spot_img
HomeFréttirTyggjóslumma og brjálaðir leigubílstjórar

Tyggjóslumma og brjálaðir leigubílstjórar

17:00

{mosimage}

Við höldum enn áfram að birta skrif vikunnar í dagblöðunum. Sigurður Elvar skrifaði pistil í dálkinn Á vellinum á þriðjudag, þann 10. júní.

GOÐSÖGNIN um ítölsku leigubílstjórana er sönn. Þeir keyra eins og vitleysingar. Með aðra hönd á stýri og tala í farsíma með hinni. Það fór hrollur um mig þegar ég leit á hraðamælinn sem sýndi 140 km/klst. Bílstjórinn stýrði með þumalfingri hægri handar og virtist vera að rífast við eiginkonuna í símann um hvort þeirra hefði átt að taka úr þvottavélinni og setja í þurrkarann. Eða hvað. Gera ítalskir karlmenn slíkt? „It’s a long way to the hotel. The meter says 50-60 euros,“ bablaði bílstjórinn á slæmri ensku. Ok. Það er þá allt satt. Hann ætlar að smyrja vel á túrinn og keyra í hringi um Róm áður en komið er á áfangastað. Kollegar þessa manns sem ég hef átt viðskipti við frá fyrstu ferðinni af flugvellinum eru allir steyptir í sama mót. Pirraðir, hraðskreiðir og handfrjáls búnaður er ekki staðalbúnaður í FIAT.

Í Róm er það fótboltinn sem ræður ferðinni en þar er einnig eitt besta körfuknattleikslið Evrópu. Og með því leikur íslenski landsliðsmaðurinn Jón Arnór Stefánsson. Hann er eini íslenski leikmaðurinn sem hefur komist að í einni sterkustu deild Evrópu á Ítalíu. Jón hefur fagnað Evrópumeistaratitli með Dynamo St. Pétursborg í Rússlandi og bikarmeistaratitli með Napólí á Ítalíu. Hann hefur því fagnað sigrum á atvinnumannaferlinum.

Að sjálfsögðu hafa Íslendingarnir  sem eru hér á ferð í Róm spurt hvort einhver þekki ekki Stefansson úr liði Lottomatica Roma. Jú, sumir hafa verið kurteisir og sagt já. Aðrir hafa bara yppt öxlum og spurt til baka. „Stefansson, who?“ Jæja, hann er þá ekki jafnfrægur og knattspyrnumaðurinn Totti eða „herra Róma“. Stefansson er hins vegar notaður í gríð og erg í kynningarefni liðsins og allar auglýsingar um fjórða úrslitaleikinn gegn Siena í kvöld eru skreyttar með myndum af íslenska stráknum úr KR.

Íslendingar geta verið stolt af því að eiga fulltrúa í úrslitum ítölsku deildarinnar. Jón Arnór er í byrjunarliði Rómverja þar sem leikmenn koma frá stórþjóðum í körfubolta. Þar má nefna Slóveníu, Króatíu, Ítalíu og þrír Bandaríkjamenn eru í liðinu. Aðeins einn þeirra þriggja er í  byrjunarliði Roma. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem á fulltrúa í þessum leikjum og segir það mikið um hve hátt skrifaður Jón er.

Fjölhæfni er styrkleiki íslenska landsliðsmannsins. Hann tekur að sér það hlutverk að gæta hættulegustu skotbakvarða mótherjanna. Hann leikur sjálfur í stöðu skotbakvarðar í sóknarleik Rómverja en svo virðist sem samherjar hans hafi meiri áhuga á að hnoðast „einn á einn“ í stað þess að gefa á félagana sem eru í betri aðstöðu til þess að skjóta. Í þriðja leiknum gegn Siena á sunnudag var alveg ljóst að liðsandinn í Lottomattica Roma var í anda þess sem gerist hjá klofnum stjórmálaflokki. Allir ætluðu að redda hlutunum. Það vakti athygli mína að Jón Arnór var sá eini sem gekk á milli sinna samherja. Klappaði þeim á bakið og hvatti þá áfram. Aðrir í liðinu virtust ekki átta sig á því að þeir voru að leika um meistaratitilinn.  Niðurstaðan, 80:72-tap.

Ítalskir áhorfendur hafa í gegnum tíðina verið þekktir fyrir að sýna skap sitt og eldmóð með öllum tiltækum ráðum. Stuðningsmenn Roma byrjuðu vel í  PalaLottomaticahöllinni á sunnudag. Þegar liðinu fór að ganga illa hætti stór hluti þeirra að styðja liðið. Gríðarstórir glerveggir eru fyrir aftan varamannabekki beggja liða. Hópur öryggisvarða var við varamannabekk Siena og horfðu þeir ekki á leikinn. Þeirra leikur var uppi í áhorfendapöllum. Þeir kipptu sér ekkert upp við að samanpökkuðum leikskrám var kastað í leikmenn Siena í leikslok. Tyggjóslumman sem lenti á tölvuskjá íslenska blaðamannsins sem sat við hlið mér var líklega ætluð leikmanni Siena. Lélegt kast þar á ferðinni. Við skulum sjá til hverju þeir grýta í tölvuskjáinn í kvöld. Kannski hitta þeir betur og einnig leikmenn Roma.

Morgunblaðið

Mynd: Sigurður Elvar Þórólfsson

Fréttir
- Auglýsing -