spot_img
HomeFréttirTindastólsmenn semja við erlenda leikmenn

Tindastólsmenn semja við erlenda leikmenn

Fyrstan má telja Dragoljub Kitanovic, miðherja frá Serbíu. Hann er 205 cm á hæð og getur bæði spilað stöðu miðherja og kraftframherja. Hann er fæddur árið í 1985. Hann lék núna síðast í heimalandi sínu Serbíu, með KK Vojvodina Novi Sad í B-deildinni. Dragoljub er mjög hreyfanlegur miðherji miðað við stærð en myndband af leik með kappanum má sjá á þessari slóð og er hann nr. 15 í hvíta liðinu http://vimeo.com/11841347.
Dimitar Petrushev er ungur makedónskur bakvörður, fæddur árið 1989, sem álitinn var einn sá efnilegasti í Evrópu fyrir nokkrum árum síðan. Hann lék með öllum ungmennalandsliðum Makedóníu og fékk einnig boð um að spila með landsliðum Króatíu. Hann meiddist á hendi og setti það feril hans úr skorðum á tímabili. Dimitar spilar stöðu leikstjórnanda en getur einnig spilað sem skotbakvörður. Dimitar var fenginn eftir að ljóst varð að Sigmar Logi Björnsson myndi ekki spila með Tindastóli á næsta tímabili og viðræður við íslenska leikmenn báru ekki árangur.
 
Michael Fratangelo er bandarískur bakvörður með ítalskt vegabréf. Hann er fæddur árið 1985 og er 192 cm á hæð. Hann getur bæði spilað stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar. Hann kemur úr Haverford háskólanum sem leikur í þriðju deild bandaríska háskólaboltans. Á þessari slóð hér http://www.youtube.com/watch?v=X-xTItsftZQ má sjá myndskeið af Mike.
 
Af öðrum leikmannamálum liðsins er það að frétta að Axel Kárason hefur yfirgefið herbúðir Tindastóls, en hann hyggur á nám í Kaupmannahöfn. Þar mun hann leika körfuknattleik með nýliðum Værlöse í dönsku úrvalsdeildinni. Sveinbjörn Skúlason er einnig farinn á brott sem og Sigmar Logi Björnsson eins og áður sagði og þá hefur Sigurður Snorri Gunnarsson sest á skólabekk á Hvanneyri. Þá liggur Svavar Atli Birgisson undir feldi og hugar að sinni framtíð í körfuboltanum.
 
Þrátt fyrir þetta er liðið ekki á flæðiskeri statt með leikmenn, því ungir og efnilegir leikmenn munu fá aukna ábyrgð í vetur og verður gaman að fylgjast með þróun liðsins á komandi tímabili.

www.tindastoll.is

 
Mynd: Dragoljub Kitanovic
 
Fréttir
- Auglýsing -