spot_img
HomeFréttirTveir risaþristar frá Baldri fóru langt með að klára Hauka

Tveir risaþristar frá Baldri fóru langt með að klára Hauka

Þór tók á móti Haukum í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Leikurinn fór hægt af stað og lítið skor var hjá báðum liðum. Þór komst í 4-0 en þá komu 7 stig í röð hjá Haukum. Lítið gekk upp sóknarlega hjá báðum liðum. Haukarnir voru alltaf skrefinu á undan fram eftir leikhlutanum. Þegar sjö mínútur voru liðnar náðu Þórsarar að jafna leikinn með þrist frá Darra. Eftir leikhlutann var staðan 17-15 heimamönnum í vil.
Haukar komu sterkari inn í 2. leikhluta og breyttu stöðunni í 17-23 en þá mættu Þórsarar til leiks. Gummi Jóns, sem átti fínan leik í kvöld, setti niður sniðskot og svo strax á eftir setti hann niður tvo vítaskot. Næstu tvær mínútur skoruðu bæði lið ekki neitt en gerðu fullt af mistökum í sókninni. Gummi stal svo boltanum og setti niður sniðskot. Haukum tókst ekki að skora í tæpar sex mínútur í þessum leikhluta. Liðin skoruðu svo tvær körfur á hvort og staðan í hálfleik var 31-31. Varnir beggja liða voru ágætar en sóknarleikurinn mjög dapur. Liðin virtust vera hálf áhugalaus í þessum fyrrihálfleik og lítið í gangi.
 
Pétur Rúðrik hefur messað vel yfir sínum mönnum í hálfleik því þeir komu mun sterkari inn eftir hlé og náðu 6 stiga forskoti. Þá vöknuðu heimamenn og náðu að jafna leikinn í 41-41. Junior átti frábæran leik fyrir Þór og varði hvert skotið á fætur öðru í seinni hálfleik. Undirritaður hélt að þakið ætlaði að rifna af húsinu þegar að Hairston tróð yfir Hauk Óskarsson og fékk villu að auki. Skemmtileg tilþrif. Þór náði 4 stiga forskoti fyrir loka leikhlutann í stöðunni 53-49.
 
Jafnræði var með liðunum fram eftir loka leikhlutanum og leikurinn orðinn spennandi og skemmtilegur. Junior gladdi áhorfendur með troðslum og vörðum skotum. Þór náði fimm stiga forskoti þegar um fjórar mínútur lifðu af leiknum en Haukar komu til baka og minnkuðu muninn í eitt stig þegar að þrjár mínútur voru eftir. Þá kom Baldur Ragnarsson með stóru hreðjarnar og setti niður tvo hrikalega stóra þrista. Þórsarar komnir 7 stigum yfir og staðan 72-65 eftir þetta skiptust liðin á að skora og Haukarnir brutu mikið í lokin til að stoppa klukkana. Þór hélt þó taugunum sínum og klárðu leikinn með sex stiga sigri 82-76.
 
Leikurinn var langt frá því að vera skemmtilegur nema þá kannski 4. leikhluti. Framan af fyrri hálfleik leit þetta út eins og jarðarför. Menn náðu þó að reka af sér slyðruorðið og klára þetta með sæmd.
 
Atkvæðamestir hjá Þór voru: Junior Hairston sem var algjörlega frábær og þá sérstaklega í seinni hálfleik með 30 stig, 17 fráköst og 9 varin skot. Ásamt því að vera með 49 framlagsstig sem gerist ekkert á hverjum degi í deildinni. Darrin Govens var slakur framan af en rankaði aðeins við sér í seinni hálfleik með 20 stig og 8 fráköst. Gummi Jóns var mjög góður með 18 stig, 4 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna. Baldur setti 6 hrikalega mikilvæg stig. Darri var með 5 stig og 4 fráköst. Blagoj var með 5 stig og 7 fráköst. Þorsteinn spilaði lítið og komst ekki á blað. Emil og Bjarki eru meiddir.
 
Hjá Haukum voru atkvæðamestir: Fain 32 stig og 13 fráköst og var mjög góður í leiknum. Chris Smith átti fínan leik með 27 stig og 12 fráköst. Emil var með 7 stig og spilaði mjög góða vörn á Darren. Davíð með 4 stig og 4 fráköst. Sævar með 4 stig og 3 fráköst. Helgi með 2 stig og 3 fráköst.
 
Heildarskor leiksins:
 
Þór Þorlákshöfn: Matthew James Hairston 30/17 fráköst/9 varin skot, Darrin Govens 20/4 fráköst, Guðmundur Jónsson 16/4 fráköst/6 stoðsendingar, Baldur Þór Ragnarsson 6, Darri Hilmarsson 5/4 fráköst, Blagoj Janev 5/7 fráköst, Bjarki Gylfason 0, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0.
 
Haukar: Hayward Fain 32/13 fráköst, Christopher Smith 27/12 fráköst, Emil Barja 7, Sævar Ingi Haraldsson 4, Davíð Páll Hermannsson 4/4 fráköst, Helgi Björn Einarsson 2, Steinar Aronsson 0, Örn Sigurðarson 0, Haukur Óskarsson 0, Guðmundur Kári Sævarsson 0, Alex Óli Ívarsson 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Jón Guðmundsson
 
 
Umfjöllun/ Hákon Hjartarson   
Fréttir
- Auglýsing -