spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Sigur hjá Hetti í fyrsta leik

Umfjöllun: Sigur hjá Hetti í fyrsta leik

Höttur hóf tímabilið í 1. deildinni í körfuknattleik með 78-72 sigri á Ármanni í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum í gærkvöld. Leikurinn var æsispennandi en Höttur var undir nánast allan leikinn en náði að snúa taflinu sér í hag á lokamínútunum. 
Hattarliðið sem steig á stokk í fyrsta leik tímabilsins var nokkuð mikið breytt frá síðasta tímabili. En Björn Einarsson þjálfari leit út fyrir að vera nokkuð vel settur með mannskap, a.m.k. nógu vel til að þurfa ekki að vera sjálfur á leikskýrslu. Tómas Hermannsson þjálfari Ármanns var einnig að stýra liði sínu í fyrsta deildarleiknum og nokkuð ljóst að báðir þjálfarar vildu gjarnan byrja með sigri.
 
Leikurinn byrjaði með nokkrum æsingi eins og við var að búast. Hattarmenn tefldu fram hávöxnu byrjunarliði og keyrðu grimmt að körfunni. Nýr leikstjórnandi liðsins, Ágúst Hilmar Dearborn fór fyrir Hattarmönnum af miklum krafti á þessum fyrstu mínútum en aðrir leikmenn virtust ekki alveg nógu vel stemmdir og gekk illa að setja skot sín niður. Ármenningar virtust hins vegar vera afslappaðri í sókninni, hittu betur utan af velli og komust í rúmlega 10 stiga forskot í fyrsta leikhluta og héldu því vel. Í öðrum leikhluta skiptu heimamenn í 3-2 svæðisvörn og náðu að halda betur aftur af sóknarleik gestanna, en hvorki gekk né rak í sókninni og því dró ekkert saman með liðum. Staðan í hálfleik var 32-41.
 
Hattarmenn komu sterkari til síðari hálfleiks, bættu skotnýtinguna og minnkuðu muninn en Ármenningar héldu þó alltaf frumkvæðinu og aftur dró sundur með liðum. Í þriðja leikhluta fór Kevin Jolley, bandaríska leikmanninum að vaxa ásmegin og átti hann eftir að vera drjúgur fyrir heimamenn ásamt Kristni Harðarsyni, þrautreyndum leikmanni heimamanna sem átti mjög góðan síðari hálfleik og virtist alltaf vera mættur til að setja niður mikilvæg skot eða taka lykilfráköst.
 
Ármann hafði leitt allan leikinn en um miðjan fjórða leikhluta fór að draga verulega til tíðinda. Þá náðu heimamenn að minnka muninn í 66-68 og við tók taugtrekkjandi tími þar sem bæði lið misstu boltann nokkuð ítrekað og náðu ekki að skora. En á endanum voru það heimamenn sem hjuggu á hnútinn og jöfnuðu leikinn. Við þetta færðist aukinn kraftur í heimamenn og Davíð Arnar Ragnarsson, sem lítið hafði borið á framan af leik, stal boltanum glæsilega og kom Hetti yfir við gífurleg fagnaðarlæti en leikurinn fór fram fyrir fullu húsi áhorfenda sem hvöttu sína menn óspart. Eftir þetta var eins og mesti krafturinn væri úr gestunum og þó þeir gæfust ekki upp var sigur heimamanna í raun ekki í hættu. Niðurstaðan 78-72 sigur Hattarmanna sem fögnuðu vel og innilega.
 
Bæði lið sýndu ágæta takta í dag. Lið Ármanns er vel skipulagt og ágætlega mannað. Bestu leikmenn þeirra í kvöld voru unglingalandsliðsmaðurinn Daði Berg Grétarsson sem var illviðráðanlegur og miðherjinn Þorsteinn Húnfjörð en báðir skoruðu 14 stig. En Hattarmenn sýndu meiri baráttuanda og óhætt að segja að heimavöllurinn hafi haft mikið að segja í kvöld. Björn þjálfari heimamanna sagði í spjalli eftir leik að hann hafi verið mjög ánægður með andann í liðinu. Kevin Jolley hafi staðið sig ótrúlega vel miðað við að hafa spilað hálflasinn og að útihlaupin og dugnaður á undirbúningstímabilinu hafi skilað liðinu þessum sigri enda hafi gestirnir hálfpartinn sprungið á lokakaflanum. Bestir í liði heimamanna voru þeir Kevin Jolley með 28 stig og 21 frákast, Kristinn Harðarson sem átti frábæran dag með 15 stig og Ágúst Dearborn sem skoraði 10 stig og stjórnaði leiknum eins og herforingi. Þá skoraði Björgvin Karl Gunnarsson einnig 10 stig.
 
Umfjöllun og mynd: Stefán Bogi
Sjá fleiri myndir á www.hottur.is/korfubolti  
Fréttir
- Auglýsing -