spot_img
HomeFréttirU20 liðið mætt til Finnlands

U20 liðið mætt til Finnlands

Íslenska U20 ára landsliðið hélt utan til Finnlands í morgun til að taka þátt í Norðurlandamótinu. Norðmenn taka ekki þátt að sinni en Ísland, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru mæta til leiks. Karfan.is tók tal af Finni Frey Stefánssyni þjálfara liðsins sem lenti með hópinn í Helsinki í dag og hefur liðið þegar tekið sína fyrstu æfingu.
 
 
„Við erum að fara að mæta öflugum körfuboltaþjoðum, sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi. Löndin hafa oft mæst í þessum árgangi og varð Ísland NM meistari í U16 ef minnið svíkur mig ekki. Það verður fróðlegt að sjá hvar við stöndum gegn þeim nú í U20 en það er einmitt sá aldur sem hinar þjóðirnar hafa tekið frammúr okkur “ sagði Finnur aðspurður um hvernig hann mæti möguleika Íslands fyrir mótið. Tvo sterka leikmenn vantar í hópinn en þeir Elvar Már Friðriksson og Stefán Karel Torfason gáfu ekki kost á sér í verkefnið.
 
„Það er vissulega skarð fyrir skyldi en um leið kjörið tækifæri fyrir aðra til að láta ljós sitt skína sem hafa kannski spilað minna fyrir landsliðin. Þarna eru t.d. stórir strákar eins og Jens Valgeir, Svavar og Maciek sem fá gullið tækifæri til þess að taka næsta skref á sínum ferli,“ sagði Finnur sem fagnar því að Ísland sendi U20 ára lið í verkefni.
 
„Það var klárlega tímabært að hafa verkefni fyrir U20 hópinn þó það hefði auðvitað verið ákjósanlegast að fara í Evrópuverkefni. Það að senda unglingalandsliðin okkar út á þessi mót er gríðarlega mikilvægt uppá framþróun leikmanna og þ.a.l. íslensks körfubolta og vonum við að í framtíðinni verði grundvöllur til að það verði íslensk lið a öllum mótum. Tengsl U20 liðsins og A-landsliðsins hafa í raun sjaldan eða aldrei verið meiri en nú og það er virkilega jákvætt,“ sagði Finnur en verið er að vinna með U20 ára liðið eftir svipuðum áherslum og A-landsliðið.
 
„Áherslur U20 ára liðsins eru að mestu leyti þær sömu og Craig Pedersen er með hjá A-landsliðinu,“ sagði Finnur en hann og Arnar Guðjónsson stýra U20 ára liðinu með Baldri Þór Ragnarssyni sér til halds og trausts til að sjá um líkamlegt atgervi hópsins og fjórði maður í brúnni er svo sjúkraþjálfarinn Bjartmar Birnir Daðason.
 
 
Keppnisdagskrá U20 ára landsliðsins í Finnlandi 
 
16. júní – Ísland-Svíþjóð kl. 20:00 (finnskur tími)
17. júní – Ísland-Finnland kl. 20:00 (finnskur tími)
18. júní – Ísland-Danmörk kl. 13:00 (finnskur tími)
 
Mynd/ KKÍ – Frá æfingu U20 ára landsliðsins í Finnlandi í dag.
  
Fréttir
- Auglýsing -