spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Blokkpartý í Breiðholtinu

Umfjöllun: Blokkpartý í Breiðholtinu

Kvennalið ÍR tók á móti KR í Hertz-hellinum í kvöld í 1. deild kvenna. Leikurinn var einhliða og mjög fljótt ljóst að Vesturbæjarpíurnar færu með sigur af hólmi. Leiknum lauk 49-98, KR í vil.
 

Leikurinn hófst á því að Desiree Ramos, erlendur leikmaður KR, stal boltanum af Hrafnhildi Matthíasdóttur á fyrstu sekúndunum og uppskar 2 stig ásamt villu og setti vítaskotið í eftirleiknum. Þetta play setti tóninn fyrir leikinn þar sem að ÍR voru ýmist að tapa boltanum með lélegum sendingum eða knattraki sem að gestirnir voru fljótar að stökkva á og refsa fyrir á hinum enda vallarins. Staðan eftir fyrsta leikhluta var því alls ekki góð, 8-29 KR-ingum í vil.

Ólán heimastúlkna hélt áfram í næsta fjórðungi, en þær gátu ekki hitt ofan í körfuna, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, fyrstu fimm mínúturnar. Þær svartklæddu héldu á sama tíma áfram að rúlla og spiluðu af gríðarlegu öryggi. Ramos gat slappað af á varamannabekknum en hún þurfti ekki að koma inn á það sem eftir lifði leiks og staðan í hálfleik var 14-48.

Seinni hálfleikur var ekki mikið fallegari en sá fyrri og úrslitin svo gott sem ráðin. ÍR náði þó aðeins að skerpa sig í á seinni 20 mínútunum og fóru loks að hitta aðeins betur úr skotunum sínum. Það dróg þó ekki úr KR og þær héldu sínu striki. Lokastaðan varð því 49-98 fyrir KR.
 

Þáttaskil

Frá fyrstu mínútu virtust heimastúlkur ekki tilbúnar að spila gegn sterkri vörn KR-inga, en þær fengu aldrei frið í sínum sóknum og voru ítrekað blokkaðar út úr sínu eigin húsi. Þær hopuðu gegn vörn KR og það var það sem skildi liðin að.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Vörn Vesturbæjarstelpnanna var mjög sterk í leiknum og þær uppskáru í leiknum hvorki meira né minna en 8 stolna bolta, 14 varin skot og 37 varnarfráköst (einum fleiri en heildarfráköst ÍR-inga, 36).
 

Hetjan

Eins og áður sagði átti vörn gestanna mestan þátt í sigri þeirra og liðsheild KR-inga fær því hetjutitilinn í kvöld. Þó fær hin unga og efnilega Eygló Kristín Óskarsdóttir sérstakt hrós, en hún varði 8 skot, tók 9 fráköst og skoraði 17 stig.
 

Kjarninn

ÍR-ingar eru enn að leita að sínum fyrsta sigri og verða að mæta tilbúnar í alla leiki ef að þær vilja krækja í sigur. KR-ingar eru flottar og líta út fyrir að vera nokkuð beittar þrátt fyrir að þær megi passa betur upp á boltann í sókninni.

Næsti leikur ÍR er þá á útivelli gegn Hamri á meðan að KR mun taka á móti Grindavík í toppslag í Vesturbænum.
 

Tölfræði leiksins
Viðtöl eftir leikinn:
Benni Gumm: Frábært að fá ný lið inn
Ólafur Jónas: Ef við spilum svona þá vinnum við engan
Myndasafn
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristindóttir
Fréttir
- Auglýsing -