeppninni og því um mjög mikilvægan leik að ræða. Í þriggja leikja umferð þar sem lið mætast þrisvar er það liðið sem á innbyrðis viðureignina sem verður fyrir ofan í deildinni ef að liðin skilja jöfn að stigum. Liðin höfðu skipt með sér sigrum í fyrstu tveimur leikjunum sínum og þetta var leikurinn sem gat sagt til um hvaða lið yrði í 1.-2. sæti deildarinnar. Eftir æsispennandi leik náðu Vestri forskoti undir lokin og létu það ekki af hendi, lokastaða 92-95, Vestra í vil.
 

Gangur leiksins

Leikurinn hófst með látum, en bæði liðin voru að skora grimmt framan af. Varnir beggja liða virtust eilítið vanstilltar í fyrstu enda voru fyrstu körfurnar hjá báðum liðum heldur auðveldar og lítið mótstaða frá vörnum liðanna. Liðin náðu þó aðeins að herða sig og með tæpar 3 mínútur eftir var staðan 24-22, heimamönnum í vil. Árni Elmar Hrafnsson, ein af skyttum Breiðabliks, tók sig þá til og setti fjórar þriggja stiga körfur í röð á meðan að Vestramenn gátu aðeins svarað með fjórum stigum. Þegar leikhlutanum lauk var því staðan 36-26 og Árni Elmar hafði skorað 17 stig!

Vestri voru hvergi bangnir og fóru að leita meira inn á stóra miðherjann sinn, Nemanja Knezevic, sem þakkaði fyrir sig með því að skora 9 stig í leikhlutanum. Stigaskorið hjá Blikunum dreifðist nokkuð vel á sama tíma og þeir náðu að halda sér fyrir framan gestina með 5 stigum þegar blásið var ef til hálfleiks í stöðunni 53-48 og Vestramenn ekki langt á eftir heimamönnum.

Eitthvað virðast Vestfirðingar hafa slakað of mikið á í búningsklefanum því að Blikar gátu skorað 7 stig án þess að gestirnir hefðu nokkur svör á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Yngvi Páll Gunnlaugsson, þjálfari Vestra, neyddist til að taka leikhlé þegar rétt rúm mínúta var liðin og messa aðeins yfir sínum leikmönnum. Það hafði tilætluð áhrif því að Vestramenn hófu að þjarma að Blikunum og saxa niður forskotið með góðu samspili þeirra Knezevic bræðra og góðri vörn alls liðsins, sem sést kannski best í því að Breiðablik tapaði boltanum jafn oft í þriðja leikhluta og í öllum fyrri hálfleiknum. Nebojsa Knezevic kom liðinu sínu síðan yfir þegar tæp mínúta var eftir og liðin skildu 73-74 þegar aðeins lokafjórðungurinn var eftir.

Stigaskorið framan af í fjórða leikhluta var aldrei meira en fjögur stig og oft var jafnræði á með liðunum, enda skildu bæði lið til hvers væri að vinna. Þegar tæpar 5 mínútur lifðu leiks urðu þó skil sem settu Breiðablik í talsverð vandræði. Í stöðunni 80-84 setti Nebojsa risastóran þrist þannig að Lárus Jónsson, þjálfari Breiðabliks, sá sig tilknúinn að taka leikhlé. Heimamenn hertu sig og náðu með góðri vörn og m.a. góðu samspili Jeremy Smith og Egils Vignissonar að jafna í stöðunni 91-91. Breiðablik neyddust til að brjóta og setja leikmenn Vestra á vítalínuna en það dugði ekki til og leiknum lauk 92-95, Vestra í vil.
 

Þáttaskil

Leikurinn kláraðist á lokamínútunum þegar Vestramenn settu vítaskotin sín en Jeremy Smith klikkaði úr öðru vítaskoti sínu sem að hefði getað jafnað leikinn á ögurstundu. Þar á undan skipti þriggja stiga skot Nebojsa, sem kom muninum upp í 7 stig miklu máli. Ljóst er þó að leikurinn var hnífjafn og hefði getað fallið Blikamegin með smá láni í hina áttina.
 

Mikilvægir leikmenn í kvöld

Þó að Nebojsa Knezevic og Nemanja Knezevic hafi báðir átt frábæran leik (Nebojsa með 33 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar og 39 í framlag; Nemanja með 29 stig, 12 fráköst, 4 stoðsendingar og 34 í framlag) finnst undirrituðum að það beri að nefna Björn Ásgeir Ásgeirsson og Ingimar Aron Baldursson líka. Björn og Ingimar, bakvarðapar Vestra, stálu 7 boltum (Ingimar með 4 og Björn með 3) og settu báðir mikilvæg vítaskot í lokafjórðungnum. Björn stal þremur boltum á miðjum vellinum sem að skiluðu sér í 6 auðveldum stigum (2 sniðskot og 2 vítaskot beint ofan í) og Ingimar setti tvö seinustu vítaskot Vestra til að koma muninum upp í 3 stig með tvær sekúndur eftir á leikklukkunni.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Það er næstum pínlegt hvað liðin voru jöfn í sumum tölfræðiþáttum, en bæði lið tóku 72 skot utan af velli og hittu úr 34 þeirra (bæði með nákvæmlega 47.2% skotnýtingu). Munurinn lá í sóttum villum og vítaskotum, en Vestri sóttu 24 villur í leiknum gegn 18 hjá Breiðablik og fengu 6 fleiri vítaskot ásamt því að setja 6 fleiri vítaskot (Vestramenn voru 6/6 í vítaskotum í síðasta fjórðungnum). Lokahnykkurinn er svo eflaust sá að Vestri skoruðu 15 stig úr hraðaupphlaupum gegn aðeins 4 slíkum stigum hjá Breiðablik í leiknum.
 

Kjarninn

Þá eru Blikar í 3. sæti deildarinnar, einum sigri á eftir Vestra og tveimur sigrum á eftir Skallagrími og Vestri situr í 2. sætinu mitt á milli Borgnesinga og Breiðabliks. Ekkert liðanna þriggja á sérstaklega auðvelda leiki framundan og liðin fyrir neðan þau geta ennþá komist fram úr þeim með nokkrum góðum sigrum. Hvernig sem fer er ljóst að það er ekkert víst í 1. deild karla enn sem komið er og eftir nokkrar stórar tilfærslur hjá liðum undanfarið er ekki útlit fyrir að það breytist í bráð. Breiðablik og Vestri verða með í toppslagnum en það er ómögulegt að segja til um hvar þau enda fyrr en allir deildarleikir eru búnir.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bjarni Antonsson

Viðtöl eftir leikinn:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson

Myndir / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -