spot_img
HomeFréttirUMFB byrjar vel í 2. deild

UMFB byrjar vel í 2. deild

 
UMFB sigraði topplið ÍA með 28 stiga mun, 87-59, um helgina. Fyrir leikinn voru bæði lið ósigruð en ÍA var efst í riðlinum með 3 sigurleiki. Leikurinn fór frekar rólega af stað með litlu stigaskori og var staðan 17-9 eftir fyrsta leikhluta. UMFB náði svo fljótt 11 stiga forskoti í öðrum leikhluta áður en Akurnesingar rönkuðu við sér og komu sér inn í leikinn aftur. Náðu þeir muninum minnst niður í 3 stig, 25-22, en eftir það tóku Bolvíkingar öll völd á vellinum og skoruðu 15 af næstu 19 stigum leiksins. Staðan í hálfleik var 41-28. 
Í seinni hálfleik reyndu Akurnesingar að stoppa heimamenn með svæðisvörn en áttu ekki erindi sem erfiði því Magnús Þór Heimisson braut hana ítrekað upp og skoraði af harðfylgi. UMFB náði mest 17 stiga forustu í þriðja leikhluta og leiddi í lok hans 62-45.
Þrátt fyrir mikla forystu slökuðu heimamenn ekkert á í lokaleikhlutanum og bættu bara í ef einhvað var. Ingi Björn Guðnason byrjaði leikhlutann á frækilegu AND1 tilþrifi og Þórir Guðmundsson setti 10 af 14 stigum sínum í honum, þar af þrist um leið og lokaflautan gall.
 
Hjá UMFB dreifðist skorið vel og fengu allir að spila. Varamennirnir komust vel frá sínu en þeir skoruðu 51 stig á móti 36 stigum byrjunarliðsmanna.
 
Daníel Midgley var hann langbesti maður leiksins en hann var með 15 stig, 10 stoðsendingar, 9 fráköst, 7 stolna bolta auk þess sem hann varði eitt skot Akurnesinga út fyrir bæjarmörkin. Þórir Guðmundsson setti eins og áður segir 14 stig og Shiran Þórisson var með 12 stig.
 
Hjá ÍA var Sigurður Rúnar Sigurðsson bestur en hann skoraði 24 stig, tók 19 fráköst og varði 4 skot. Örn Arnarson kom honum næstur með 17 stig og 5 fráköst.
 
Frétt af www.umfb.is
 
Ljósmynd/ Úr safni: Frá fyrsta heimaleik UMFB á tímabilinu
Fréttir
- Auglýsing -