spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaTölfræðimolar: Þriggja stiga byltingin hefur fest sig í sessi - Tindastóll frákastar...

Tölfræðimolar: Þriggja stiga byltingin hefur fest sig í sessi – Tindastóll frákastar eins og meistari

Tökum saman það sem upp úr stendur í lok deildarkeppninnar í Subwaydeild karla.

Tilfærsla deildarinnar yfir í þriggja stiga skotin hefur fest sig í sessi þar sem hlutfall þriggja stiga skota af heild hefur verið yfir 40% síðustu 5 árin og náði hámarki í nýafstaðinni deildarkeppni í 45,5%. Til samanburðar er hlutfallið 43,4% í 1. deild karla. Ekkert lið meðal tíu efstu allra tíma í þessu hlutfalli spilaði fyrir árið 2019 og er meðaltalið milli þeirra liða 48,2%. Breiðablik 2023 var með hæsta hlutfall þriggja stiga skota af heild frá upphafi eða 52,3% en ekkert annað lið í sögu deildarinnar hefur farið yfir 50%. Breiðablik 2023 er líka eina liðið í sögu deildarinnar til að fara yfir 40 þriggja stiga skot í leik en liðið skaut að meðaltali 41,6 skotum í vetur. Þrír óframlengdir leikir voru skráðir í vetur þar sem a.m.k. annað liðið skaut 50 þriggja stiga skot eða fleiri. Breiðablik átti þar í hlut í öllum tilvikum.

Það gefur því augaleið að fjöldi þriggja stiga skota hefur aldrei verið hærri í úrvalsdeild karla eða 32,6 í leik hjá hverju liði. Að sama skapi fer fjöldi tveggja stiga skota undir 40 í fyrsta skiptið í sögu deildarinnar og var 39,1 í nýafstaðinni deildarkeppni. Nýtingin á tvegga stiga skotum hefur hins vegar aldrei verið meiri eða 54,6%. Þriggja stiga nýting náði hámarki á síðustu leiktíð í 34,7% en gaf aðeins eftir núna með 33,8%. Sögulegt meðaltal er 33,9%.

Frá því byrjað var að skrá stig af bekk í kerfum KKÍ árið 2017 hefur ekkert lið skorað minna af bekknum en Haukar 2023 með 9,3 í leik. Fjöldi stiga af bekk að meðaltali í deildinni jókst hins vegar í 21,1 á móti 18,7 í fyrra. Fjöldi stiga af bekk var mestur árið 2018 þegar hann fór upp í 21,5. Aðeins eitt lið hefur skorað meira með byrjunarliði sínu en Haukar 2023 (79,9) en það var Breiðablik 2022 (88,7).

Allt frá því skráning á skiptum á forystu voru fyrst skráð árið 2017 hefur ekkert lið skiptst oftar að meðaltali á forystu við sína andstæðinga en ÍR 2023 eða 8,2. Einnig var jafnt í leikjum ÍR-inga 5,5 sinnum í leik en það er fjórða hæsta gildið sem skráð hefur verið.

Tindastóll 2023 er í 7. sæti yfir hlutfall varnarfrákasta frá upphafi með 75,7%. Valur 2022 er í 6. sæti með 76,2% en það lið endaði með að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Valur 2023 er hins vegar í 78. sæti.

Gildi stiga andstæðings á móti hverjum töpuðum bolta Vals 2023 er 0,792 og það lægsta frá því farið var að halda utan um stig eftir tapaða bolta árið 2018. Þetta þýðir að í hvert skipti sem Valur tapaði bolta í vetur þá tókst andstæðingum þeirra að skora að meðaltali aðeins tæplega 0,8 stig.

Með talningu á vítaskotum í “gangur leiks” (play-by-play) flipanum hjá KKÍ skráði ég og flokkaði vítaskot eftir því í hvaða röð þau voru tekin. Úr þeirri könnun kom í ljós að leikmenn Subwaydeildar karla nýta seinna skot sitt af tveimur vítaskotum betur en hið fyrra. Munurinn er hins vegar ekki mikill og enn minni en í Subwaydeild kvenna. Alls fara 78,3% af seinna vítaskotinu niður en 73,1% af því fyrra. Leikmenn heimaliðs nýta seinna skotið betur (79,8%) en gestirnir (76,9%) en gestirnir hins vegar nýta fyrra skotið betur (74,7%) en heimaliðið (71,6%) – sem merkilegt nokk er sama staða og er uppi á teningnum í Subwaydeild kvenna. Þegar þrjú víti eru tekin í röð eiga gestirnir í vandræðum með fyrsta vítið (59,3%) en heimaliðið setur annað vítið niður í 91,7% tilvika. Sjá mynd að neðan. Mismun í gildum skottilrauna milli fyrra vítis og seinna vítis má að öllum líkindum rekja til rangrar skráningar í kerfið.

Subwaydeild karla – deildarkeppni 2023

Alls voru 12 leikir framlengdir í ár og 15 framlengingar spilaðar í nýafstaðinni deildarkeppni. Fleiri framlengingar hafa aldrei verið spilaðar á heilli leiktíð en árið 2005 voru einnig 12 leikir framlengdir en fjöldi framlenginga þá var 14.

Fréttir
- Auglýsing -