Stjarnan hefndi fyrir ófarir liðsins í Lengjubikarnum með eins stig sigri á Snæfell í Iceland Express deild karla í Garðabænum í kvöld. Stjarnan náði myndarlegu forskoti í upphafi leiks en Snæfell kom til baka í öðrum leikhluta og leikurinn var í járnum það sem eftir var. Snæfell átti seinustu sókn leiksins, einu stigi undir, en tókst ekki að nýta sér tækifærið og fóru því tómhentir heim. Með sigrinum eru Garðbæingar einir í 2. sæti deildarinnar með 10 stig.
Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Keith Cothran með 34 stig en næstir voru Marvin Valdimarsson með 24 stig og 10 fráköst og Fannar Helgason með 13 stig og 8 fráköst. Í liði Snæfells var Jón Ólafur Jónsson stigahæstur með 23 stig en næstir voru Quincy Hankins-Cole með 16 stig og 12 fráköst og Pálmi Sigurgeirsson með 14 stig og 7 stoðsendingar.
Leikurinn byrjaði nokkuð jafn og liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar. Stjarnan hafði þó frumkvæðið og þegar leið á leikhlutan tókst þeim hægt og rólega að stíga framúr. Sóknarleikur heimamann var til fyrirmyndar og tókst þeim að skora 35 stig af öllum kúnstarinnar gerðum áður en fyrsti leikhluti var flautaður af. Þá höfðu Þeir náð 10 stiga forskoti á Snæfell, 35-25.
Stjarnan hélt uppteknum hætti í upphafi annars leikhlut og höfðu náð forskotinu upp í 16 stig, 44-28. Þá virtust Snæfellingar vakna til lífsins og á á stuttum tíma náðu þeir muninum niður í 9 stig, 47-38, en þá tók Teitur Örlygsson leikhlé fyrir Stjörnuna. Hægt og rólega hélt munurinn þó áfram að minnka og þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var hann kominn niður í 4 stig, 52-48. Snæfellingar höfðu getað gert enn betur en fengu dæmdan á sig ruðngin tvær sóknir í röð undir lok leikhlutans á meðan ekkert gekk í sóknarleik Stjörnunnar. Snæfell tókst þó að komast yfir áður en flautað var til hálfleiks því þeir settu eldsnögg 8 stig á lokamínútnni og höfðu því 4 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 52-56.
Stigahæstur í hálfleik hjá Snæfell var Jón Ólafur Jónsson með 16 stig og 5 fráköst en næstir voru Quincy Hankins-Cole með 13 stig og Marquis Sheldon Hall með 9 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Marvin Valdimarsson stigahæstur með 20 stig og 6 fráköst en næstir voru Keith Cothran með 18 stig og Justin Shouse með 5 stig.
Snæfell tókst þó aldrei að stinga Stjörnuna af í þriðja leikhluta og Stjarnan var fljót að vinna sig aftur inní leikinn. Þegar leikhlutinn var að verða hálfnaður kom Keith Cothran Stjörnunni aftur yfir með stórglæsilegri troðslu eftir sendingu frá Justin shouse nokkuð fyrir utan þriggja stiga línuna, 65-63. Snæfell svaraði í næstu sókn áður en Ingi Þór tók leikhlé fyrir Snæfell, 65-65 og 5 mínútur eftir af þriðja leikhluta.
Jón Ólafur Jónsson, Ólafur Torfason,Snæfell, og Fannar Helguson, Stjörnunni, fengu allir sína fjórðu villu á síðustu þremur mínútum þriðja leikhluta en bæði Fannar og Jón Ólafur fengu að sitja það sem eftir lifði leikhlutans á bekknum. Þegar flautað var til loka þriðja leikhluta hafði Stjarnan 2 stiga forskot, 74-72.
Jón Ólafur Jónsson fékk sína fimmtu villu snemma í fjórða leikhluta og var því sendur í bað. Stjarnan hafði þá frumkvæðið í leiknum og leiddu með 2-4 stigum. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum höfðu þeir yfir, 83-81. Tveimur mínútum síðar var jafnt á öllum tölum, 86-86 og spennan farin að magnast. Ingi Þór tók leikhlé fyrir Snæfell stuttu seinna í stöðunni 88-86. Stjarnan hafði svo 1 stigs forskot 90-89 þegar Snæfell fór í síðustu sókn leiksins. Snæfell reyndi háan bolta inná Marquis Sheldon Hall en Marvin komst inní sendinguna og Stjarnan fagnaði því vel í leikslok.
Stigaskor:
Stjarnan-Snæfell 90-89 (35-25, 17-31, 22-16, 16-17)
Stjarnan: Keith Cothran 34, Marvin Valdimarsson 28/10 fráköst, Fannar Freyr Helgason 13/8 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 7/10 stoðsendingar, Sigurjón Örn Lárusson 3/8 fráköst, Dagur Kár Jónsson 3, Guðjón Lárusson 2/4 fráköst, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Aron Kárason 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Christopher Sófus Cannon 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.
Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 23/5 fráköst, Quincy Hankins-Cole 16/12 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 14/4 fráköst/7 stoðsendingar, Marquis Sheldon Hall 13/6 fráköst/6 stoðsendingar, Sveinn Arnar Davidsson 11/7 fráköst, Ólafur Torfason 7/7 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 5, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0, Guðni Sumarliðason 0, Egill Egilsson 0, Daníel A. Kazmi 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kr. Hreiðarsson
Mynd og umfjöllun/ Gísli Ólafsson – [email protected]