spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Engin norðankæla, heimamenn sigldu lygnan sjó

Umfjöllun: Engin norðankæla, heimamenn sigldu lygnan sjó

Snæfell tók á móti Njarðvík í Stykkishólmi í Iceland Express deild karla og fyrir leikinn voru heimamenn í 8. Sæti en Njarðvík í 7. Sæti og bæði lið með 4 stig eftir fjóra leiki. Það fór svo að Snæfell keyrði leikinn fljótt upp og sköpuðu sér forystu 35-14 eftir fyrsta hluta sem þeir létu aldrei af hendi, höfðu greinilega lært af ÍR leiknum, þrátt fyrir að Njarðvíkingar kæmu með heiðalegar tilraunir til að minnka muninn sem varð 30 stig í fjórða hluta. Einfaldlega of mikið of seint og Snæfell sigraði örugglega 89-67 í leik sem varð aldrei spennandi að ráði.
 
Byrjunarliðin:
Snæfell: Jón Ólafur, Sveinn Arnar, Pálmi Freyr, Quincy Cole, Marquis Hall.
Njarðvík: Ólafur Helgi, Cameron Echols, Rúnar Ingi, Elvar Már, Travis Holmes.
 
Snæfellingar byrjuðu á að keyra leikinn strax upp og tóku hraðar sóknir sem skiluðu fljótt 10 stiga forskoti 15-5. Njarðvíkingar splæstu þá í svæðisvörn til að freista þess að stoppa gegnumhlaup Snæfells en fengu í staðinn stórskot á sig frá Nonna og Sveini Arnari. Grænir tóku leikhlé í stöðunni 23-11 en fengu samt hratt á sig næstu 9 stig, Snæfell voru búnir að skora 14-0 og staðan varð fljótt 32-11 fyrir Snæfell. Ekki það að Njarðvíkingar væru að fá sérstaklega slæm skot þau bara voru ekki að detta og varnarleikurinn var svollítið skrefi á eftir til að byrja með. Staðan þægileg, 35-14, fyrir Snæfell eftir fyrsta leikhluta.
 
Leikurinn varð jafnari þegar blásið var til annars hluta og liðin skiptust á að skora. Snæfellingar héldu um 20 stiga forystu framan af nokkuð áreynslulaust og virtist fyrsti hlutinn hafa tekið Njarðvík nokkuð útúr leiknum en það var fyrir fína varnarvinnu í svæðinu að Njarðvík vann annann hluta 16-22. Ekkert annað stórkostlega markvert fyrir utan eitt „veggspjald“ hjá Quincy Cole í Snæfelli var í fyrri hálfleik, sem er farið að vera daglegur hlutur jafnvel út í búð á miðjum degi í Hólminum. Njarðvíkingar bættu eilítið við sig og minnkuðu muninn í 15 stig áður en flautan gall við í hálfleikinn, 51-36 eftir að hafa verið 24 stigum undir og sóknir þeirra runnu ögn betur.
 
Hjá Snæfelli var Quincy kominn með 15 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Pálmi Freyr 11 stig og Marquis Hall 10. Í liði Njarðvíkur var Tarvis Holmes atkvæðamestur með 11 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Næstir honum voru Rúnar Ingi og Cameron Echols með 6 stig hvor.
Snæfellingar komu mistækir til leiks í seinni hálfleik, voru á hælunum í vörninni, misstu boltann ítrekað í sókninni og gestirnir gengu á lagið og minnkuðu muninn í 10 stig 52-42 með góðri vörn og hröðum sóknum, ásamt því að fá að fara oft á vítalínuna. Þar á meðal vegna tæknivillu á Quincy Cole hjá Snæfelli og Jón Ólafur var komin í villuvandræði um miðjann þriðja hluta með fjórar villur. Snæfell krafsaði sig uppí 18 stig aftur með góðu áhlaupi 68-49 þar sem Sveinn Arnar setti niður stórar körfur og Quincy var drjúgur í teignum en í liði Njarðvíkur var Travis Holmes einkar sprækur og átti mestann þátt í áhlaupi síns liðs. 76-51 var staðan eftir þriðja hluta fyrir Snæfell og þeir aftur komnir í þægilega stöðu þrátt fyrir stríðni Njarðvíkinga í uppahafi hlutans.
 
Snæfellingar komust svo auðveldlega í 84-54 um miðjann hlutann og leikurinn fór að verða alls óspennandi hvað stigamuninn varðar og liðin fóru að rúlla á öllum mönnum eins og sagt er sem var jákvætt að sjá. Erfiður heimavöllur fyrir ungt og sprækt Njarðvíkurlið, en þaðan kemur gott fólk og þekki ég nokkra alveg prýðismenn. 89-67 endaði leikurinn fyrir heimamenn í Snæfelli.
 
Snæfell: Quincy Cole 19/10 frák/6 stoð. Jón Ólafur Jónsson 15/6 frák. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 14/4 frák/3 stoð. Sveinn Arnar Davíðsson 12/4 stoð. Marquis Hall 12/3 frák/4 stoð. Ólafur Torfason 9/6 frák/3 stoðs. Hafþór Gunnarsson 4. Egill Egilsson 2. Snjólfur Björnsson 2/3 frák. Guðni, Daníel og Magnús spiluðu en náðu ekki að skora.
 
Njarðvík: Travis Holmes 17/3 frák/3 stoðs. Cameron Echols 10/5 frák. Rúnar Erlingsson 9/3 frák. Maciej Baginski 8. Hjörtur Einarsson 7. Elvar Friðriksson 6/5 stoðs. Ólafur Jónsson 5. Óli Alexandersson og Jens Óskarsson 2 stig hvor. Oddur Pétursson 1. Sigurður Dagur og Styrmir Gauti skoruðu ekki.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -