Það var boðið upp á hörkuleik í dag í Röstinni þegar ÍG og Breiðablik mættust í 1.deild karla. Breiðablik var fyrir leikinn í öðru sæti deildarinnar en ÍG menn í því fjórða.
Í byrjunarliði ÍG voru reynsluboltarnir Guðmundur Bragason og Helgi Jónas Guðfinnsson, knattspyrnumaðurinn knái Orri Freyr Hjaltalín ásamt Ásgeiri Ásgeirssyni og Hilmari Hafsteinssyni. Hjá Breiðablik voru það Arnar Pétursson, Sigmar Logi Björnsson, Hraunar Karl Guðmundsson, Atli Örn Gunnarsson og Þorsteinn Gunnlaugsson sem byrjuðu leikinn.
Leikurinn fór vel af stað og var Breiðablik skrefinu á undan ÍG mönnum og leiddu 14-19 þegar um 2 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. ÍG endaði þá leikhlutann með 10-0 áhlaupi og leiddu í lok 1.leikhluta 24-19. ÍG byrjaði 2.leikhlutann af krafti og var orðinn 10 stiga munur innan skammst og var hann þegar mest var 13 stig um miðjan leikhlutann. Blikar voru ekki tilbúnir að gefa eftir og með mikillli baráttu seinni helming leikhlutans náðu þeir að saxa á forskotið og með þremur körfum í röð frá Þorsteini Gunnlaugssyni var staðan orðin 48-43. Mikill hraði var í leiknum og hiti í mönnum á þessum tímapunkti sem hélst út leikinn og þegar um 30 sekúndur eru eftir af fyrri hálfleik jafnar Ægir Hreinn Bjarnason leikinn fyrir Breiðablik 48-48. Það var síðan Helgi Jónas Guðfinnsson sem setur niður 2 víti í lok leikhlutans og ÍG menn leiða 50-48 í hálfleik eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik.
Hjá ÍG var Helgi Jónas Guðfinnsson stigahæstur í hálfleik með 14 stig og Guðmundur Bragason með 11 stig. Hjá Breiðablik var Þorsteinn Gunnlaugsson með 11 stig og Sigmar Logi Björnsson og Hraunar Karl Guðmundsson með 9 stig hvor.
Seinni hálfleikur fór ansi hægt af stað og var Þorsteinn Gunnlaugsson eini leikmaðurinn á vellinum sem tókst að setja boltann í körfuna og skoraði hann 5 fyrstu stig leikhlutans og tók það rúmlega 3 mínútur og staðan orðin 50-53 fyrir Breiðablik. Um miðjan leikhluta var staðan 52-54 og ÍG menn aðeins búnir að skora 2 stig í leikhlutanum og mikill pirringur í gangi inn á vellinum sem endaði á því að Guðmundur Bragason fékk dæmda á sig tæknivillu. Á þeim tímapunkti var Orra Frey Hjaltalín skipt inn á hjá ÍG og vakti hann leikmenn beggja liða upp af þeirri deyfð sem hafði verið í gangi inn á vellinum. Hraðinn í leiknum jókst til muna sem og nýting leikmanna og á stuttum tíma var ÍG komnir með yfirhöndina og leiddu 67-63 í lok þriðja leikhluta.
Spennan hélt áfram í fjórða leikhluta og var mikill hiti í leikmönnum. ÍG leiddi en Breiðablik var aldrei langt undan. Snemma í leikhlutanum skoraði Helgi Jónas þriggja stiga körfu úr erfiðu færi auk þess sem brotið var á honum og var munurinn þá orðinn 7 stig, 76-69. En með mikilli baráttu jöfnuðu Blikar leikinn 87-87 þegar rúmlega 1 mínúta var eftir. Helgi Jónas skorar næstu 4 stigin af vítalínunni og er staðan 91-87 þegar 18 sekúndur eru eftir. Blikar taka leikhlé og fengu innkast á sóknarhelmingi vallarins í framhaldinu og skorar Arnar Pétursson ævintýranlega 3ja stiga körfu beint úr innkastinu. Blikar brjóta strax á ÍG og setur Jóhann Þór Ólafsson aðeins fyrra vítið ofan í og klikkar á því seinna en þá nær Helgi Jónas gríðarlega mikilvægu sóknarfrákasti fyrir ÍG og er brotið strax á honum. Helgi Jónas setur bæði vítin ofan í og staðan orðin 94-90 fyrir ÍG og aðeins nokkrar sekúndur eftir. Arnar Pétursson reynir erfitt þriggja stiga skot af löngu færi og boltinn endar útaf og aftur brjóta Blikar strax eftir innkastið og Helgi Jónas klárar leikinn af vítalínunni með því að setja annað vítaskotið ofan í. Lokatölur 95-90 í æsispennandi leik.
Í kvöld vantaði Harald Jón Jóhannesson (18,8 stig að meðaltai) og Helga Már Helgason (10,3 stig að meðaltali) í lið ÍG en það lítur út fyrir að ÍG menn geti endalaust fundið heldri landsliðsmenn til að draga fram skóna og í kvöld mætti í búning Nökkvi Már Jónsson sem átti fínan leik. Til gamans má benda á að samtals eru þeir Guðmundur Bragason, Helgi Jónas Guðfinnsson og Nökkvi Már Jónsson með 276 landsleiki á ferlinum og má með sanni segja að reynslan hafi klárað leikinn á lokasprettinum í kvöld.
Hjá ÍG átti Helgi Jónas frábæran leik með 35 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar og Gummi Braga var sterkur fyrir og leiddi liðið áfram með 15 stig og 12 fráköst, þar af 8 í sókn. Hilmar Hafsteinsson var með 17 stig og Orri Freyr Hjaltalín með 10 stig.
Hjá Breiðablik átti Þorsteinn Gunnlaugsson flottan leik með 21 stig og 16 fráköst auk Hraunars Karls Guðmundssonar (17 stig og 9 fráköst), Sigmari Loga Björnssyni (16 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar) og Arnari Péturssyni (16 stig).
Texti: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Mynd/ Þjálfari Grindavíkur, Helgi Jónas Guðfinnsson, hefur engu gleymt og lét 35 stigum rigna yfir Blika í dag.