Framherjinn Styrmir Gauti Fjeldsted fékk í kvöld þungt högg í andlit þegar Njarðvíkingar tóku á móti Valsmönnum í Lengjubikar karla. Hann fór rakleiðis til Reykjavíkur á fund tannlæknis. Í leiklýsingu eftir Skúla Sigurðsson frá viðureign liðanna í kvöld segir:
,, Darnell Hugee opnaði á aðdáendaklúbb sinn í Njarðvík þetta kvöldið og voru dræmar viðtökur þar. Kappinn var að spila ágætlega en hafði fyrir vafasamar handahreyfingar sem urðu til þess að Styrmir Fjeldsted leikmaður Njarðvíkinga þurfti hreinlega að fara til tannlæknis. Hvort um viljandi aðgerðir hafi þar verið að ræða skal algerlega látið ósagt.“
Við náðum tali af Einari Árna Jóhannssyni öðrum þjálfara Njarðvíkinga í kvöld og sagði hann:
,,Styrmir fór beint í bæinn en tönnin er ekki brotin, hún gekk hugsanlega eitthvað til en þetta skýrist betur á næstu dögum,“ sagði Einar sem var sáttur með sigurinn en varð þó var við smá þreytu í sínum mönnum. ,,Við virkuðum pínu þreyttir í kvöld en það fór mikil orka í föstudagskvöldið hjá okkur,“ sagði Einar en þá höfðu Njarðvíkingar sterkan útisigur gegn ÍR.
Mynd/ [email protected] – Styrmir með Njarðvíkingum í leik gegn KR á dögunum.