spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaUmfjöllun: Fjölnir vann Grindavík í Dalhúsum

Umfjöllun: Fjölnir vann Grindavík í Dalhúsum

Í gær í Dalhúsum hittust gulu og bláu lið 1. deildar kvenna, Fjölnir og Grindavík, í stórum leik sem myndi segja til um hvort liðið endaði á toppi deildarinnar. Fjölnir hitti á frábæran skotleik á meðan að Grindavík hökti aðeins í seinni hálfleik svo Grafarvogsstúlkur unnu leikinn örugglega; 89-70.

Fyrir leik

Grindavík var fyrir leikinn tveimur sigrum á eftir Fjölni en þó með leik til góða. Ef að gestirnir ynnu þennan leik myndu þær eiga innbyrðis viðureignina á Grindavík og ef þær gætu haldið dampi og unnið leikina sína það sem eftir væri myndu þær enda í fyrsta sæti. Fjölnissigur myndi aftur á móti þýða að heimastúlkur væru of langt á undan Grindavík og með innbyrðis viðureign þannig að þær myndu líklegast enda efstar.

Liðið sem ynni þennan leik hefði að öllum líkindum heimavallarréttinn alla úrslitakeppnina.

Gangur leiksins

Fjölnir byrjaði aðeins sterkari í leiknum og tók fljótt forystu á fyrstu mínútunum á meðan að Grindavík var meira eins og díselvél, tók smá tíma fyrir þær að fara í gang. Ingibjörg Jakobsdóttir reif Grindavík áfram með góðri vörn og hörku og á tæpum fjórum mínútum tóku gestirnir 17-2 áhlaup áður en Halldór Karl Þórsson, þjálfari Fjölnis, tók leikhlé til að ræða við liðið sitt. Fjölnir gat aðeins lagað stöðuna eftir það með 6 ósvöruðum stigum fram að leikhlutaskiptum. Staðan var því 18-21 fyrir Grindavík eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Strax í öðrum leikhlutanum urðu Fjölnisstúlkur fyrir áfalli þegar að Sara Diljá Sigurðardóttir, sem hefur verið inn og út úr liðinu vegna meiðsla, meiddist eftir frákastabaráttu í teignum á fyrstu mínútu annars leikhlutans. Hún spilaði ekki meira í leiknum. Hannah Cook, erlendur leikmaður Grindavíkur, fór í gang fljótlega eftir það og setti 9 stig í röð fyrir sitt lið. Anna Ingunn Svansdóttir hélt Fjölni þó í seilingarfjarlægð með þristaregni og setti þriggja stiga skot í seinustu sókn heimastúlkna til að koma Fjölni yfir fyrir hálfleikshléið; 38-36.

Grindavík byrjaði af krafti í þriðja leikhlutanum en um miðbik fjórðungsins virtist draga af þeim. Skotin hættu að detta jafn vel og áður og Fjölnir gékk á lagið. Grindavík fór að pirra sig á dómurum og því að hitta ekki úr skotum sínum og sumar í liðinu voru farnar að pústa ansi mikið þó að nóg væri eftir af leiknum. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 66-59 fyrir Fjölni.

Botninn féll alveg úr hjá Grindavík í fjórða leikhluta á sama tíma og Fjölnir hélt áfram að rúlla. Þær fengu góð skot, nýttu færin sín vel og unnu að lokum örugglega 89-70.

Lykillinn

Brandi Buie og Anna Ingunn Svansdóttir voru mikilvægastar fyrir Fjölni í þessum leik. Þær héldu áfram að skora þegar sókn liðsins gekk illa gegn Grindavík. Brandi lauk leik með 30 stig, 14 fráköst, 8 stoðsendingar og 10 sóttar villur (41 í framlag). Anna Ingunn lauk leik með 25 stig, þ.a. 7/12 í þriggja stiga skotum (58.3% nýting).

Í liði Grindavíkur voru þær Hannah Cook  og Ingibjörg Jakobsdóttir atkvæðamestar. Hannah skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og stal 7 boltum (30 í framlag). Ingibjörg lauk leik með 14 stig, 7 fráköst, tvö varin skot og 9 sóttar villur.

Tölfræðin segir sitt

Fjölnir hitti rosalega vel úr skotunum sínum í seinni hálfleik sem leiddi til sigursins. Heimaliðið setti 59.4% allra skota sinna utan af velli (þ.a. 50% úr þristum) og klikkuðu ekki úr víti. Til að setja það upp öðruvísi þá náðu Grindvíkingar oftar valdi á boltanum með stuldi en með varnarfrákasti í seinni hálfleik (6 varnarfráköst eftir hálfleikshléið en 8 stuldir). Grindavík átti hins vegar í mesta basli með að setja skotin sín og sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Þau settu 35.3% skota sinna í seinni hálfleik og aðeins 18.2% þristanna sinna.

Kjarninn

Grindavík átti slakar seinustu 15 mínútur í leiknum og Fjölnir hitti á frábæran skotdag. Fjölnir voru vel að sigrinum komnar og settu góðan þrýsting á Grindavík varnarlega. Fleiri leikmenn úr Grindavík hefðu þurft að eiga góðan leik, en aðeins 3 stig komu af bekknum á sama tíma og tvær úr byrjunarliðinu skoruðu samtals aðeins 11 stig.

Samantektin

Þá er eiginlega útséð að Fjölnir muni enda tímabilið á toppi deildarinnar. Grindavík á ennþá vonarglætu, en þær þyrftu þá að vinna alla leiki sína á sama tíma og Fjölnir brotnar saman. Þessi leikur sýnir mögulega ekki rétt andlit Grindavíkur eða Fjölnis en þau fá vonandi tækifæri til að hittast aftur í úrslitakeppninni ef að þau geta unnið andstæðinga sína í undanúrslitunum.

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bára Dröfn

Viðtöl eftir leik:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -