Haukar unnu stóran sigur á ÍR fyrr í kvöld 101-81 í Dominos deild karla.
Borgnesingurinn snjalli og fyrirliði ÍR, Trausti Eiríks, var auðvitað grútfúll með frammistöðuna:
Af hverju sendir ÍR liðið sem tapaði fyrir Blikum í þennan leik en ekki liðið sem sigraði KR??
Það er eiginlega alveg frábær spurning! Það hefur verið svolítið þannig í vetur að við höfum verið að spila eins og hauslausar hænur á útivelli. Fyrir utan Njarðvíkurleikinn höfum við verið að spila vel heima og haldið ágætu plani, barist vel og fengið orku frá Gettóunum. Á útivelli virkum við bara þreyttir og komum okkur bara ekki í gang. Það er ekki séns að vinna Hauka í þannig standi.
Nú er KR með t.d. leikmann eins og Michael Craion. Mér fannst Haukarnir vera að slátra ykkur undir körfunni, svo fóruð þið að reyna að loka teignum og þá fengu Haukarnir bara galopna þrista og Haukur og fleiri röðuðu þeim. Af hverju gerðist það ekki á móti KR??
Já…á móti KR fórum við eftir planinu sem við ætluðum að fara eftir! Í kvöld gerðum við það mögulega svona fyrstu 3-4 mínúturnar en svo fórum við út úr því einu sinni eða tvisvar og missum trúna einhvern veginn og þannig var það út leikinn….
Leikurinn einhvern veginn hvarf frá ykkur…
Já þetta var bara alger skelfing. Við hefðum alveg eins getað tapað með 50 stigum í staðinn fyrir 20, það hefði bara verið sanngjörn úrslit!
Jújú, en þetta er bara einn leikur, en nú er Ísafjarðartröllið að koma eða hvað…
Nja…Siggi er reyndar með slitið krossband…svo hann verður líklega bara ekkert meira með.
Þú segir aldeilis fréttir…það er ákveðinn bömmer…
Það er helvíti svekkjandi, en við unnum KR og Val án hans, við þurfum ekki beint að aðlaga leik okkar eftir því, hann hefur náttúrulega ekkert verið með í vetur. En það er flott að hafa hann í hópnum, hann er frábær í hóp.
Þannig að þið þurfið bara að sætta ykkur við það, fylgja leikplaninu í næsta leik og herða ykkur!
Jájá við gerum það! Það verður ekki verra en þetta, ég get alveg lofað því!
Viðtal: Kári Viðarsson