spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Haukar kæfðu sigurvonir Breiðabliks í Smáranum

Umfjöllun: Haukar kæfðu sigurvonir Breiðabliks í Smáranum

Haukar heimsóttu Breiðablik í Smáranum í síðasta deildarleik hvors liðs fyrir landsleikjahléið. Blikar héldu í við Haukana fram að hálfleik en voru skildar eftir í þriðja leikhluta. Gestirnir sigldu síðan sigrinum í höfn í lokin, 57-74.
 

Gangur leiksins

Leikurinn hófst ágætlega hjá heimastúlkunum, en þær leiddu leikinn fyrstu fimm mínúturnar með 1-2 stigum. Þá tóku Haukar sig til og hófu að spila meiri vörn sem að skilaði sér í 7 stigum sem Breiðablik gat ekki svarað, og raunar skoruðu þær ekki meira í leikhlutanum. Staðan var því 10-17 eftir fyrsta leikhlutann.

Blikar tóku sitt eigið litla áhlaup í upphafi annars leikhlutans og jöfnuðu stöðuna í 17-17 á rétt rúmum 90 sekúndum. Liðin hófu þá að skiptast á körfum og forystunni en Haukar náðu hægt og rólega yfirhöndinni með góðri vörn og 10 stigum úr hraðaupphlaupum. Heimaliðið var þó ekki hætt þrátt fyrir þennan hiksta og eftir glæsilega þriggja stiga körfu frá Auði Írisi Ólafsdóttur á lokasekúndu fyrri hálfleiks var Breiðablik sex stigum á eftir gestunum í hálfleik, 31-37. Whitney Knight, nýr erlendur leikmaður Blika, lenti snemma í villuvandræðum og náði sér aldrei almennilega á strik, en hún hitti mjög illa úr skotum sínum í fyrri hálfleik gegn stífri vörn Hauka og skoraði einungis 5 stig í fyrri hálfleik (og alls 12 stig í öllum leiknum).

Ef Breiðablik hikstaði í fyrri hálfleik þá fékk liðið allsherjar hóstakast í þriðja leikhluta. Á fyrstu átta mínútum seinni hálfleiksins gátu Blikar aðeins skorað úr 4 af 5 vítaskotum og brenndu af 12 skotum utan af velli. Á sama tíma gekk margt upp hjá Haukum og þær skoruðu 15 stig með góðri vörn og góðum sóknum. Seinustu tvær mínúturnar gátu Blikastelpurnar aðeins lagað stöðuna en þó ekki meira en svo að stigaskor leikhlutans varð 8-18, gestunum í vil og staðan orðin 39-55.

Lokafjórðungurinn var nokkuð jafnari en leikhlutinn á undan og Haukabekkurinn fékk aðeins að spreyta sig og skilaði ágætu framlagi meðan Blikar prófuðu svæðisvörn sem hægði á Haukunum og nokkrar úr byrjunarliði Blika gátu rétt hlut sinn aðeins og spiluðu meira eins og þær áttu að gera allan leikinn. Það sem blasti mest við gegnum leikinn var að Breiðablik virtist ekki ráða við að spila gegn harðri vörn andstæðinganna og sóknirnar þeirra voru oft lengi að fara af stað og þær reyndu oft neyðarskot með fáeinar sekúndur eftir á skotklukkunni. Lokastaðan varð eins og áður sagði 57-74, Haukum í vil.
 

Þáttaskil

Þriðji leikhlutinn var þar sem þáttaskilin urðu og að eilitlu leyti fyrsti leikhlutinn líka. Breiðablik skoraði aðeins 10 stig í fyrsta leikhlutanum og 8 stig í þriðja á meðan að Haukastelpur voru miklu stöðugari í stigaskori, en sveiflan í stigaskori þeirra var mest 3 stig milli leikhluta. Hjá Breiðablik var sveiflan öllu meiri, eða 13 stig milli besta og versta leikhlutans.
 

Næstum því tvær (og eiginlega þrjár) með þrefalda tvennu

Helena Sverrisdóttir og Whitney Frazier voru báðar góðar fyrir þær rauðklæddu í kvöld, en Helena var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu á meðan að Whitney náði tíundu stoðsendingunni sinni í seinustu sókninni áður en henni var skipt út af. Helena skoraði 17 stig, tók 14 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og var með 31 í framlag á meðan að Whitney var með 14 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Þóra Kristín Jónsdóttir var líka nokkuð öflug í leiknum og hefði með aðeins meiri greddu í fráköstum og stolnum boltum getað slysast í þrefalda tvennu, en hún skoraði 19 stig, tók 7 fráköst og stal heilum 5 boltum.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Það sem vann leikinn var að lokum fráköstin á báðum endum vallarins. Haukar tóku fleiri varnarfráköst en Breiðablik (37 á móti 24) og hirtu líka fleiri sóknarfráköst (16 gegn 8). Sóknarfráköstin skiluðu sér líka í fleiri sóknartækifærum, en Haukar skoruðu 18 "second chance points" gegn aðeins 4 slíkum hjá Breiðablik.
 

Kjarninn

Haukar hafa þá tryggt sér toppsætið í deildinni í bili og geta þá unnið í því sem gæti nýst þeim á lokasprettinum í deildarkeppninni á meðan á hléinu stendur; slípa sig betur saman sóknarlega og ekki þurfa að reiða sig jafn mikið á hraðaupphlaup og að geta dóminerað í fráköstum. Breiðablik þurfa augljóslega að spila stífari vörn á æfingum á næstu vikum, en þær létu ýta sér úr öllu sem að þær vildu gera í kvöld. Bæði lið verða þó án nokkurra lykilleikmanna, en Haukar hafa fjóra leikmenn í landsliðshópnum sem fer út að keppa og Breiðablik tvær. Hinar verða þá bara að æfa stíft og bæta sig, en bæði lið keppa ekki aftur fyrr en 21. febrúar næstkomandi.
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bjarni Antonsson

Viðtöl eftir leikinn:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson

Myndir / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -