spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Keflvíkingar í fantaformi og kláruðu KR örugglega

Umfjöllun: Keflvíkingar í fantaformi og kláruðu KR örugglega

Keflavík skellti sér eitt liða á toppinn í Iceland Express deild kvenna þegar uppgjör toppliðanna fór fram. KR var aldrei langt undan en þéttur varnarleikur gerði KR erfitt um vik og vann Keflavík verðskuldaðan 70-84 sigur í DHL-Höllinni í kvöld. Jaleesa Butler átti enn einn stórleikinn hjá Keflavík með 27 stig og 14 fráköst en byrjunarlið Keflavíkur skoraði öll 84 stig liðsins í leiknum. Hjá KR var Erica Prosser með 27 stig og 8 fráköst.
 
Keflvíkingar mættu með 2-3 svæðisvörn og svæðispressu eftir skoraða körfu en Bryndís Guðmundsdóttir er þessu öllu þaulkunn og skoraði 8 af 11 fyrstu stigum KR í leiknum. Þegar leið á leikhlutann fór vörn gestanna að þéttast. Keflvíkingar báðu um leikhlé í stöðunni 9-6 KR í vil en komu grimmar út og snéru taflinu sér í vil.
 
Jaleesa Butler var illviðráðanleg og skoraði 12 stig í fyrsta leikhluta. KR-ingar áttu erfiðara og erfiðara með að leysa pressuna og svo svæðisvörnina og töpuðu boltanum sex sinnum í leikhlutanum.
 
Birna Valgarðsdóttir breytti stöðunni svo í 16-25 með þriggja stiga körfu og lokastaðan reyndist 16-27 eftir fyrsta leikhluta. Mögnuð byrjun á leiknum hjá Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur sem settu stigamet á KR þetta tímabilið í DHL-Höllinni. Fyrir leikinn í kvöld hafði gestalið mest skorað 16 stig á KR í fyrsta leikhluta en Keflavík gerði gott betur með 27 stigum!
 
Ekkert var búið að skora í öðrum leikhluta eftir tæplega fjögurra mínútna leik! Nístingskuldi í sóknarleik beggja liða þegar Sigrún Ámundadóttir gerði fyrstu stig leikhlutans með þriggja stiga skoti og 5.50mín. til hálfleiks. Varnir beggja liða voru fínar og þvinguðu fram þónokkur mistök á báða bóga en ekkert gekk í sóknarleiknum og fór leikhlutinn 11-7 KR í vil.
 
Erica Prosser átti góðan sprett er hún gerði sex stig í röð fyrir KR, stal boltanum í tvígang, brunaði upp, skoraði og fékk villu að auki og hleypti nýju blóði í leik KR-inga. Staðan í leikhléi var 27-34 Keflvíkingum í vil sem voru rétt skugginn af sjálfum sér frá fyrsta leikhluta.
 
Margrét Kara Sturludóttir skoraði ekki stig í fyrri hálfleik og vó það þungt í herbúðum KR, Bryndís Guðmundsdóttir sem gerði 8 stig í fyrsta leikhluta skoraði ekki körfu í öðrum. Erica Prosser var með 11 stig í leikhléi hjá röndóttum en í liði Keflavíkur var Jaleesa Butler með 18 stig og 8 fráköst og Birna Valgarðsdóttir var með 8 stig og 7 fráköst.
 
Allt annað var að sjá til beggja liða í þriðja leikhluta, meiri hraði og meira skorað en í öðrum leikhluta. Keflvíkingar byrjuðu vel og komust í 27-40 með 6-0 áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks en þá rönkuðu KR-ingar við sér.
 
Erica Prosser hélt áfram að vera helsti sóknarbroddurinn í liði KR og Helga Hallgrímsdóttir var að berjast vel í liði Keflavíkur. Prosser kom með tvo þrista í röð fyrir KR og minnkaði muninn í 49-54 en Pálína Gunnlaugsdóttir átti síðasta orðið í leikhlutanum með þrist fyrir Keflvíkinga sem leiddu 53-59 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Keflvíkingar voru ávallt með forystuna í fjórða leikhluta, röndóttar minnkuðu muninn í 56-61 en það vantaði ávallt herslumun til þess að brjóta ísinn margfræga svo Keflavík gekk á lagið og jók muninn í 56-66. Birna Valgarðsdóttir átti glimrandi dag með Keflavík og fór fremst í flokki á lokasprettinum. KR tók leikhlé í stöðunni 66-74 þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka. Keflvíkingar neituðu þeim að komast nærri og kláruðu leikinn 70-84 og fóru einar í toppsætið.
 
 
Stigaskor:
 
KR-Keflavík 70-84 (16-27, 11-7, 26-25, 17-25)
 
KR: Erica Prosser 27/4 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 12/9 fráköst/5 stolnir, Bryndís Guðmundsdóttir 12, Hafrún Hálfdánardóttir 10/5 fráköst, Margrét Kara Sturludóttir 7/13 fráköst/7 stoðsendingar/3 varin skot, Helga Einarsdóttir 2/7 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0.
 
Keflavík: Jaleesa Butler 27/14 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir/8 varin skot, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 24/12 fráköst/5 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 13/11 fráköst/7 stoðsendingar, Sara Rún Hinriksdóttir 12, Helga Hallgrímsdóttir 8/6 fráköst, Lovísa Falsdóttir 0, Sandra Lind Þrastardóttir 0, Sigrún Albertsdóttir 0, Soffía Rún Skúladóttir 0, Hrund Jóhannsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0.
 
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Halldór Geir Jensson
 
Byrjunarliðin:
 
KR: Erica Prosser, Margrét Kara Sturludóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Hafrún Hálfdánardóttir.
 
Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Birna Valgarðsdóttir, Helga Hallgrímsdóttir og Jaleesa Butler.
 
Umfjöllun og myndir / Jón Björn Ólafsson – [email protected] 
Fréttir
- Auglýsing -