spot_img
HomeFréttirTrausti Stefánsson fyrsti Íslandsmeistarinn í Stinger

Trausti Stefánsson fyrsti Íslandsmeistarinn í Stinger

 
Fyrsta Íslandsmótinu í skotleiknum Stinger er nú lokið þar sem hlauparinn Trausti Stefánsson bar sigur úr býtum en mótið fór fram í Seljaskóla í Reykjavík. Það voru Trausti og James Bartolotta leikmaður ÍR í Iceland Express deildinni sem stóðu tveir eftir en skotið hjá Bartolotta geigaði og Trausti smellti sínum niður strax á eftir og það fyrir Íslandsmeistaratitlinum. Sigurvegarinn var að vonum sáttur í leikslok enda beit hann af sér 29 aðra keppendur en 30 manns tóku þátt í mótinu og tveir þeirra örvhentir, þar á meðal sigurvegarinn sem tileinkaði sigurinn örvhentum!
Eins og gefur að skilja var James Bartolotta í 2. sæti og Jakob Snær Egilsson hafnaði í 3. sæti. Þetta var í fyrsta sinn sem Íslandsmót í skotleiknum Stinger er haldið og vissulega var fámennt en góðmennt.
 
Það var Körfuknattleiksdeild ÍR sem hafði veg og vanda að undirbúningi mótsins en kapparnir hjá PEAK gáfu sigurvegaranum íþróttatösku hlaðna góðgætum og þeir Bartolotta og Jakob fengu líka eitthvað fyrir sinn snúð upp úr PEAK íþróttatöskunni.
 
Trausti fékk einnig forláta farandbikar að sigurlaunum og sagðist myndu snúa aftur að ári til að verja titilinn!
 
Mynd/ Trausti Stefánsson sigurreifur í mótslok.
 
Fréttir
- Auglýsing -