spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Haukar komu til baka á lokamínútunum

Umfjöllun: Haukar komu til baka á lokamínútunum

Haukar og Keflavík mættust undir sannkölluðum kjöraðstæðum á Ásvöllum í dag á sjálfum kjördeginum. Leikurinn var mjög sveiflukenndur og liðin skiptust á áhlaupum allann leikinn. Heimaliðið átti þó seinasta áhlaupið og vann leikinn með naumindum, 81-78.
 

Leikurinn hófst með jöfnum leik í blábyrjun en svo fóru Keflavíkurpíurnar að rúlla og staðan var fljótt komin upp í 11-17 eftir 5 mínútur. Helena hafði þá skorað öll stig heimastúlkna og lítið að frétta hjá öðrum leikmönnum liðsins. Næst tók Cherise Daniel að sér byrðina fyrir Hauka, en hún skoraði næstu 8 stig í röð fyrir þær hvítklæddu og jafnaði muninn í 19-19. Liðin voru mikið að skiptast á stuttum áhlaupum en Keflvíkingar voru þó alltaf með forystuna eftir að Haukar náðu að jafna í fyrsta leikhluta.

Þegar komið var í lokaleikhlutann lá ljóst fyrir að heimastúlkur þyrftu að taka sig á og breyta um taktík, sem þær og gerðu. Þegar ca. sex mínútur lifðu af leiknum tóku þær sig á í vörninni og hófu áhlaup sem lauk með 3 stiga sigri þeirra á lokamínútunni. Staðan að leikslokum var því 81-78, Haukum í vil.
 

Þáttaskil

Haukar settu pressu á fullan völl undir lokin og jóku ákefðina í vörninni sinni á hálfum velli. Á lokamínútunum var þetta nóg til að Keflvíkingar brotnuðu og töpuðu að lokum með þremur stigum. Þær fengu þó lokaskotið, en Erna Hákonardóttir gat ekki nýtt það til að merja framlengingu.
 

Hetjan

Liðsheild Hauka vann þetta í kvöld og Ingvar Þór fær hrósið fyrir að hrista upp í vörn liðsins á lokamínútunum til að kveikja í stelpunum sínum undir lokin.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Það getur engin tölfræðiþáttur séð fyrir svona niðurbrot liðs en það má benda á að Helena Sverrisdóttir og Cherise Daniel hittu úr öllum vítaskotum sínum fyrir Hauka (17/17) og voru þær einu sem tóku víti fyrir heimaliðið í dag. Keflvíkingar tóku aftur á móti ekki nema 9 vítaskot samanlagt og nýttu einungis 5 þeirra (55%).
 

Kjarninn

Keflavík áttu að vinna þennan leik og voru spilandi á blússandi sjálfstrausti allt fram til síðustu mínútna leiksins. Það er þó ekki nóg að spila 35 góðar mínútur, sérstaklega á móti liði eins og Haukum. Stúlkurnar úr Hafnarfirði mega líka vera sáttar við að hafa komið til baka og klárað leikinn á lokametrunum þrátt fyrir slaka byrjun og lítið framlag frá minni spámönnum liðsins framan af.

Næsti leikur liðanna er þá 1. nóvember, en Haukar munu heimsækja Skallagrím í Borgarnesi á meðan að Keflavík fær Njarðvík í heimsókn til sín.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bára Dröfn
Viðtöl eftir leikinn:
Ingvar Þór: Þetta var orðið fullþægilegt fyrir þær
Sverrir Þór: Þær eiga að þora að vera inn á sama hver staðan er
Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir: Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -