spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Horton hetja KR gegn Þór

Umfjöllun: Horton hetja KR gegn Þór

 
Stutt er síðan KR og Þór Þorlákshöfn mættust í DHL-höllinni í Iceland Express deildinni en þá hafði KR sigur 90-84 í hörkuleik. Að þessu sinni var viðureign liðanna liður í riðlakeppni Lengjubikarsins, keppni sem sumir töldu að yrði ekki áhugaverð og spennandi, en annað kom á daginn.
Það tók ekki nema nokkrar sekúndur fyrir Hreggvið Magnússon að komast á blað en þriggjastiga bomba lengst utan af velli gaf fyrirheit um hvað var í vændum. KR liðið var með frumkvæðið til að byrja með og dreifðist stigaskorið jafnt meðan Michael Ringgold dró vagninn Þórsarar í upphafi. Hins vegar um miðjan leikhlutann kviknaði hreinlega í Guðmundi Jónssyni sem setti hvert langskotið af fætur öðru niður og Darrin Govens sem hafði farið hljóðlega af stað sýndi kunnulega takta. Þegar rúmar 2 mínútur lifðu af fyrsta leikhlutanum tók Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, leikhlé í stöðunni 19-24 en það dugði skammt þar sem Þórsarar leiddu 28-20 eftir fyrsta leikhlutann þó að Ringgold hefði klikkað á 4 vítum í röð undir lok leikhlutans.
 
Heldur hægðist á skorun liðanna í 2. leikhlutanum en gaman var að sjá yngri leikmenn liðanna fá að spreyta sig. Þórsarar héldur frumkvæðinu og splæsti Ringgold í glæsilega „put-back“ troðslu eftir frákast en það virðist vera orðinn hefð hjá honum því hann átti einnig eina slíka í deildarleiknum fyrr í mánuðinum. Títtnefndur Ringgold kom svo Þór yfir 42-33 þegar rétt rúmar 2 mínútur voru eftir af háfleiknum en gerði sig sekan um slæma dómgreind er hannn fékk óíþróttamannslega villu eftir barning við Skarphéðinn Ingason. KR nýtt tækifærið og náði að minnka muninn í þrjú stig, 39-42 í hálfleik.
 
Hjá heimamönnum var stigaskorið að dreifast vel en stigahæstur var Tairu með 9 stig og Hreggviður með 7. Hjá gestunum var Guðmundur Jónsson atkvæða mestur með 13, Ringgold með 11 og Govens með 9, öll í fyrsta leikhluta. Athygli vakti að hinn öflugi Darri Hilmarsson var ekki kominn á blað gegn sínum gömlu félögum. Finnur Atli og Skarphéðinn voru komnir með 3 villur hjá KR en sex leikmenn voru með 2 villur hjá Þór.
 
KR liðið kom grimmt útúr hálfleiknum en enginn ákveðnari en Ed Horton sem skoraði hverja körfuna á fætur annarri auk þess að búa til fyrir félaganna. Eftir um þriggja mínútna leik var Benedikt „Bond“ Guðmundssyni nóg boðið og splæsti í leikhlé enda KR-ingar komnir yfir 50-46. Lítt gekk upp hjá Grétari Erlendssyni á þessum kafla og voru honum oft mislagðar hendur í kringum körfu andstæðinganna. Marko Latinovic sýndi hinsvegar fín tilþrif þegar hann skoraði fallega „and-1“ körfu en við það fékk Finnur Atli sýna fjórðu villu og hélt á bekkinn. KR-ingar komust í 59-52 en þá náði Darri loksins að skora sín fyrstu stig í leiknum og við það hresstust gestirnir. Martin Hermannsson var að spila vel fyrir heimamenn og setti nokkra skemmtilega jumperar og var vel við hæfi að hann lokaði leikhlutanum með buzzer, 63-59.
 
Heimamenn héldu frumkvæðinu í byrjun fjórða leikhlutanum en þá fór Darrin Govens að ranka við sér eftir hægláta annan og þriðja leikhluta. Hann virtist hreinilega vera allt í öllu hjá gestunum á tímabili, hvort sem það var að verja skot, taka fráköst, gefa stoðsendingar eða koma boltanum ofaní körfuna þá var Govens að verki. Hann kom gestunum yfir 76-72 með 5 stigum á 10 sekúndna kafla þar sem Finnur Atli fékk sína í 5 villu og Hrafn tók leikhlé til að fara yfir málin þegar tæpar 5 mínútur voru eftir af venjulegum leik tíma. Áfram hélt barningurinn en Hreggviður jafnaði metinn í 79-79 með þriggja stiga körfu. Villu vandræðin voru farin að segja til sín en bæði Guðmundur Jónsson og Ringgold fóru útaf með 5 villur eftir brot á David Tairu. Tairu nýtti 3 af 4 vítum sem KR liðið fékk og staðn 82-79 og tæp mínúta eftir af leiknum.
 
Gestirnir fóru í sókn og fékk Grétar tvö góð þriggja stiga skot til að jafna metin en ofaní vildi boltinn ekki. Martin náði varnarfrákastinu en gestirnir töldu sér þann kost vænstann að brjóta og senda á KR liðið á línuna enda ekki nema um 25 sekúndur eftir af leiknum. Það herbragð gekk fullkomlega þar sem Ed Horton klúðraði báðum vítunum sínum og Þórsarar héldu í sókn. Govens fór snemma í erfitt þriggja stiga skot sem geigaði en Darri Hilmarsson hélt lífi í vonum gestanna með sóknarfrákasti. Boltinn fór útaf skömmu seinna en Þór hélt boltanum og tók leikhlé. Vel útfærð sókn leiddi til þess að Grétar fékk boltann opinn á toppnum eftir sendingu frá Govens, splæsti í rándýra gabbhreyfingu sem sendi Hreggvið fljúgandi framhjá og setti niður þristinn, jafnaði leikinn og sýndi að allt er þegar þrennt er. Tairu reyndi neyðar skot langt utan af velli fyrir sigrinum en það gekk ekki og þurfti því að framlengja þennan æsispennandi og skemmtilega leik.
 
