spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Stáltaugar Ólafs dugðu til sigurs

Umfjöllun: Stáltaugar Ólafs dugðu til sigurs

Ólafur Torfason var hetja Snæfells í kvöld þegar Hólmarar lögðu Stjörnuna 94-95 í Lengjubikar karla í Garðabæ. Brotið var á Ólafi um leið og leiktíminn rann út og hann sendur á vítalínuna þar sem honum dugði annað skotið til að tryggja sigurinn. Framan af benti allt til sigurs gestanna í leiknum en Garðbæingar hleyptu mikilli spennu í lokasprettinn með góðri baráttu sem þó varð skammvinn að þessu sinni.
 
Garðbæingar þurfa ekki að bíða lengi eftir því að fá tækifæri til að kvitta fyrir leikinn í kvöld þar sem liðin mætast í Iceland Express deildinni á föstudag og þá aftur í Ásgarði.
 
Gestirnir úr Stykkishólmi voru ferskari í Ásgarði í upphafi leiks eftir stormasama ferð suður til Reykjavíkur í hvassviðrinu. Quincy Hankins-Cole var skæður í teignum í upphafi en Garðbæingar unnu á og minnkuðu muninn í 20-26 með þriggja stiga körfu frá Marvin Valdimarssyni um leið og fyrsta leikhluta lauk.
 
Framan af öðrum leikhluta batnaði Stjörnuvörnin og Garðbæingar minnkuðu muninn í 24-29 en þá fóru Hólmarar hægt og sígandi að slíta sig frá. Staðan í hálfleik var 36-50 Snæfell í vil þar sem Fannar Freyr Helgason var með 10 stig í liði Stjörnunnar en Marquis var með 13 stig.
 
Snæfell opnaði síðari hálfleik með 7-0 dembu og staðan 36-57 en þá rönkuðu heimamenn við sér. Marvin Valdimarsson fór að minna á sig og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum herti Stjarnan róðurinn og náði að minnka muninn í 7 stig, 66-73 þar sem Fannar Freyr Helgason lokaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu.
 
Fannar opnaði fjórða leikhluta líkt og hann lokaði þeim þriðja og staðan 69-73. Garðbæingar voru allan fjórða leikhluta að narta í forystu gestanna og það gaf á bátinn þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Pálmi Freyr Sigurgeirsson fékk þá tæknivillu dæma á sig fyrir samskipti sín við einn dómara leiksins og skömmu síðar kom Marvin Valdimarsson Stjörnunni yfir í fyrsta sinn í leiknum er hann breytti stöðunni í 91-90.
 
Lokakaflinn var æsispennandi, bæði lið voru í bullandi villuvandræðum og komin með skotrétt svo lítið mátti út af bera. Marquis Hall og Jón Ólafur Jónsson voru báðir utan vallar með fimm villur og hjá Stjörnunni voru þeir Fannar Freyr og Sigurjón Lárusson einnig utan vallar fyrir sömu sakir.
 
Keith Cothran jafnaði metin í 94-94 á vítalínunni þegar hann setti aðeins niður annað vítið, Hólmarar héldu í sókn með 18 sekúndur eftir, Pálmi Freyr stillti upp og fyrsta skot Hólmara geigaði en sóknarfrákastið endaði í höndum Ólafs Torfasonar og er hann reyndi skot rann klukkan út á meðan boltinn var í loftin og villa dæmd um leið á varnarmanninn Sigurbjörn Björnsson.
 
Ólafur fékk því tvö víti og voru Garðbæingar fjarri því sáttir við þessa niðurstöðu enda töldu þeir villuna vera komna til fyrir litlar sakir. Ólafur hélt á línuna og setti fyrra vítið og brenndi af því síðara en það skipti engu máli, Garðbæingar áttu ekki sekúndubrot inni til að svara fyrir sig og lokatölur því 94-95 Snæfell í vil.
 
Stigaskor:
 
Stjarnan: Fannar Freyr Helgason 20/7 fráköst, Justin Shouse 20/4 fráköst/9 stoðsendingar, Keith Cothran 17/6 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 16/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 15/5 fráköst/3 varin skot, Guðjón Lárusson 6/5 stoðsendingar, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Dagur Kár Jónsson 0, Christopher Sófus Cannon 0, Aron Kárason 0.
 
Snæfell: Marquis Sheldon Hall 20/8 stoðsendingar, Quincy Hankins-Cole 16/11 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 13, Egill Egilsson 12/4 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 12, Ólafur Torfason 12/8 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 7, Sveinn Arnar Davidsson 3/4 fráköst, Daníel A. Kazmi 0, Snjólfur Björnsson 0, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0.
 
Mynd/ Ólafur Torfason í baráttunni við Marvin Valdimarsson í Ásgarði í kvöld.
Mynd og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -