U18 landslið kvenna mætti Danmörku í öðrum leik sínum um 15-17. sæti á Evrópumóti B deildar. Ísland gjörsigraði Danmörk 82-39 og héldu dönsku stúlkunum í aðeins 8 stigum allan seinni hálfleik. ísland vann því báða leikina um 15. sætið og endaði þar að loknu móti.
Íslensku stúlkurnar náðu góðum spretti í fyrsta hluta og voru með 20-14 forystu í lok leikhlutans. Þær hins vegar hægðu umtalsvert á vörninni í öðrum hluta og misstu þær dönsku í 11-17 fyrir hálfleik. Staðan var jöfn 31-31 í hálfleik.
“Eitthvað hefur hárblásarinn í hálfleik kveikt í mínu liði en þvílíka og aðra eins vörn, baráttu og liðsheild hef ég ekki séð áður,” sagði Finnur Jónsson þjálfari liðsins að leik loknum á Facebook-síðu sinni.
Íslensku stúlkurnar hvorki meira né minna en héldu þeim dönsku í 8 stigum í seinni hálfleik, 4 og 4 í hvorum leikhluta.
Þær íslensku voru að leika á alls oddi á báðum endum vallarins. “Að sjálfsögðu fylgdi svo sóknin með þegar við fengum stoppin og var á tímabili eins og að stelpurnar stæðu á bryggjunni og væru að reyna að hitta í sjóinn því það virtist allt detta ofan í,” bætti Finnur við.
Hinriks-tvíburaturnarnir voru alsráðandi í leik Íslands og leiddu í öllum tölfræðiliðum leiksins. Sara með 28 stig (3/4 í þristum), 18 fráköst og 6 stoðsendingar að viðbættu einu vörðu skoti. Bríet bætti við 4 stolnum boltum. Guðbjört Júlíusdóttir setti 14 stig og Elsa Karlsdóttir bætti við 10.
Sara Hinriksdóttir fór mikinn á mótinu og endaði í öðru sæti yfir stigahæstu leikmenn mótsins með 20,8 stig og fjórða í fráköstum með 12,0.
Mynd: Sara Hinriksdóttir hirðir eitt af sínum tíu fráköstum gegn Sviss (FIBA Europe / Traian Racu)