spot_img
HomeBikarkeppniTveir sigrar í röð hjá Akureyrar Þórsurum

Tveir sigrar í röð hjá Akureyrar Þórsurum

Þór Þorlákshöfn tók á móti Þór Akueyri í 16-liða úrslitum Geysisbikarsins. Hér eftir verður reglulega talað um heimamenn (heimalið) og gesti til að minnka líkur á ruglingi.

Leikurinn byrjaði ansi rólega og voru samtals tíu stig komin á töfluna eftir um fimm mínútna leik. Heimamenn leiddu lengstum með á bilinu sjö til ellefu stiga mun í gegnum leikinn. Undir lok þriðja fjórðungs gengu hlutirnir betur hjá gestunum og þeir sóttu á.

Þegar fjórar mínútur lifðu leiks jöfnuðu gestirnir og mínútu seinna komust þeir yfir, í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta. Lokamínúturnar voru gífurlega spennandi, Akureyringar sluppu með skrekkinn þegar lokaskot leiksins mislukkaðist hjá heimamönnum og eru Akureyringar því komnir áfram í 8-liða úrslit.

Gangur leiks:

Eftir rólegar upphafsmínútur tóku heimamenn völdin og leiddu með níu stigum að fyrsta leikhluta loknum. Gestirnir töpuðu boltanum of oft og réðu illa við Marko sem skoraði átta stig í upphafsfjórðungnum.

Munurinn hélst svipaður í öðrum leikhluta. Illa gekk hjá Hanzel að setja boltann ofan í körfuna fyrir gestina en aðrir stigu upp á meðan. Palmer og Pablo voru flottir í fyrri hálfleik fyrir Akureyringa á meðan Marko og Halldór Garðar voru atkvæðamestir hjá heimamönnum, sjö stiga munur í hálfleik.

Munurinn var enn sá sami að loknum þriðja leikhluta. Heimamenn virtust ætla að skilja sig frá gestunum en Lárus, þjálfari gestanna, brá á það ráð að skipta yfir í svæðisvörn. Þórsarar náðu muninum niður undir lok fjóirðungsins. Halldór setti stór skot niður og Ragnar Örn kveikti í húsinu með fallegri troðslu. Hjá gestunum var Motley allt í öllu og skoraði tíu stig í fjórðungnum.

Þegar sjö mínútur lifðu leiks leiddu heimamenn með fimm stigum sem var minnsti munur sem hafði verið á liðunum í seinni hálfleik. Friðrik Ingi, þjálfari heimamanna, tók leikhlé til að fara yfir hlutina með sínum mönnum. Gestirnir, með Motley í ham, jöfnuðu leikinn þremur mínútum seinna.

Mínútu seinna kom Motley gestunum yfir en Halldór Garðar svaraði með flautuþrist, stemning í húsinu. Erlendur svaraði með risastórum þrist hinu megin og gestirnir komnir með tveggja stiga forskot. Motley skoraði næstu tvö stig leiksins og Friðrik tók annað leikhlé. Gestirnir leiddu með fjórum stigum þegar 70 sekúndur voru eftir.

Vincent skoraði eftir leikhléið og næsta skot Motley mislukkaðist. 30 sekúndur eftir og heimamenn með boltann. Þriggja stiga skot frá Halldóri Garðari vildi ekki niður og heimamenn brutu strax á Hanzel. Þeir áttu þó enn villu til að gefa og því þurftu þeir að brjóta aftur. Lárus tók leikhlé til að fara yfir hlutina með sínum mönnum.

Þegar 12 sekúndur voru eftir var brotið á Motley, tvö vítaskot ofan í myndu fara langt með að tryggja sigurinn. Fyrra fór ekki niður en það seinna rataði rétta leið. Friðrik tók leikhlé til að teikna upp leikkerfi fyrir sína menn. Boltinn gekk vel hjá heimamönnum í sókninni og Ragnar Örn tók þriggja stiga skot. Motley braut á honum í skotinu og því fékk Ragnar þrjú vítaskot.

Fyrsta vítaskotið fór ekki niður, annað rataði rétta leið en Ragnar klikkaði á þriðja skotinu. Heimamenn tóku sóknarfrákast og fékk Dino Butorac tækifæri til að sigra leikinn með þriggja stiga skoti en ofan í vildi boltinn ekki. Annar sigur Akureyringa í röð staðreynd, báðir hafa þeir komið á útivelli.

Vendipunkturinn:

Lárus brá á sama ráð og Borche Ilievski, þjálfari ÍR, gerði í leik Þór Þ. og ÍR í nóvember. Í þriðja leikhluta skipti hann yfir í svæðisvörn. Heimamenn fengu fínar skotopnanir en of fá þriggja stiga skot rötuðu réttu leið og gestirnir gengu á lagið. Það má einnig nefna innkomu Terrence Motley inn í seinni hálfleikinn en hann spilaði miklu betur í seinni hálfleiknum en þeim fyrri.

Hetjan: Terrence Motley

Leikmaður númer 33, Terrence Motley (Ath: skráður Smári Jónsson á skýrslu kki.is) var frábær í seinni hálfleiknum í kvöld. Hann skoraði alls 28 stig og þar af komu 24 þeirra í seinni hálfleiknum. Hann var alls ekki góður í fyrri hálfleiknum en sýndi frábæra takta í seinni hálfleik. Þar sem þessi liður heitir “hetjan” verður að nefna þriggja stiga körfu Erlends og frábæra frammistöðu Baldurs í lokaleikhlutanum.

Tölfræðimolar úr fyrri hálfleiknum:

Gestirnir settu einungis eitt þriggja stiga skot ofan í í hálfleiknum gegn fimm hjá heimamönnum. Heilt yfir skutu heimamenn betur 50% af gólfinu gegn 35% hjá gestunum. Þá tóku heimamenn sex fleiri fráköst. Sautján boltar töpuðust hjá liðunum í hálfleik níu hjá heimaliði og átta hjá gestaliði.

Tölfræðimolar úr leiknum í heild:

Gestirnir töpuðu boltanum alls 19 sinnum í leiknum og heimamenn 13 sinnum. Þorlákshafnar Þórsarar hittu þokkalega úr þriggja stiga skotum í fyrri hálfleik en einungis þrjú slík rötuðu rétta leið í seinni hálfleik, sem kostaði gegn svæðisvörn gestanna.

Fyrsti leikur hjá Terrence Motley:

Terrence Motley lék sinn fyrsta leik fyrir Þór Akureyri í kvöld. Hann skoraði fjögur stig snemma í fyrsta leikhluta en var fljótlega kominn með tvær villur. Þá fór hann af velli fyrir Palmer. Í öðrum leikhluta nældi hann sér í þriðju villuna fljótlega eftir endurkomu á völlinn. Í seinni hálfleik mætti annar leikmaður til leiks, Terrence virkaði beittari og boltinn hélt með honum. Tíu stig stig skoraði hann í þriðja leikhluta og fjórtán stig í lokaleikhlutanum.

Breytt staða hjá Þór Akureyri:

Eins og kom fram hér að ofan þá lék Motley með Þór í dag. Það þýðir takmarkaðara hlutverk fyrir Jamal Palmer, tveir Bandaríkjamenn mega ekki vera inn á samtímis. Motley lék 25 mínútur í kvöld og Jamal fimmtán. Þeir munu báðir spila áfram með Akureyringum fram að jólum en þá verður ákveðið hvort Jamal leiki með liðinu eftir áramót.

Svæðisvörnin veldur Þór Þ. vandræðum:

Líkt og gegn ÍR gekk Þorlákshafnar Þórsurum illa að eiga við svæðisvörn gestanna. Í fyrri hálfleik rötuðu fimm þriggja stiga skot rétta leið en í þeim seinni fóru einungis þrjú slík ofan í körfuna í alls nítján tilraunum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -