A landslið karla og kvenna eru í eldlínunni á Smáþjóðaleikunum sem fram fara í San Marínó þessa dagana. Kvennalandsliðið hefur leikið einn leik á mótinu en þá tapaði liðið fyrir Möltu. Karlalandsliðið hefur unnið einn leik og tapað einum en ferðalag liðana til San Marínó var í öllu falli skrautlegt.
Tíu leikmenn eru að spila sína fyrstu A-landsleiki fyrir Ísland á leikunum, ein í kvennalandsliðinu og níu í karlalandsliðinu. Þetta eru þau Birna Valgerður Benónýsdóttir í landsliði kvenna og þeir Kristinn Pálsson, Kári Jónsson, Gunnar Ólafsson, Matthías Orri Sigurðarson, Maciek Baginski, Emil Karel Einarsson, Jón Axel Guðmundsson, Pétur Rúnar Birgisson og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson.
Birna Valgerður Benónýsdóttir er yngsti leikmaður hópsins eða 16. ára. Það er ekki á hverjum degi sem svo ungir leikmenn spila A-landsliðsleiki. Til samanburðar var Helena Sverrisdóttir yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir A-landslið kvenna þá 14 ára og 9 mánaða gömul. Birna lék 10 mínútur í tapinu gegn Möltu og tók tvö fráköst.
Karfan.is sendir hamingjuóskir á nýja landsliðsmenn og óskar þeim líkt og öðrum leikmönnum landsliðsins velgengni á Smáþjóðaleikunum.