spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Haddý tryggði Völsurum toppsætið gegn Stjörnunni

Umfjöllun: Haddý tryggði Völsurum toppsætið gegn Stjörnunni

Valur tók á móti Stjörnunni í Valshöllinni í æsispennandi sjónvarpsleik sem var jafn allt fram á lokamínútuna. Liðin voru í 1. og 2. sæti á toppi deildarinnar fyrir leikinn og ljóst var að liðin gæfu allt í þennan leik. Heimastúlkur náðu að vinna leikinn þrátt fyrir að hafa gefið gestunum tækifæri á að vinna leikinn á lokasekúndunum. Lokastaða: 85-83.
 

Stjarnan byrjaði leikinn ekki alveg nógu vel og virtust þær í fyrstu pínulítið hikandi. Valur átti ekki við sama vanda að stríða og komust fljótlega í 7 stiga forystu með 4 mínútur eftir af fyrsta leikhluta. Þá fóru gestirnir loks í gang og náðu góðu áhlaupi til að komast þremur stigum yfir. Valsstúlkur tóku sig hins vegar til og skoruðu næstu 10 stig í röð, fimm stig á seinustu 10 sekúndum fyrsta leikhluta (20-18 í lok fyrsta) og svo önnur 5 stig á fyrstu 27 sekúndum annars leikhluta til að koma stöðunni upp í 25-18.

Stjarnan náði góðum áhlaupum í öðrum leikhlutanum m.a. vegna Bríetar Sifjar Hinriksdóttur (sem skoraði 8 stig í röð fyrir liðið sitt á innan við mínútu) en Valsstúlkur voru áfram góðar í sókn og tóku annað 10 stiga áhlaup í fyrri hálfleiknum til að koma stöðunni upp í 44-33 þegar liðin héldu til búningsklefanna sinna.

Þær bláklæddu mættu margfalt beittari í seinni hálfleik og Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Bríet Sif skoruðu 10 stig í röð strax á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins til að koma muninum aftur í eitt stig, 44-43. Liðin skiptust á körfum það sem eftir lifði leikhlutans og leiddu til skiptis eða voru jöfn að stigum. Æsispennandi þriðja fjórðungi lauk 61-61.

Áfram hélt spennan í fjórða leikhluta, en munurinn á liðunum varð aldrei meiri en 5 stig á seinustu 10 mínútum leiksins. Valsstúlkur náðu þó að toppa á réttum tíma og enduðu leikinn vel. Þó mátti minnstu muna að þær hefðu tapað á seinustu stundu þegar Stjarnan fékk lokasóknina og góðar 5 sekúndur til að láta eitthvað gerast. Gestirnir náðu hins vegar ekki að merja framlengingu eða stela sigri og staðan að lokum því 85-83, heimamönnum í vil.
 

Þáttaskil

Í stöðunni 76-80 með þrjár mínútur til leiksloka náðu Valsarar að herða sig og skoruðu 9 stig í röð úr þremur þriggja stiga skotum, tvö frá Hallveigu Jónsdóttur og eitt frá Guðbjörgu Sverrisdóttur. Þetta var nóg til að koma þeim í 85-80 og þrátt fyrir hetjulega ásókn Stjörnunnar á lokamínútunni þá kláruðu Valsstúlkur leikinn.
 

Hetjan

Hallveig Jónsdóttir, kölluð Haddý, átti stjörnuleik í kvöld. Hún hljóp völlinn vel, skaut af miklu öryggi og lauk leik með 28 stig, 5 fráköst og tvær stoðsendingar. Þristarnir voru að detta vel hjá henni í kvöld en hún hitti úr 5 af 8 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna (62,5% nýting). Haddý hafði fyrir þennan leik verið með 16 stig að meðaltali í leik og var aðeins að skjóta 1.3/4.3 að meðaltali í leik úr þristum. Þetta er vonandi til marks um gott gengi í landsliðsverkefnum hennar næstu vikurnar.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Í þessum hnífjafna toppslag þá geiguðu Stjörnustelpur því miður á of mörgum skotum. Þær fengu fleiri skot og fleiri víti vegna sterkra sóknarfrákasta en þær nýttu þau ekki sem skildi. Liðin hittu úr jafnmörgum þriggja stiga skotum og jafnmörgum vítaskotum en Valskonurnar hittu úr 31 tveggja stig skotum á móti 30 hjá Stjörnunni. Þar tapaðist leikurinn.
 

Kjarninn

Þá er komið á hreint að Valur sé besta lið deildarinnar í bili en Stjarnan þarf aðeins að herða sig til að eiga séns í toppsætið. Því skal þó haldið til haga að Stjörnustelpur spiluðu tæpar, en þrjár úr byrjunarliði þeirra voru að glíma við meiðsl, þannig að þær gætu vel átt eitthvað inni í deildinni. Til gamans má geta að 4 Valsstúlkur eru í æfingahópi landsliðsins en aðeins ein í Stjörnunni. Munurinn gæti vel hafa legið þar.

Bæði lið fá núna nokkrar vikur til að hvíla sig og vinna í sínum áherslum, en úrvalsdeild kvenna verður í fríi meðan íslenska kvennalandsliðið æfir og býr sig undir fyrri leikglugga undankeppni EM dagana 6.-16. nóvember.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn
 
Viðtöl eftir leikinn:
Pétur Már: Tveggja vikna æfingar framundan til að verða betri
Darri Freyr: Hressar og kátar og vel drillaðar
Haddý: Finnst ekki leiðinlegt að skora
 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -