spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Öruggur sigur Fjölnis á Ísafirði

Umfjöllun: Öruggur sigur Fjölnis á Ísafirði

KFÍ tók á móti fersku liði Fjölnis úr Grafarvogi í kvöld. Bæði liðin unnu leiki sína í fyrstu umferð og mikilvægi þessa leiks hefðu átt að vera öllum ljós. Byrjunarliðin skipuðu þeir: Jón Hrafn, Mirko Stefán, Chris, BJ og Pance frá KFÍ, og það voru svo þeir Christpher, Tómas, Arnþór, Jón og Árni frá Fjölni.
KFÍ byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 5:0 með körfum frá Pance og Mirko Stefáni. En lengra náði það ekki og Fjölnir jafnaði 7:7 með góðum körfum frá Tómasi og Árna. Eftir það var þessi leikhluti spennandi og í járnum, en Gunnar Ólafsson kom ferskur af bekknum undir lokin og lauk þessum leikhluta með flautukörfu sem sveið undan. Staðan var þá orðin 27:30 og leikurinn í raun mjög opinn. Það virtist svo vera einhver tvö önnur lið sem mættu til leiks í annan fjórðung. Heimamenn virtust þreyttir og hægir, á meðan gestirnir fóru á kostum. Árni Ragnarsson var traustur og lagði til 9 stig í þessum leikhluta um leið og hann leiddi lið sitt bæði í sókn og vörn. Fjölnir vann þennan leikhluta 9:23 og Ísfirðingar voru komnir ofan í djúpa holu. Staðan orðin 36:53 fyrir Fjölni.
 
Eftir góðar ræður í leikhléi mættu liðin til leiks og næg tækifæri fyrir KFÍ til þess að snúa leiknum sér í vil. Því miður fyrir þá tókst það ekki að þessu sinni. Fjölnis liðið var mjög öruggt á þessum tímapunkti og bættu þeir heldur við forystuna. Staðan var því orðin 46:69 og útlitið orðið heldur dökkt fyrir KFÍ áður en síðasti fjórðungur hófst. Fjölnismenn stóðust nokkuð auðveldlega allar áskoranir gestgjafanna á lokakaflanum og lönduðu mjög sannfærandi sigri.
 
Það er fullkomin ástæða til þess að hrósa Fjölnisliðinu, sem sýndi prýðisgóðan leik í kvöld. Leikmenn léku af ákafa, vel skipulagðir og koma undan sumri vel þjálfaðir og í góðu líkamsformi. Gaman að fylgjast með öllum þessum ungu leikmönnum þeirra, sem hafa enn á ný bætt sig á milli ára. Greinilegt að þessi uppskrift Grafarvogsbúa að því hvernig á að ala upp körfuboltamenn og byggja upp sjálfstraust er að virka vel – en það voru auðvitað engar fréttir!
 
Um KFÍ er það að segja að miklu meira býr í því liði en þeir sýndu í kvöld. Virtust hafa hægt verulega á leik sínum frá því sem sést hefur til liðsins síðasta árið. Það kann að hafa orðið til þess að leikur þeirra leit ekki sannfærandi út á köflum, eða jafnvel hann hafi einkennst af einhverju andleysi. Enginn nema Chris sýndi eitthvað í líkingu við t.d. frammistöðu liðsins í síðasta leik. Þeir ættu að geta lært margt af þessari reynslu og nýtt sér í næstu umferðum. Að lokum er rétt að geta þess að dómarar leiksins höfðu mjög góð tök á leiknum og voru fumlausir og öruggir.
 
KFÍ: Christopher Miller-Williams 20/15 fráköst, Bradford Harry Spencer 15, Mirko Stefan Virijevic 11/6 fráköst, Stefán D. Garcia 7/4 stolna, Pance Ilievski 7, Jón H. Baldvinsson 5/5 fráköst, Guðmundur J. Guðmundsson 2, Leó Sigurðsson 0, Jón K. Sævarsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Gautur A. Guðjónsson 0.
 
Fjölnir: Árni Ragnarsson 22/12 fráköst, Christopher Matthews 15/9 fráköst, Tómas H. Tómasson 13, Arnþór F. Guðmundsson 12, Silvester C. Spicer 11/5 fráköst, Björgvin H. Ríkharðsson 9/5 fráköst, Elvar Sigurðsson 5, Gunnar Ólafsson 4, Jón Sverrisson 2/6 fráköst, Friðrik Karlsson 2.
 
Dómarar: Davíð Kr. Hreiðarsson, Halldór G. Jensson og Aðalsteinn Hrafnkellsson.
 
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson
Fréttir
- Auglýsing -