spot_img
HomeFréttirTorsóttur heimasigur í Vesturbænum

Torsóttur heimasigur í Vesturbænum

Það var ansi lágvaxið KR lið sem tók á móti Hetti frá Egilsstöðum í DHL Höllinni. Helgi Már Magnússon, sem hefur verið að leika stöðu miðherja þrátt fyrir að vera ekki slíkur að upplagi var meiddur og voru KR því enn lágvaxnari en í síðustu 2 leikjum. Litlumannabolti eða míkróbolta var því á dagskránni. Hattarmenn höfðu tapað fyrstu 3 leikjum tímabilsins en þarna var gott tækifæri á fyrsta sigrinum.

Hattarmenn byrjuðu enda betur, Sigurður Þorsteinsson var sem kóngur í ríki síni á meðan að Ty Sabin, aðalskorari KR-inga var ekki alveg að vinna fjölina sína og Hattarmenn leiddu í hálfleik með tíu stigum 51 – 61. Gestirnir náðu að bæta forystuna eilítið í þriðja leikhluta en svo kom kaflinn sem varð þeim að falli. KR náðu niður muninum í einu áhlaupi og eftir spennandi lokamínútur stóðu KRingar uppi sem sigurvegarar, 113 – 108.

Stigahæstur í liði KR var Ty Sabin með 29 stig og hjá Hetti var Michael Mallory einnig með 29.

Tölfræðin lýgur ekki

Það þarf ekki annað en að horfa yfir tölfræðiblaðið til þess að sjá strax hversu frábær skotnýting KR var í leiknum. Fyrir utan Ty Sabin og Björn Kristjánsson þá hittu allir KR-ingar úr meira en 60% skota sinna og í heildina skaut KR 65% utan af velli og 46% úr þriggja stiga skotunum sínum. Við þetta má bæta að Höttur tók einungis sex fráköstum fleiri en KR og lauk frákastabaráttunni 31-37. Að mati undirritaðs hefðu þeir átt að dóminera þann þátt leiksins enn frekar.

Bestir

Michael Mallory átti fínann leik. Reyndist KR-ingum illviðráðanlegur á köflum og sýndi á köflum að þar fer maður með ansi stórt vopnabúr. Lokaði leiknum með 29 stig, 4 fráköst og 3 stoðsnendingar, þá átti Matej Karlovic góða spretti, sérstaklega var hann að setja skot af miðfærinu.

En maður leiksins og besti maður vallarins í þessum leik var Matthías Orri Sigurðarson. 23 stig, 7 stoðsendingar, 5 fráköst, frábær nýting og fiskaði 7 villur. Leikmenn Hattar gátu alls ekki haldið honum fyrir framan sig og nýtti Matthías sér það óspart. Þá kom Brynjar Þór Björnsson sterkur inn í þennan leik, setti 19 stig, þar af stærsta skot leiksins í lokin.

Í hnotskurn

Höttur fær ekki mikið betra færi til þess að ná sér í sigur á KR liðinu sem kom ansi vængbrotið til leiks. En í nútímakörfubolta er samt erfitt og lýjandi að ætla að vinna leik með hæð og sóknarfráköstum þegar andstæðingarnir hitta frábærlega. Höttur virtist hins vegar ekki hafa mörg svör við bakvörðum KR svo að þegar þeim gekk verr að skora komust KR hratt inn í leikinn. KR hafa svo einfaldlega menn sem geta unnið leiki með einstaklingsframtaki, í þetta skiptið leituðu þeir til Brynjars í lokin sem setti skotið. Ekki í fyrsta sinn.

Tölfræði leiksins:

Fréttir
- Auglýsing -