spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Haukavörnin öflug þegar topplið KR lá að Ásvöllum

Umfjöllun: Haukavörnin öflug þegar topplið KR lá að Ásvöllum

Haukar urðu í kvöld fyrstar til þess að leggja KR að velli í Iceland Express deild kvenna. Lokatölur að Ásvöllum voru 66-60 Haukum í vil sem léku glimrandi vörn í allt kvöld og héldu KR í 60 stigum en það er minnsta skor röndóttra á leiktíðinni í einum leik. Jence Ann Rhoads fór fyrir Haukum með 21 stig og 5 stoðsendingar. Hjá KR var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 16 stig og 4 fráköst.
 
Í kvöld sýndu Haukakonur þá hlið sem var uppi á liðinu á undirbúningstímabilinu. Með svona frammistöðu gera þær tilkall í toppbaráttuna en eru um þessar mundir í 4.-8. sæti ásamt Hamri, Val, Fjölni og Snæfell.
 
Fyrsti leikhluti var jafn, skemmtilegur og hraður, strax frá fyrstu mínútu var baráttan góð en í lok leikhlutans náðu Haukar rétt að síga framúr og leiddu 20-17.
 
Jence Ann Rhoads kom Haukum í 27-21 með körfu og villu að auki í upphafi annars leikhluta sem Haukar unnu 20-10! Vörn Haukakvenna var afbragðsgóð í leikhlutanum og KR-ingar fóru ansi oft illa með færin sín við körfuna.
 
Helga Einarsdóttir kom inn í leikhlutanum í liði KR eftir töluverða fjarveru vegna meiðsla og tók strax þrjú fráköst, akkur fyrir KR þegar hún kemst á fullt. Haukar áttu þó fyrri hálfleikinn og leiddu 40-27 í hálfleik þökk sé grimmum og góðum varnarleik.
 
Snemma í síðari hálfleik mætti Íris Sverrisdóttir með þriggja stiga körfu sem lak niður og breytti stöðunni í 47-30. Leikhlutinn var þó hnífjafn sem slíkur, lauk 13-13 og því leiddu Haukar 53-40 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Þegar 27 mínútur voru liðnar af leiknum hafði KR aðeins fengið dæmdar á sig fjórar villur, eitt sterkasta varnarlið deildarinnar lak á varnarendanum og Haukar gengu á lagið.
 
Í fjórða leikhluta kom Margrét Rósa Hálfdánardóttir með tvo vel tímasetta þrista, sá fyrri breytti stöðunni í 56-42 og sá síðari kom Haukum í 61-47. Ungur leikmaður með stórar körfur. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir má segja að Guðrún Ámundadóttir hafi rekið smiðshöggið fyrir Hauka, skellti niður þrist og Haukar leiddu 64-49.
 
Sigrún Ámundadóttir fór út af í liði KR með fimm villur þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en KR-ingar elfdust á lokasprettinum og náðu að minnka muninn í 66-60 þegar 49 sekúndur voru til leiksloka. Haukar héldu þó spilunum þétt að sér og ekki var meira skorað í leiknum og fyrsta tap KR því staðreynd þessa leiktíðina.
 
 
Stigaskor:
 
Haukar: Jence Ann Rhoads 21/5 stoðsendingar, Íris Sverrisdóttir 15/6 fráköst, Hope Elam 12/15 fráköst, Margrét Rósa Hálfdánardótir 8, Sara Pálmadóttir 4, Auður Íris Ólafsdóttir 3, Guðrún Ósk Ámundardóttir 3/5 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Kristín Fjóla Reynisdóttir 0, Lovísa Björt Henningsdóttir 0.
 
KR: Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 16/4 fráköst, Erica Prosser 15, Hafrún Hálfdánardóttir 11, Margrét Kara Sturludóttir 8/6 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 8/12 fráköst/3 varin skot, Helga Einarsdóttir 2/4 fráköst, Sólrún Sæmundsdóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0/6 fráköst, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Anna María Ævarsdóttir 0.
 
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Ágúst Jensson
 
Umfjöllun og myndir/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -