Nú var að ljúka úrslitaleik Íslands og Danmerkur um silfurverðlaunin í flokki U16 ára karla á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Danir höfðu stóran og öruggan sigur gegn andlausu íslensku liði sem kaffært var með látum snemma leiks, lokatölur 68-88. Það eru því Danir sem hrifsa til sín silfurverðlaunin þetta sinnið í keppni U16 ára liðanna en Finnar eru Norðurlandameistarar í árgangnum. Íslenska liðið hafnaði í 3. sæti með 3 sigra og 2 tapleiki eins og Eistar en Ísland hafði betur innbyrðis gegn Eistum.
Bæði lið ætluðu að selja sig dýrt og stemmningin var þónokkur í varnarleik beggja liða. Ísland byrjaði betur og leiddi 10-6 eftir þrist frá Blikanum Brynjari Karli Ævarssyni en Danir létu ekki skilja sig eftir og komust í 14-12 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Borce tók við þetta leikhlé fyrir Ísland en það hafði ekki tilætluð áhrif, Danir leiddu 14-21 að loknum fyrsta leikhluta. Þeir rauðu og hvítu telfdu fram stærra liði eins og oft vill verða raunin fyrir íslensk lið í alþjóðabolta og okkar menn voru að láta fara illa með sig í stöðubaráttunni við körfuna, leiki í varnarleiknum sem þurfti að fá í lag.
Danir komu muninum fljótt upp í 10 stig í öðrum leikhluta, voru funheitir og fastir fyrir og á tæpum tveimur mínútum breyttu þeir stöðunni í 14-30 og þá á 12 mínútum var komið annað leikhlé í raðir Íslands. Flott 9-0 byrjun hjá Dönum á leikhlutanum og Borce messaði yfir íslenska hópnum í leikhléinu, reyndi að kveikja í sínum mönnum neistann en Íslendingar virtust fastir í lága drifinu.
Danir leiddu 18-34 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks, fundu allar glufur sem þeir vildu á íslensku svæðisvörninni og héldu íslenska liðinu víðsfjarri danska teignum. Þórir Guðmundur og Adam Eiður tóku smá rispu undir lok fyrri hálfleiks en það var lítið og nett svo Danir leiddu 33-51 í hálfleik gegn íslensku svæðisvörninni sem virkaði álíka gagnleg í fyrri hálfleik eins og felgulykill um borð í gúmmíbát.
Íslenska liðið mætti með maður á mann vörn inn í síðari hálfleikinn og það gekk mun betur, 18 stiga munur var á liðunum svo það gekk lítt á muninn því liðin voru mun jafnari í þriðja leikhluta heldur en öðrum. Danir slökuðu þó ekki á klónni, lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik og leiddu 47-71 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og slökktu algerlega í íslenska liðinu.
Fjórði leikhluti var eins og gefur að skilja aldrei spennandi, í raun bara spurning um hverjar lokatölurnar yrðu og reyndust þær 68-88 Dönum í vil.
Brynjar Karl Ævarsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 14 stig, Þórir Guðmundur gerði 13 stig og tók 5 fráköst og þá var Ingvi Þór Guðmundsson með 12 stig og 4 fráköst.
Mynd/ [email protected] – Sveinbjörn Jóhannesson barðist sem fyrr eins og ljón en það dugði ekki til í dag.