Stjarnan og Tindastóll mættust í kvöld í Garðabæ. Leikurinn var liður í Lengjubikarnum en þessi lið eru í þriggja liða riðli með Snæfelli. Hlutskipti liðanna í deildinni hefur hingað til verið gjörólíkt, en Stjarnan er í öðru sæti með 10 stig en Skagfirðingar í því næstneðsta með einungis tvö.
Gestirnir voru þó staðráðnir í að láta stöðuna í IEX deildinni ekki stöðva sig. Stólarnir hófu leikinn nokkuð sterkt og gerðu Stjörnumönnum erfitt fyrir. Sóknarleikur heimamanna var nokkuð stirður í upphafi. Heimamenn unnu sig þó inn í leikinn eftir því sem leið á fyrsta fjórðung og höfðu eins stigs forskot að honum loknum, 18-17.
Tindastóll hélt áfram að gera heimamönnum lífið leitt í öðrum leikhluta. Gestirnir spiluðu góða vörn og voru sjóðheitir í skotum utan teigs, á meðan Stjörnumenn náðu ekki að finna rétta taktinn. Stólarnir rúlluðu á mörgum mönnum og í lok leikhlutans höfðu 9 manns komist á blað gestamegin. Stjörnunni tókst þó að vinna upp 10 stiga forskot í lok fyrri hálfleiks, en staðan í hálfleik var 41-42, gestunum í vil.
Sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta. Stjörnumenn voru komnir með betra flæði í sóknarleikinn en gestirnir voru sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna og settu hvern þristinn á fætur öðrum. Stjörnumenn höfðu þó yfirhöndina í lok fjórðungsins og höfðu tveggja stiga forystu fyrir fjórða leikhluta, 66-64.
Spennan sem menn bjuggust við fyrir lokafjórðunginn var þó ekki lengi að hverfa. Stjörnumenn tóku öll völd á vellinum og settu í lás í vörninni. Hófst þetta áhlaup með því að Justin Shouse setti niður þrist. Í skotinu hafði Svavar Birgisson brotið á Fannari Helgasyni undir körfunni og því var Stjörnumönnum dæmdur boltinn. Svavar undi þessum dómi ekki og fékk dæmda á sig tæknivillu. Shouse setti bæði vítaskotin niður og Fannar Freyr bætti svo um betur með góðum þrist eftir innkastið, 8 stiga sókn hjá Stjörnunni. Eftir þetta var allur vindur úr Skagfirðingum og gengu heimamenn á lagið.
Allir leikmenn Stjörnunnar á skýrslu komust á blað í kvöld en 9 menn úr hvoru liði skoruðu stig í leiknum, sem verður að teljast nokkuð gott. Fór að lokum svo að heimamenn unnu leikhlutann 36-16 og leikinn með 102 stigum gegn 80 stigum Tindastóls.
Stigahæstur heimamanna í leiknum var Justin Shouse með 28 stig en Keith Cothran bætti við 22. Þá var Fannar Helgason með 18 stig og 13 fráköst. Hjá gestunum var Svavar Birgisson með 19 stig en Friðrik Hreinsson setti 16. Maurice Miller vantaði eitt frákast upp á þrefalda tvennu, en Maurice skoraði 12 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók 9 fráköst.
Stigaskor:
Stjarnan-Tindastóll 102-80 (18-17, 23-25, 25-22, 36-16)
Stjarnan: Justin Shouse 28/4 fráköst/8 stoðsendingar, Keith Cothran 22/7 fráköst, Fannar Freyr Helgason 18/13 fráköst, Marvin Valdimarsson 18/6 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 8/10 fráköst, Dagur Kár Jónsson 3, Sigurbjörn Ottó Björnsson 2, Guðjón Lárusson 2, Aron Kárason 1.
Tindastóll: Svavar Atli Birgisson 19, Friðrik Hreinsson 16, Maurice Miller 12/9 fráköst/10 stoðsendingar, Trey Hampton 8/6 fráköst/5 varin skot, Helgi Rafn Viggósson 8, Pálmi Geir Jónsson 7/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 5, Hreinn Gunnar Birgisson 3/4 fráköst/5 stoðsendingar, Loftur Páll Eiríksson 2, Ingvi Rafn Ingvarsson 0, Rúnar Sveinsson 0.
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
Mynd/ Tomasz Kolodziejski – Justin Shouse sækir að vörn Tindastóls í kvöld.