spot_img
HomeFréttirTíu stiga tap Þórs gegn ÍR

Tíu stiga tap Þórs gegn ÍR

Útlitið var gott hjá Þór framan af leik liðsins gegn ÍR en liðið leiddi með 12 stigum 32-20 þegar annar leikhluti var hálfnaður. Sjálfstraustið virtist í fínu lagi, varnarleikurinn fínn og þeim tókst að halda aftur af gestunum. Eftir fyrsta leikhlutann leiddi Þór með 8 stigum 21-13.

Adam var ekki lengi í Paradís

Byrjunin á öðrum leikhluta byrjaði vel en í stöðunni 32-20 varð alger viðsnúningur á leiknum. ÍR ingar voru að vakna til lífsins á meðan allt hljóp í baklás hjá Þórsliðinu. Í stöðunni 36-27 og 4 mínútur eftir af fyrri hálfleik snéru gestirnir með Evan Christopher í broddi fylkingar leiknum sér í hag og skoruðu 3-17 kafla og breyttu stöðunni í 38-44 sem urðu hálfleikstölur.

ÍR ingar urðu fyrir áfalli í fyrri hálfleik þegar Sigurður Þorsteinsson varð að hætta leik vegna meiðsla í hné. Segja má að viðsnúningur ÍR megi þakka stórleik Evans sem skoraði 25 stig í fyrri hálfleik. Hjá Þór var Pablo með 11 og Mantas með 9.

ÍR hóf síðari hálfleikinn á því að smella þrist í andlitið á Þórsurum og voru þá komnir með 8 stiga forskot 39-47. En Þórsarar áttu þá fínan kafla og þegar þrjár mínútur voru búnar af leikhlutanum var munurinn aðeins tvö stig 46-48. En nær komust þeir ekki og ÍR bætti aftur í og voru komnir með 11 stiga forskot þegar 1:31 var eftir af leikhlutanum.

Slagsmál, brot sem ekki eiga sjást í leik.

Seint í þriðja leikhluta gerðist leiðinda atvik þegar ÍR ingurinn Daði Berg braut illa á Mantas sem var að taka frákast og liggur eftir og lék Daði þar ekki við sitja heldur sparkaði í Mantas. Viðbrögð Mantas voru ekki til að hjálpa honum og endaði þessi rimma með að báðir voru reknir út úr húsi. Þegar þarna var komið við sögu var Mantas búinn að vera frábær fyrir Þór og komin með 13 stig og 7 fráköst og munaði verulega um hann.

Þegar fjórði leikhlutinn hófst leiddu gestirnir með 11 stigum 52-63 og náðu góðu áhlaupi í upphafi leikhlutans og höfðu um tíma 16 stiga forskot. Þórsarar voru þó ekki búnir að leggja árar í bát og með mikili baráttu tóku þeir að saxa á forskot gestanna og þegar þrjár mínútu voru til leiksloka var munurinn komin niður í 4 stig 69-73 og óvænt spenna komin í leikinn. En þrátt fyrir fína baráttu Þórs tókst gestunum að halda út og lönduðu 10 stiga sigri 75-85 sem verða þrátt fyrir allt að teljast sanngjörn úrslit.

En ljóst er á spilamennsku Þórsliðsins að menn eru að læra betur hver á annan og ef fram heldur sem horfir styttist í að liðið nái að landa sínum fyrsta sigri.

Tölfræði leiks

Stig Þórs í kvöld: Jamal Palmer 19 og 4 fráköst, Pablo Hernández 18 og 11 fráköst, Mantas 13 stig og 7 fráköst, Hansel 11 stig 3 fráköst og 4 stoðsendingar, Erlendur Ágúst 7 stig 7 fráköst og 2 stoðsendingar, Júlíus Orri 4 stig 5 fráköst og 3 stoðsendingar og Baldur Örn 3 stig og 5 fráköst, Kolbeinn Fannar 1 frákast og eina stoðsendingu,

Stig ÍR: Evan Christopher 31 stig 10 fráköst og 8 stoðsendingar, Colin Pryor 22 stig 5 fráköst og 2 stoðsendingar, Georgi Boyanov 14 stig 17 fráköst og 3 stoðsendingar, Sæþór Elmar 7 stig og 10 fráköst, Einar Gísli 4 stig, Trausti 4 stig og Florijan Jovanvoc 3.

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -