spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: ÍR-ingar sóttu mikilvæg stig norður

Umfjöllun: ÍR-ingar sóttu mikilvæg stig norður

ÍR vann góðan sigur á Tindastóli í Síkinu í kvöld 70-81 í Iceland Express-deild karla.
Leikurinn byrjaði ágætilega fyrir Stólana, leiddu fyrsta leikhlutann með nokkrum stigum og virtust vera með yfirhöndina. Trey Hampton sá um að draga vagninn að venju í þessum leikhluta, og aðrir Stólar voru grimmir. Í öðrum leikhluta tóku ÍR-ingar að sér að leiða leikinn, en með góðum endaspretti fór forystan aftur í lið með Tindastól og heimamenn leiddu í hálfleik 37-32. Bæði lið voru að spila ágætis vörn í fyrra hálfleik og því lítið um það að boltinn færi ofan í körfuna eins og sást á stigatöflunni.

Athygli vakti að Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR inga eyddi engum tíma í að tala við sína menn í hálfleik heldur lét þá eyða öllu hálfleikshlénu að leika sér með boltann. Það virtist virka ágætlega því ÍR-ingarnir komu mun grimmari til leiks í seinni hálfleik. Sérstaklega áttu Stólarnir erfitt með að hemja bandaríska ítalann James Bartolotto og hinn deigseiga Nemjana Sovic sem voru allt í öllu í liði ÍR-inga. Helgi Rafn kom hins vegar mjög sterkur til leiks í þriðja leikhlutanum, setti nokkrar kraftkörfur og hélt stemningunni uppi í liði Tindastóls. Staðan í byrjun fjórða leikhluta 58-54 fyrir ÍR og fjölmargir áhorfendur voru byrjaðir að spenna sig fyrir æsispennandi lokakafla.

ÍR-ingar voru samt ekkert á því að hafa þetta spennandi. Nú veit undirritaður ekki afhverju Bartolotto skaut bara með einni hendi allan leikinn en það virtist virka ágætlega og ekki var Sovic síðri og skoruðu þeir félagar að vild á þessum tímapunkti. Á meðan gekk ekkert upp hjá Stólunum, sóknin var svakalega stirð og heimamenn fundu mikið fyrir því að hafa engan leikmann sem hægt var að leita til eða eins og kaninn kallar það; " go to guy". ÍR ingar náðu því um það bil 10 stiga forskoti og héldu því forskoti meira og minna til leiksloka þrátt fyrir hetjulega baráttu heimanna sem hentu aldrei handklæðinu inn á völlinn. Með smá heppni hefðu heimamenn komist inn í leikinn en stóru skotin fóru ekki ofan í.

ÍR-ingar keyra því glaðir heim í kvöld eftir sterkan sigur meðan Tindastóll er enn án stiga. Næstu leikir hjá Stólunum eru á móti Val heima og Haukum úti og án þess að hljóma alltof dramatískur, þá verður því ekki lýst með orðum hversu mikilvægir þeir leikir eru fyrir liðið.

Athyglisverðir punktar:

Stigahæstir í  liði Tindastóls voru: Trey 18 stig og Helgi Rafn 16 stig.
Stigahæstir í liði ÍR inga voru: Sovic og Bartolotti með 27 stig og Hjalti Friðriksson með 16.

Moe Miller var með 13 fráköst í leiknum og 2 stoðsendingar. Frekar óvenjuleg tölfræði fyrir leikstjórnanda.

ÍR ingar tóku 23 þriggja stigaskot og hittu úr 8 meðan Stólarnir tóku bara 13 og hittu úr 3.

Frekari tölfræði má finna hér


Umfjöllun/Björn Ingi Óskarsson

Mynd: James Bartolotta var stigahæstur á vellinum í kvöld ásamt félaga sinum Nemanja Sovic.
Fréttir
- Auglýsing -