spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: ÍR tryggði sér 7. sætið

Umfjöllun: ÍR tryggði sér 7. sætið

Grindavík og ÍR mættust í hreinum úrslitaleik um 7. sætið í Dominosdeildinni í lokaumferðinni sem fram fór í kvöld.  Gulir unnu fyrri leikinn með 25 stigum en innbyrðisstaða kom málinu nákvæmlega ekkert við þar sem liðin voru jöfn að stigum og ljóst að sigurvegarinn færi 2 stigum fram úr.  Þar sem Stjörnumenn hafa verið gríðarlega sterkir síðan fyrir áramót og sérstaklega með komu Brandon Rozzel, þá var þetta í raun bara ansi mikilvægur leikur – með fullri virðingu fyrir grænu ljónunum úr Njarðvík en liðið sem endar í 7. sæti mætir Njarðvík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

En að leiknum.  Liðin voru ekki beint á fjölinni sinni til að byrja með og lítil hittni, hvort sem stífri vörn var að þakka eða hvað.  Staðan 19-19 eftir fyrsta fjórðunginn og ekki hægt að taka neinn út fyrir sviga sem skaraði fram úr.

Ef bæði lið voru í aftursætinu í fyrsta fjórðungi og færðu sig fram í að honum loknum, þá má segja að það hafi verið heimamenn sem settust undir stýri því þeir réðu frekar ferðinni.  Eftir rúmar 6 mínútur voru þeir komnir 9 stigum yfir, 38-29.  Þeir héldu sér vinstra megin það sem eftir lifði hálfleiksins og leiddu að honum loknum, 49-41.  Vörn heimamanna var augljóslega sterk – eða hittni ÍR-inga léleg en aftur héldu þeir gestunum við 20 stiga vegginn, skoruðu sjálfir 30 stig í 2. leikhluta eins og glöggir reiknimeistarar kom fljótt auga á.

Byrjunarlið Grindavíkur skipti stigunum afskaplega bróðurlega á milli sín, S. Arnar hæstur með 10 stig og Lewis með 7, aðrir þar á milli.  Hjá ÍR voru 3 komnir yfir hinn rómaða 10 stiga múr, Siggi Þorsteins og Gerald með 10 stig en Kapers með 12 stig.  Framlagið af bekk þeirra 0,0…..

Ef ég á að halda áfram í þessu bílstjóra-myndlíkingarmáli, þá má segja að liðin hafi skipt um sæti – eða að skipt hafi verið á bíl í Englandi (sætið hægra megin….  ok, ég rata út…)  ÍR-ingar mættu mun beittari og áttu heimamenn í stökustu vandræðum með að koma boltanum ofan í körfuna og eftir 6 mínútna leik voru gestirnir komnir 4 stigum yfir, 57-61.  Liðin héldust þannig í hendur út fjórðunginn og var staðan fyrir lokafjórðung liðanna í deildarkeppni á þessu tímabili, 65-69.  ÍR vann 3. leikhlutann sem sagt 16-28.  Ljóst að barist yrði til síðasta svita- og blóðdropa!

Blóðið vall úr skoltum heimamanna eftir að ÍR-ingar settu „and-1“ í byrjun 4. leikhluta og eftir áhlaup þeirra sem endaði í jafnri stöðu, 74-74, tók Borce leikhlé.  Liðin skoruðu ekki til að byrja með eftir það en svo kom dómur sem undirrituðum hefur alltaf þótt vafasamur, þ.e. þegar brotið er í hraðupphlaupi og meira að segja var ekki hægt að flokka þetta sem hraðaupphlaup en það skipti því ekki að Aðalsteinn Hjartarson dæmdi óíþróttamannslega villu á S. Arnar.  Ég spyr, á varnarmaðurinn ekki bara frekar að leggja rauða dregilinn fyrir sóknarmanninn undir svona kringumstæðum í stað þess að reyna stela boltanum??  Hvað varð um að vilja brjóta til að stoppa leikinn?  Bull í mínum huga og vona ég að karfan snúi frá þessari vitleysu, svipað og fótboltinn gat snúið frá því að gefa markmanni rautt spjald sem reyndi við boltann þegar sóknarmaður var kominn einn inn fyrir.  Sama barátta hélt áfram og Sigurður Þorsteins kom ÍR 3 stigum yfir þegar rúm 1 ½ mínúta lifi leiks.  Siggi fékk svo kjörið tækifæri á að koma sínum mönnum í 5 stiga forystu en á óskiljanlegan máta klikkaði hann aleinn undir körfunni…  S. Arnar setti aðeins annað víta sinnum hinum megin og ÍR hélt í sókn og 50 sek eftir.  Capers klikkaði og Lewis tók erfitt og lélegt 3-stiga skot, brotið var á Capers sem kláraði, lokatölur 81-85 og ÍR tryggði sér því 7. sætið og þ.a.l., aðgöngumiða í Ljónagryfju Njarðvíkinga.  Þeir unnu þar ekki alls fyrir löngu og mæta væntanlega með kassann út í loftið!  Heimamanna bíður hið erfiða verkefni að fara í Garðabæinn en sælla minninga fyrir gula, þá fór sópurinn á loft í orðsins fyllstu merkingu síðast þegar liðin mættust í úrslitakeppninni en Grindavík sópaði Hlyni og félögum út 16-17 tímabilið og varð hársbreidd frá því að koma aftan að KR-ingum og hirða af þeim titilinn!  En það var þá og þetta er núna, ansi mikið þarf að gerast svo gulir endurtaki leikinn en það frábæra við íþróttir er að allt getur gerst!

Bestir sigurvegaranna í kvöld voru Kevin Capers og Siggi Þorstein.  Capers skoraði 25 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.  35 í framlag.  Siggi var með 20 stig og 8 fráköst, 24 í framlag.

Hjá heimamönnum skar sig enginn úr skorunarlega séð og þar lá kannski hundurinn grafinn.  Óli var framlagshæstur með 23 punkta, aðrir minna.

Fréttir
- Auglýsing -