Nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn tóku á móti Stjörnunni í Icelandic Glacial höllinni í gærkvöldi. Garðbæingar bundu þá enda á þriggja leikja sigurgöngu Þórs í deildinni með 86-97 útisigri á þessum erfiða heimavelli Þórs.
Leikmönnum beggja liða voru mislagðar hendur í byrjun og brenndu af opnum færum. Darri Hilmarsson skoraði fyrstu stig leiksins þegar 1:15 var liðin. Liðin skiptust á að leiða og var staðan jöfn að loknum 1. leikhluta, 20-20. Mike Ringgold hjá Þór og Keith Cothran hjá Stjörnunni voru mest áberandi í þessum leikhluta.
Sama jafnræði var áfram í 2. leikhluta , Stjarnan náði þó mest 6 stiga forskoti en heimamenn náðu að minnka muninn fyrir hlé í 2 stig og staðan í hálfleik 45-47.
Mikið var um misheppnaðar sendingar hjá báðum liðum í fyrri hálfleik Þór með 10 og Stjarnan með 9. Eins og stigaskorið gefur til kynna voru þessar misheppnuðu sendingar ekki vegna góðs varnarleiks liðanna heldur var óðagoti leikmanna um að kenna.
Þórsarar byrjuðu 3. leikhluta mjög sterkt og náðu að komast í 57-51 en fóru þá að flýta sér of mikið og Stjarnan komst aftur inn í leikinn, staðan að loknum 3.leikhluta 71-71 og allt í járnum.
Jafnt var framan af lokaleikhlutanum en Stjarnan þó heldur með frumkvæðið. Í stöðunni 80-83 og 4 mínútur eftir skoruðu Stjörnumenn 7 stig í röð og kláruðu þar með leikinn og unnu verðskuldaðan sigur 86-97.
Varnarleikur beggja liða var slakur en lagaðist hjá Stjörnunni í seinni hálfleik. Það sem helst bar á milli var að Stjörnumenn voru skynsamari í sínum aðgerðum, voru með betra skotval og notuðu skotklukkuna betur. Þórsarar skutu oft á tíðum allt of fljótt og fóru nánast ekkert inn í teig í lokaleikhlutanum þrátt fyrir að allir stóru menn Stjörnunnar væru með 4 villur. Þá töpuðu Þórsarar 8 boltum í seinni hálfleik á meðan Stjarnan tapaði 2.
Þá munaði um að skotnýting Darrin Govens í 3ja stiga skotum var ekki góð í kvöld, 3 af 11 og hefði hann mátt leita félagana meira uppi. Grétar Ingi Erlendsson hjá Þór og Jovan Zdraveski hjá Stjörnunni léku ekki með í kvöld vegna meiðsla.
Mike Ringgold og Darri Hilmarsson voru bestu menn Þórs í kvöld. Hjá Stjörnunni var Marvin mjög góður sem og Justin Shouse sem stjórnaði liðinu mjög vel og náði að róa leikinn niður þegar að mest á reyndi. Guðjón Lárusson spilaði einnig mjög vel og var mjög drjúgur í lokin . Dagur Kár Jónsson fæddur 1995 kom virkilega vel inn í leikinn, mikið efni þar á ferðinni. Hann nýtur þess greinilega að hafa góða kennara í kring um sig þá Justin Shouse og föður sinn Jón Kr. Gíslason, sem var á árum áður einn albesti leikstjórnandi landsins.
Stigaskor
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 24/5 stoðsendingar, Michael Ringgold 22/16 fráköst, Darri Hilmarsson 15/7 fráköst, Marko Latinovic 12/8 fráköst, Guðmundur Jónsson 9/6 stoðsendingar, Baldur Þór Ragnarsson 2, Þorsteinn Már Ragnarsson 2, Bjarki Gylfason 0, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0.
Stjarnan: Marvin Valdimarsson 25/5 fráköst, Keith Cothran 20, Justin Shouse 20/4 fráköst/9 stoðsendingar, Guðjón Lárusson 14/10 fráköst, Fannar Freyr Helgason 10/4 fráköst, Dagur Kár Jónsson 6, Sigurjón Örn Lárusson 2/4 fráköst, Halldór Kristmannsson 0, Kormákur Arthursson 0, Aron Kárason 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0.
Dómarar leiksins voru þeir Björgvin Rúnarsson og Jón Bender.
Umfjöllun: Björn Ægir Hjörleifsson
Mynd úr safni/ Marvin Valdimarsson gerði 25 stig og tók 5 fráköst gegn Þór í gær.