Skallagrímsmenn voru sigraðir af spræku liði Hamars frá Hveragerði í Borgarnesi á föstudagskvöld, 93-104. Þar með er fyrsta tap Skallagríms í 1. deildinni í vetur staðreynd en um leið fyrsti sigur Hamarsmanna.
Mikill hraði einkenndi leikinn og lögðu bæði lið meiri áherslu á sóknarleik sinn heldur en varnarleik eins og lokatölur leiksins bera með sér. Í fyrsta leikhluta höfðu Skallagrímsmenn að mestu yfirhöndina en náðu ekki að hrista Hamarsmenn af sér sem voru ætíð skammt undan. Liðin skiptust í raun á að skora og fátt var um fína drætti í vörn beggja liða. Leiddu Borgnesingar með þremur stigum að loknum leiklhlutanum, 27-24.
Betri vörn var leikin hjá báðum liðum í öðrum leikhluta, einkum hjá gestunum í Hveragerði sem fljótt náðu nokkurra stiga forystu á heimamenn. Leiddu Hvergerðingar með fáeinum stigum fram undir miðjan leikhluta er Skallagrímsmenn undir forystu Dominique Holmes og Lloyd Harrison náðu yfirhöndinni á nýjan leik. Góðum “forskotspúða” náðu Borgnesingar ekki því enn og aftur náðu Hamarsmenn að komast yfir og leiddu með þremur stigum þegar 1:41 lifði af fyrri hálfleik. Þeirri skammvinnu forstöðu misstu þeir ljósbláu svo aftur til heimamanna sem leiddu í leikhléi 50-49. Borgnesingar urðu fyrir blóðtöku undir lok leikhlutans þegar Hörður Hreiðarsson meiddist á hné. Kom Hörður ekki meira við sögu í leiknum og er beðið í þessum rituðu orðum tíðinda af meiðslum Bifrestingsins knáa.
Liðin skiptust á að leiða fram að miðjum þriðja leikhluta, en helst voru Borgnesingar með yfirhöndina og leit út fyrir að samskonar framvinda yrði á leiknum og í fyrri hálfleik. Lárus Jónsson þjálfari Hamarsmanna brá nú á það ráð að prófa svæðisvörn sem heldur betur lukkaðist því með henni náðu Hvergerðingar meiri forystu en fyrri strategía bauð upp á. Breyttu þeir stöðunni úr 56-53 í 56-61 á 2 mínútum. Þarna má segja að Hvergerðingar hafi lagt drög að sigri sínum, því þetta var mesta forysta leiksins hingað til og virtust Borgnesingar eiga fá svör við svæðisvörn þeirra ljósbláu. Leiddu Hamarsmenn með 10 stigum að loknum þriðja leikhluta, 65-75.
Pálmi þjálfari hefur augljóslega sagt sínum mönnum til syndanna í hléinu fyrir fjórða leikhluta því gulklæddir lærisveinar hans byrjuðu lokaleikhlutann af krafti. Var munurinn kominn í eitt stig, 77-78, þegar 7:34 voru eftir af leiknum. Mestu munaði um þann kraft sem Hilmar Guðjónsson og Sigmar Egilsson virtust hafa með sér á völlinn á þessum tímapunkti. Hvergerðingar höfðu þó ekki sagt sitt síðasta því þeir hófu gagnsókn í kjölfar áhlaups Borgnesinga og náðu aftur yfirhöndinni með góðri vörn og baráttu. Í reynd náðu Borgnesingar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki að nálgast Hamarsmenn upp frá þessu. Klókur sóknarleikur í bland við góða vítanýtingu undir lokin tryggði þeim ljósbláu að endingu sigurinn – eiginlega örugglega. Borgnesingar höfðu einfaldlega engin svör á reiðum höndum gagnvart vörn gestanna og því voru það Hvergerðingar sem urðu hlutskarpari að þessu sinni og tryggðu sér þar með stigin tvö. Lokatölur 93-104. Í lokaleikhlutanum meiddist Ragnar Nathanaelsson á hné og þurfti að fara af velli. Skarð mikið myndaðist því undir körfunni hjá Hamri undir lokin. Einnig er beðið frétt af meiðslum Ragnars.
Heilt yfir má segja að það hafi verið svæðisvörn Hamarsmanna í þriðja leikhluta sem skóp sigur þeirra. Vörnin einfaldlega setti Borgnesinga út af laginu sóknarlega. Kné fylgdi líka kviði sóknarmegin hjá Hvergerðingum sérstaklega á vítalínunni þar sem nýtingin var 23/28 eða 85%. Á móti kom að Skallagrímsmenn skorti úrræði til að brjóta upp svæðisvörn Hamarsmanna – sérstaklega fyrir þær sakir að þriggja stiga skotin hjá þeim voru ekki að detta sem skildi.
Stigaskor Skallagríms og helstu framlög:
Dominique Holms 33 stig, 9 frk.
Lloyd Harrison 19 stig,12 frk., 5 stð., 2 stolnir
Sigurður Þórarinsson 10 stig, 10 frk., 4 stolnir, 2 varin
Sigmar Egilsson 9 stig, 4 stð., 3 stolnir
Hörður Hreiðarsson 8 stig, 3 frk., 3 stð.
Hilmar Guðjónsson 6 sitg
Davíð Ásgeirsson 4 stig, 3 stð.
Birgir Sverrisson 4 stig, 9 stð., 2 stolnir
Stigahæstir í liði Hamarsmanna voru Louie Kirkman með 30 stig sem einnig tók 10 fráköst, Brandon Cotton var með 29 stig, Halldór G. Jónsson 15 stig og loks Bjartmar Halldórsson 14 stig, en sá síarnefndi var heldur skapandi í sókn þeirra ljósbláu og gaf heilar 12 stoðsendingar.
Næsti leikur Borgnesinga fer fram á mánudaginn kemur 31 október í Reykjavík en þá verður leikið gegn ÍR í annarri umferð Lengjubikarsins. Liðið fær því helgina til að ráða ráðum sínum og still strengi fyrir átökin í Breiðholtinu.
Umfjöllun: HLH