Það ætlar ekki af F.Su. liðinu að ganga, svona í upphafi móts. Enn einn leikurinn tapaðist á síðustu metrunum þegar Höttur var í heimsókn í Iðu í kvöld. Segja má að jafnræði hafi verið með liðunum, en heimamenn þó yfir lengst af, nema bara rétt þegar máli skipti – í lok leiks. Heppnin var ekki á þeirra bandi, því þokkaleg þriggjastiga tilraun um það bil sem klukkan gall rataði ekki rétta leið og gestirnir fögnuðu tveggja stiga sigri.
F.Su. liðið byrjaði af miklum krafti með hröðum leik og góðri hittni. Staðan var orðin 8-0 áður en við var litið. Austanmenn áttuðu sig þó og komust inn í leikinn hægt og bítandi. Miðherji þeirra er á annarri hæð en leikmenn F.Su. og hann skilaði drjúgu verki undir körfunni, klikkaði reyndar varla í skoti allan leikinn. F.Su liðið átti inn á milli góða spretti og þegar sett var upp í leikkerfi gekk það yfirleitt vel; þetta eru vel spilandi strákar með auga fyrir sendingum, svona þegar þeir kæra sig um að bera það við. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 23-19 fyrir heimamenn og allt opið.
Í öðrum hluta var við það sama, heimamenn héldu nokkurra stiga forystu, sem er svo sem ekki neitt neitt eins og gengur. Hattarmenn fylgdu eins og skugginn og voru fljótir að snúa taflinu ef á þurfti að halda. Staðan í hálfleik var 37-35 og heimastrákar enn yfir.
Heimamenn héldu tveggja stiga mun þegar síðasti hlutinn var óleikinn, staðan þá 64-62. Hvort lið skoraði 27 stig í þriðja leikhluta en mjög dró úr fegurð sóknarleiksins í lokafjórðungnum, sem gestirnir unnu 10-14, og leikinn með tveggja stiga mun, eins og áður sagði, 74-76.
Á síðustu mínútunum átti F.Su. liðið á brattann að sækja og fór stundum illa að ráði sínu. Orri Jónsson jafnaði þó leikinn með góðum þristi af endalínunni eftir gott liðsspil þegar 23 sekúndur voru eftir. Viðar Örn tók leikhlé fyrir Hött og skipulagði aðgerðir, sem fólust í því að leikstjórnandi Hattar, Michael Sloan, hélt á boltanum í heilar 10 sekúndur eftir innkast, óð síðan inn á teiginn og skoraði síðustu stigin með því að setja niður stökkskot rétt innan vítalínu. Þá tók Kjartan Atli leikhlé og skipulagði lokaárás sinna manna, þessar 6 sekúndur sem lifðu leiks. Fléttan fólst í því að leikstjórnandi heimamanna, Bjarni Bjarnason fékk boltann í fremur þröngri stöðu og þurfti að athafna sig gegn tveimur varnarmönnum. Hann náði þó þokkalegu skoti, sem því miður missti naumlega marks.
Í liði gestanna bar mest á Bandaríkjamönnunum tveimur. Sérstaklega var Trevor Bryant erfiður viðureignar, enda a.m.k. höfðinu hærri en allir aðrir. Bryant skoraði úr 6 af 7 skotum sínum, mest alveg undir körfunni, og maður prísaði sig sælan að hann fengi þó ekki úr meiru að moða. Hann var með 15 stig og 12 fráköst, 75% nýtingu. Bjarki Oddsson var stigahæstur Hattarmanna með 16 stig, Andrés Kristleifsson og Eysteinn Ævarsson báðir með 12, Sloan skoraði 9 en var með slaka skotnýtingu, 8 stoðsendingar þó. Viðar Örn setti 6 stig, Kristinn Harðarson 4 og Ívar Hafliðason 2.
Hjá heimamönnum var Kjartan þjálfari Kjartansson stigahæstur með 28 stig. Hann hitti úr nokkrum sem maður að öðru jöfnu kallar „fáránlegum skotum“, einn á móti öllum, og tók 7 fráköst. 8 af 17 þristum lágu, sem gerir 47% nýtingu, og kvartar enginn yfir því. Kjartan var og harður í horn að taka varnarlega, eins og hann er þekktur fyrir. Sæmundur var næstur í stigaskori með 14 stig og 100% nýtingu innan þriggjastiga línunnar, 5/5, en 0/6 utan hennar. Sæmi átti við ramman reip að draga í vörninni en komst þokkalega frá því gegn mun stærri manni.
Bjarni Bjarnason var öflugur að vanda á báðum endum vallarins, með 13 stig og 10 fráköst. Skotnýtingin var þó ekki upp á það besta. Bjarni þarf aðeins að slípa sinn leik og aga, þá verður hann með betri leikstjórnendum. Það sama má segja um hinn leikstjórnandann, Orra Jónsson, sem skoraði 9 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. 7 tapaðir boltar er hinsvegar of mikið, og 20 samtals hjá liðinu verða því hreinlega að falli. Það er sama sagan og í síðasta leik.
Aðrir sem skoruðu voru Birkir Víðisson með 5 stig, Svavar Stefánsson með 3 og Þorkell Bjarnason með 2 stig. Þessir tveir síðasttöldu eru einu leikmennirnir sem kalla má mið- eða framherja, og nokkra athygli vekur að þeir eru fremur lítið inni á vellinum, Þorkell innan við 20 mínútur og Svavar innan við 10. Lengst af er leikið með 4 bakverði, ekki hávaxna, og einn léttan framherja. Í samræmi við það er helsti gallinn á leik F.Su. að ekkert er gert ráð fyrir vítateignum í sókninni. Liðið skoraði í kvöld 16 stig inni í teig og þar af miðherjinn 2. Hinn miðherjinn skoraði sín stig utan þriggjastiga línunnar. Jafnvægið er því ekki gott í sóknarleiknum og það eru gömul sannindi og ný að vonlaust er að fara í gegnum heilt mót með þeim hætti.
F.Su. var síst slakara liðið í kvöld, en skortur á aga varð því að falli. Ef hann næst upp þá fást fleiri góð skot, töpuðum boltum fækkar og liðið fer að vinna leiki, sannið til.
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson