Lokatölur í Toyota-höllinni í kvöld voru 85-76 fyrir Keflavík eftir baráttuleik í Iceland Express deild karla. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu sem hélst út leikinn hjá báðum liðum og var hin ágætasta skemmtun. Charles Parker fór mikinn fyrir Keflavík á báðum endum vallarins og endaði hann með 24 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Jarryd Cole var einnig flottur í leiknum og endaði með 15 sig og 12 fráköst. Hjá Haukum var Jovanni Shuler stigahæstur með 18 stig og 16 fráköst.
Leikurinn byrjaði með mikilli baráttu á fyrstu mínútu leiksins. Bæði lið virtust vera tilbúin í leikinn og ætlaði hvorugt þeirra að gefa neitt eftir. En þegar líða fór á fyrsta leikhlutann leit út fyrir að Keflavík ætlaði að fara að síga fram úr en þá kom Shuler með tvo þrista á stuttum tíma. Eftir það var nokkuð jafnt á tölum. Davíð Páll Hermannsson átti svo síðasta orðið í leikhlutanum þar sem hann smellti flottum þrist niður um leið og flautan gall og staðan 20-20.
Áfram hélt baráttan áfram í öðrum leikhluta og hvorugt liðið náði að hrista hitt liðið frá sér. Vörn Keflavíkur var galopin á köflum þar sem þeir voru að setja tvo menn á boltann og taka sénsa hér og þar. Haukarnir voru hins vegar ekki að nýta sér opnu skotin sem hefði getað gefið þeim gott forskot í leikhlutanum. Leikur Keflavíkur var ekki heldur upp á marga fiska á þessum tíma og þegar Haukarnir fóru að setja skotin sín niður máttu þeir þakka Parker fyrir að halda sér algjörlega inni í leiknum. En Parker spilaði frábærlega í leikhlutanum og var kominn með 19 stig í hálfleik sem endaði 42-39 Keflavík í vil.
Einhver vel valin orð hafa verið sögð í hálfleik hjá Keflavík því það virtist vera allt annað lið á vellinum í byrjun þriðja leikhluta. Þeir skoruðu fyrstu níu stig leikhlutans og á þremur mínútum var staðan orðin 51-39. Haukarnir voru þá farnir að elta og þegar það var farið að líta út fyrir að þeir væru að fara að koma til baka þá bætti Keflavík aðeins í og hélt Haukunum frá sér. Eftir leikhlutann var staðan orðin 67-55 þar sem Parker var kominn með 22 stig.
Í upphafi loka leikhlutans virtust Haukarnir hafa vaknað og með þrist frá Shuler var staðan orðin 72-66 og allt leit út fyrir að þeir væru að fara að koma til baka. En þá setti Keflavík í lás og skoraði næstu 11 stig leiksins. Þeirri forystu héldu þeir út leikinn og unnu 85-76.
Stig Keflavíkur: Charles Parker 24 stig (11 fráköst og 6 stoðsendingar), Steven Gerard 17 stig, Jarryd Cole 15 stig (12 fráköst), Magnús Þór Gunnarsson 12 stig (6 stoðsendingar), Valur Orri Valsson 5 stig, Almar Guðbrandsson 4 stig, Gunnar Stefánsson 3 stig, Ragnar Albertsson 2 stig, Sigurður Gunnarsson 2 stig, Andri Skúlason 1, Andri Daníelsson 0 stig og Hafliði Már Brynjarsson 0 stig.
Stig Hauka: Jovanni Shuler 18 stig (16 fráköst), Christopher Smith 17 stig (8 fráköst), Örn Sigurðarson 15 stig, Sævar Ingi Haraldsson 10 stig (7 stoðsendingar), Haukur Óskarsson 6 stig, Davíð Páll Hermannsson 5 stig, Óskar Ingi Magnússon 4 stig, Helgi Björn Einarsson 1 stig, Emil Barja 0 stig (5 stoðsendingar), Guðmundur Kári Sævarsson 0 stig, Steinar Aronsson 0 stig og Ágúst Hilmar Dearborn 0 stig.
Mynd/ Eyþór Sæm – [email protected] – www.vf.is
Umfjöllun/ [email protected]