Kristófer Acox er kominn heim frá Bandaríkjunum og mun leika með KR næstu tvö tímabil en að þeim loknum stefnir hann aftur út til Bandaríkjanna í háskólanám. Kristófer staðfesti þetta í samtali við Karfan.is í kvöld en hann er á meðal sterkustu yngriflokka leikmanna þjóðarinnar og vakti verðskuldaða athygli með miðskólaliði sínu síðasta vetur.
,,Við byrjuðum í meistaraflokki KR í síðustu viku en ég á samt eitt ár eftir í drengjaflokki og þá nokkur í viðbót í unglingaflokki,“ sagði Kristófer sem var kominn heim til Íslands af miður góðu. ,,Ég kom heim út af pabba, þetta var ekki alveg að smella hjá okkur feðgum svo ég er kominn heim,“ sagði Kristófer sem dvaldist hjá föður sínum, Terry Acox, á meðan hann var í miðskólanum á síðustu leiktíð.
Kristófer er hvergi banginn þó þungavigtarleikmenn á borð við Pavel, Brynjar og Marcus Walker séu horfnir á braut úr KR. ,,Nú er bara tími fyrir okkur yngri leikmenn að stíga upp og sýna okkur. Ég hef æft með Finni Stefánssyni í allt sumar og legg mikla vinnu í að koma mér úr fjarkanum í þristinn, gera mig kláran í það að spila fyrir utan og verða þannig tilbúnari fyrir háskólaboltann,“ sagði Kristófer sem stefnir á háskólanám í Bandaríkjunum og klárar Kvennaskólann í Reykjavík á næstu tveimur árum.
,,Það voru nokkrir skólar sem höfðu áhuga á mér á meðan ég var úti og mestur var áhuginn hjá UNC Wilmington og Georgia State sem og Jacksonville í Flórída höfðu einnig samband. Einnig átti ég að vera á nokkrum mótum í sumar en það varð ekkert úr því,“ sagði Kristófer sem gaf ekki kost á sér í U20 ára verkefni Íslands þetta sumarið þar sem upphaflega áætlunin var alltaf að halda til Bandaríkjanna á ný áður en það varð að engu.
,,Ég er samt enn í sambandi við þjálfarann sem stýrði þessu sumarliði og það gæti mögulega gerst að ég spilaði með því næsta sumar eða færi af krafti í það að koma mér fyrir í U20 ára hópnum,“ sagði Kristófer sem æft hefur tvisvar á dag síðan í júnímánuði en er nýbyrjaður á liðsæfingum en hann fór sér hægt í sumrinu á veikum ökkla sem hafði elt hann allt frá febrúar síðastliðnum.
,,Ég spilaði mikið á auma ökklanum og komst ekki í almennilega sjúkraþjálfun í Bandaríkjunum og var í einhverri mánaðarlangri pásu fyrir Norðurlandamótið með 18 ára landsliðinu svo ég hef lítið verið að hlaupa í sumar, meira verið í einstaklingsæfingum.“
Þó vissulega hafi KR-ingar séð á eftir sterkum leikmönnum þá er eitthvað að skila sér til baka eins og Kristófer er dæmi um en félagi hans Matthías Orri Sigurðarson verður ekki með KR í vetur eins og þegar hefur komið fram hér á Karfan.is þar sem hann mun reyna fyrir sér í miðskóla í Bandaríkjunum á komandi tímabili.