Menn skyldu ætla að framlenging ætti að vera stressandi en svo virtist ekki vera því bæði lið léku á alls oddi sóknarlega í byrjun og skiptust á að skora. KR voru fetinu á undan til að byrja með en Govens kom Þór yfir með risa þrist 87-86. Liðin skiptust á að skora á næstu mínútum en með fimm stigum í röð frá Baldri Ragnarssyni og Latinovic virtust Þórsarar vera að klára dæmið þegar um mínúta var eftir og staðan 94-90. Martin sótti þá villu en við það fékk Baldur sýna fimmtu villu og fór á bekkinn. Martin var svellkaldur og setti bæði vítin sín en sókn Þórsara fór forgörðum í kjölfarið og áttu því heimamenn möguleika á að jafna. Tairu náði sóknarfrákasti eftir sitt eigið skot og braut Govens á honum sem þýddi að Tairu gat jafnað leikinn á línunni. Benedikt ákvað að reyna á taugar Tairu með leikhléi sem virtist virka því hann nýtti aðeins eitt af tveimur skotum og Þór með eins stigs forskot og með boltann þegar um 20 sekúndur voru eftir. KR liðið neyddist til að brjóta líkt og Þórsliðið hafði gert í lok venjulegs leiktíma og var það Latinovic sem fór á línuna þegar 8 sekúndur voru eftir í stöðunni 94-93 fyrir Þór. Fyrra skotið geigaði við mikinn fögnuð heimamanna enda möguleiki á að jafna eða vinna leikinn fyrir hendi, Latinovic klikkaði hins vegar líka á því seinna og boltinn barst til Hortons sem skaust fram einsog raketta, svigaði framhjá hverjum Þórsaranum á fætum öðrum og lagið boltann snyrtilega ofaní með vinstri hendi og tryggði KR liðinu sigur eftir æsispennandi leik.
 
Hjá gestunum var Darrin Govens þeirra besti maður með 29 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar þrátt fyrir að vera nánast fjarverandi allan annan og hálfan þriðja leikhlutann. Ringgold bætti við 20 stigum og 7 fráköstum en vítanýtingin hans var afleit 4/10 (þar af fóru þrjú spjaldið ofaní). Guðmundur Jónsson náði ekki að fylgja eftir frábærri byrjun og lauk leik með 13 stig sem og Latinovic. Frammistaða gestanna var hins vegar sterk í ljós þessi að hvorki Darri Hilmarsson né Grétar Erlendsson náðu sér á strik í leiknum, þrátt fyrir að sá síðarnefndi hefði jafnað leikinn í lok venjulegs leiktíma.
 
Hjá heimamönnum var Ed Horton að leika einna best en hann setti 20 stig þar af sigurkörfuna, hann klikkaði þó á vítunum tveimur í lok venjulegs leiktíma sem hefðu getað kostað liðið sigurinn. Tairu var stigahæstur með 23 stig en hann steig vel upp í lok leiks. Hreggviður bætti við 15 stigum. Innkoma Martins var einnig afar góð en hann lék lokamínútur venjulegs leiktíma og alla framlenginguna og skilaði 12 stigum í hús auk þess að vera frákastahæstur í liðinu með 8 slík.
 
KR situr því á toppi riðlisins í Lengjubikarnum með 4 stig, Þór kemur næst með 2 stig en ÍR og Skallagrímur hafa bæði ekkert sig en mætast í kvöld.
 
Leiðindaatvik átti sér stað eftir leik þegar nokkrir stuðningsmenn Þórs úr Græna Drekanum, sem höfðu staðið sig vel í stuðningi við sitt lið úr stúkunni, veittust að starfsmanni íþróttahússins er þeir þustu út eftir úrslitakörfu Hortons.
 
Punktar:
• Vel var mætt á völlinn en á fjórða hundrað manns mættu á völlin auk áhorfenda á KR-TV
• Leikirnir í Lengjubikarnum eru dæmdir með svokölluðu „Þriggja dómara kerfi“ en þeir Sigmundur Már Herbertsson, Davið Hreiðarsson og Jóhann Guðmundsson dæmdu leikinn af stakri prýði
• KR liðið hefur ekki verið að skjóta vel fyrir utan nýju þriggja stiga línuna í Lengjubikarnum en nýting þeirra er heil 9,7% eftir fyrstu tvo leikina.
• Góð tilþrif sáust á báða bóga en Ringgold og Horton skemmtu áhorfendum með fallegum troðslum.
• Hrafn Kristjánsson hélt uppá afmælið sitt með sigrinum en hann er úr 1972 árganginum sem hefur skilað sér vel í þjálfarastéttina en þeir Benedikt Guðmundsson og Ingi Þór Steinþórsson eru allir fæddir 1972.
• Bæði KR og Þór eiga framundan hörkuleik á heimavelli í deildinni í vikunni. KR fær Keflavík í heimsókn á fimmtuaginn en Stjarnan heimsækir Þór á föstudaginn. Leikirnir eru sem endranær kl 19.15.
 
Umfjöllun/FFS
Fréttir
- Auglýsing -