spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Fyrsti sigur Breiðabliks gegn Íslandsmeisturunum

Umfjöllun: Fyrsti sigur Breiðabliks gegn Íslandsmeisturunum

Nýliðar Breiðabliks tóku á móti Íslandsmeisturum Keflavíkur í Smáranum í kvöld. Keflavík hafði tapað í seinasta leik gegn Valsstúlkum á meðan að Blikar höfðu ekki erindi sem erfiði í Ásgarði gegn Stjörnunni. Breiðabliksstelpur unnu sinn fyrsta sigur í Domino's deild kvenna gegn Keflavík, 72-69.

Keflavík hóf leikinn betur og voru með forystuna mest allan fyrri hálfleikinn. Breiðablik var samt aldrei langt undan og héldu vel í við gestina. Þrátt fyrir að Suðurnesjastelpurnar hafi komist í meira en tíu stiga forystu náðu Blikar alltaf að vinna á og luku fyrri hálfleik 5 stigum undir, 30-35.

Breiðabliksstelpurnar mættu einbeittar í seinni hálfleikinn og áttu sinn besta þriðja leikhluta á þessu tímabili, en þær unnu leikhlutann 22-10 og staðan því 52-45 við upphaf lokaleikhlutans. Seinasti fjórðungur leiksins var æsispennandi, Keflavíkurliðið voru fljótar að vinna niður muninn og leikurinn var í járnum allt til enda leiks. Blikar unnu sinn fyrsta leik og Keflavík tapaði öðrum leiknum sínum í röð.

Þáttaskil

Í upphafi lokafjórðungsins mættu liðsmenn Keflavíkur brjálaðar til leiks og náðu á fyrstu 6 mínútum fjórða leikhlutans að skora 15 stig gegn 3 stigum Breiðabliks. Í stöðunni 55-60 tóku gestgjafarnir loks við sér og skoruðu 17 stig á seinustu mínútum leiksins gegn 9 stigum gestanna. Mestu máli skipti að erlendur leikmaður Blika átti fantagóðar lokamínútur.

Hetjan

Ivory Crawford, erlendur leikmaður Breiðabliks, var ótvíræð hetja leiksins. Í seinustu tveim leikjum hafði hún átt við villuvandræði að stríða en í þessum leik spilaðí Crawford 34 mikilvægar mínútur. Ivory átti 10 af seinustu 12 stigum liðsins og skipti sköpum á lokakaflanum. Hún kláraði leikinn með 34 stig, 15 fráköst, 3 stoðsendingar og eitt varið skot. 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting liðanna var nokkuð svipuð í leiknum (33% hjá heimamönnum, 35% hjá gestunum) en Breiðablik náði 17 sóknarfráköstum gegn 8 sóknarfráköstum Keflavíkur. Þær fengu einfaldlega fleiri sóknartækifæri og skoruðu til að mynda 16 stig úr sóknarfráköstum á meðan að Keflvíkingar skoruðu einungis 6 slík stig. Þetta mun hafa unnið leikinn. Keflvíkingar voru síðan sveiflukenndari í stigaskori, en leikhlutaskipti þeirra voru 20-15-10-24. Breiðablik byrjuðu rólegar en voru síðan nokkuð jafnar yfir, en leikhlutaskipti þeirra voru 11-19-22-20.

Kjarninn

Blikar hafa þá unnið sinn fyrsta leik í efstu deild kvenna á þessu tímabili og gegn liðinu sem spáð hefur verið Íslandsmeistarartitlinum. Erlendur leikmaður þeirra náði að spila heilan leik án þess að villa sig út úr honum og liðið skilaði miklu hærra framlagi en þær hafa gert hingað til. Miðað við þessa spilamennsku gætu þær hæglega stolið fleiri leikjum og ekki þurft að reiða sig á að vinna bara Njarðvík til að halda sér í deildinni. Þær mæta næst Skallagrími í Borgarnesi og munu eflaust reyna að stela leik þar sömuleiðis.

Keflavík hafa ekki tapað tveimur leikjum í röð í langan tíma og virðast eitthvað vera að hökta í byrjun tímabilsins. Þær verða að skoða sig gaumgæfilega eftir þessa tvo seinustu leiki og reyna að mæta tilbúnar í næsta leik. Næsti leikur er gegn Stjörnustúlkum í Ásgarði og klárt að þær verða að senda skilaboð í þeim leik.

 

Tölfræði leiks

 

Viðtöl:
 

Fréttir
- Auglýsing -