Stjarnan tók á móti Val í sjöundu umferð Domino’s deildar karla í kvöld. Stjarnan hafði unnið fjóra leiki í deildinni og Valur þrjá fyrir leik kvöldsins. Leikurinn var jafn framan af fyrsta fjórðungi en Stjarnan tók svo völdin og leiddi með tuttugu stigum í hálfleik. Valsarar komu til baka og komust í tvígang yfir í 4. leikhluta en risakarfa Nick Tomsick á lokamínútunni tryggði Stjörnunni sigurinn í áhugaverðum og skemmtilegum körfuboltaleik.
Gangur leiks:
Stjarnan leiddi með sex stigum að loknum fyrsta fjórðungi. Valur leiddi 15-16 þegar skammt var eftir en Stjarnan sigraði lokakaflann 9-2. Tómas Heiðar setti tvö stig niður eftir sóknarfrákast þegar flautan gall. Skömmu áður hafði Ægir skorað þrjú stig, öll af vítalínunni, eftir að brotið var á honum og tæknivilla dæmd á Bracey að auki. Tómas Þórður var besti maður vallarins í fyrri hálfleik og þá settu Kyle og Nick niður stórar körfur. Frank Aron var skásti leikmaður Vals í hálfleiknum en margt hefði þó getað farið betur hjá honum, það vantaði allavega ekki upp á baráttuna. Nánar er fjallað um annan fjórðung hér að neðan.
Valur byrjaði þriðja fórðung á 10-0 spretti þar sem Aron setti tvo þrista ofan í. Stjörnumenn komu ekki nægilega ákveðnir úr hálfleiknum og Valsmenn nýttu sér það. Arnar tók lékhlé eftir átta stiga frá Val. Ástþór setti tíunda stig Valsara niður aður en Ægir skoraði fyrstu stig Stjörnumanna í hálfleiknum. Aron og Ástþór settu niður þrista í kjölfarið. Valsarar sigruðu fyrstu sex mínútur leikhlutans 22-3, frábært svar við vondum öðrum fjórðungi. Heimamenn vöknuðu loksins í kjölfar þessa mikla áhlaups og héldu alltaf forystunni en minnst munaði einu stigi á liðinu, átta stiga munur var á liðunum fyrir lokafjórðunginn.
Rosalegur lokafjórðungur:
Raggi varði skot frá Tómasi í upphafi fjórðungs og Bracey setti niður stóran þrist og minnkaði muninn, munurinn tvö stig eftir þriggja stiga körfuna. Tómas fór aftur á móti Ragnari og setti þá niður sniðskot og fékk villu að auki, frábærlega klárað. Munurinn á liðunum var sjö stig þegar sjö og hálf mínúta lifði leiks. Raggi minnkaði muninn aftur í tvö stig með körfu þegar tæpar fimm mínútur lifðu leiks, mikil spenna í leiknum. Ástþór negldi svo þriggja stiga körfu niður tæpri mínútu seinna og Valsarar komnir yfir!
Jamar kom Stjörnunni yfir á ný en Ragnar svaraði aftur og Valur leiddi með einu stigi þegar rúm mínúta var eftir og gestirnir með boltann. Þriggja stig skot frá Aron neitaði að fara niður og Stjarnan fékk boltann. Skrítin sókn heimamanna endaði með ekkert sérstöku þriggja skoti frá Kyle en Addú hirti sóknarfrákastið. Boltinn gekk á Nick sem setti risastóran þrist niður með mann í grímunni á sér. Stjarnan tveimur stigum yfir þegar 18 sekúndur voru eftir.
Bracey fékk fínt skotfæri úr horninum til að koma Val yfir í næstu sókn en skotið vildi ekki niður. Pavel braut svo á Kyle í kjölfarið sem var fjórða villa Valsara í fjórðungnum, Arnar tók leikhlé í kjölfarið, þrjár sekúndur voru þá eftir. Aftur var brotið á Kyle sem fór á vítalínuna þegar tæp sekúnda var eftir. Kyle setti niður fyrra vítið og það seinna og kom heimamönnum í fjögurra stiga forskot sem dugði til sigurs. Ágúst tók þó leikhlé til að teikna upp eina lokasókn, Lokaskotið frá Illuga fór ekki niður og Stjarnan sigraði því sinn fimmta leik á tímabilinu.
Vendipunkturinn:
Þriggja stiga karfa Nick Tomsick þegar átján sekúndur voru eftir. Illugi, sýndist mér, spilaði flotta vörn og gerði skotið erfitt en Nick setti stóra skotið niður líkt og gegn Njarðvík.
Hetjan: Nick Tomsick
Hetja leiksins er Tomsick vegna körfunnar sem hann setti niður og tryggði með henni sigurinn. Nick skoraði 19 stig og gaf 7 stoðsendingar í leiknum. Frank Aron Booker var framlagshæsti leikmaður vallarins en Aron setti niður 29 stig og var 10 af 18 í skottilraunum. Hann gaf 8 stoðsendingar og setti 7 þriggja stiga skot niður í 13 tilraunum. Tómas Þórður Hilmarsson var framlagshæstur Stjörnumanna, Tommi setti niður 19 stig og tók 11 fráköst.
Tölfræðin lýgur ekki:
Þegar litið er á að Stjarnan sigraði leikinn og tölfræðiskýrslan skoðuð þá er mesti munurinn í vítaskotum liðanna en Stjarnan tók 20 slík gegn 10 gestanna. Þá tapaði Valur boltanum sjö sinnum oftar en Stjarnan.
Annar leikhlutinn hjá Val:
Stjarnan byrjaði annan fjórðunginn betur og skoraði fjögur stig gegn engu stigi Valsara á fyrstu tveimur mínútum fjórðungsins. Ágúst tók leikhlé og næsta mínútan eða tvær voru jafnar og Valur minnkaði forskot Stjörnunnar niður í níu stig í tvígang. Í kjölfarið á þeim kafla komu u.þ.b. fimm mínútur af vonleysi hjá gestunum, kaflinn hefði getað verið lengri en Stjörnumenn byrjuðu að nýta sér slæma spilamennsku Valsara á þessum tímapunkti. Sniðskot fóru ekki niður og mislukkuð vítaskot í bland við tapaða bolta og sóknarfráköst heimamanna. Stjarnan sigraði síðustu fimm mínútur fjórðungsins með ellefu stigum.
Umfjöllun, viðtöl / Sæbjörn Þór