spot_img
HomeFréttirÞunnskipaðir Valsmenn meistarar meistaranna!

Þunnskipaðir Valsmenn meistarar meistaranna!

Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar Stjörnunnar hleyptu tímabilinu af stað að Hlíðarenda í kvöld í leik meistaranna gegn meisturunum. Valsarar sópuðu Stjörnunni út úr úrslitakeppninni síðastliðið vor og Garðbæingar ættu því að hafa fengið nóg af því að tapa gegn Hlíðarendapiltum í bili. Ósagt skal látið hversu alvarlega liðin taka þennan leik en þó má benda á að allnokkrir burðarstólpar standa enn óhaggaðir hjá báðum liðum frá því á síðasta tímabili.

Kúlan: ,,Er þetta ekki bara einhver upphitunarleikur? Hverjir eru í þessum liðum?“ spyr Kúlan önug. Sýnir mér þó mynd af Kára Jóns á annarri löppinni með bandarískan fána í höndunum. Það merkir að Valsmenn eru enn nokkuð þunnskipaðir, öruggur sigur bikarmeistaranna, 80-93, verður niðurstaðan.

Byrjunarlið

Valur: Kristó, Pablo, Hjálmar, Booker, Ástþór

Stjarnan: Julius Jucikas, Friðrik, Hinn þriðji, Darbo, Addú

Gangur leiksins

Íslandsmeistararnir byrjuðu betur í kvöld og engu líkara var en að Hjálmar Stefáns hafi komið beint úr oddaleiknum frá því í vor því hann spilaði eins og engill, henti niður þristum, safnaði fráköstum og var fljótt kominn með 8 stig! Hinn þriðji hélt sínum mönnum inn í leiknum og það var kraftaverki líkast að leikar stóðu jafnir eftir einn leikhluta, 19-19.

Gestirnir hófu annan leikhlutann vel þar sem Julius Jucikas og Addú nældu sér báðir í körfu góða og settu víti í kaupbæti, staðan 24-27. Þarna mátti ímynda sér að lafþunnir Valsmenn myndu missa gestina frá sér en allt annað kom á daginn. Heimamenn tóku á góðan sprett og hinn nýlenti Pavlovic kom Val í 43-34 með þristi. Aftur var það Hinn þriðji sem svaraði, munurinn aðeins 5 stig í hálfleik, 46-41.

 Valsmenn héldu frumkvæðinu framan af þriðja leikhluta en það verður að segjast að spilamennska gestanna var á löngum köflum alger hörmung. Heimamenn þurftu á því að halda því þeir misstu Ástþór af velli í fyrri hálfleik vegna höfuðhöggs svo enn þynntist hópurinn. Eitthvað rofaði til hjá Garðbæingum í seinni hluta leikhlutans og enn var það Hinn þriðji sem fór fremstur sinna manna og jafnaði leikinn í 60-60 fyrir fjórða fjórðung.

Fjórði leikhluti var svo hin ágætasta skemmtun! Þó spilamennska liðanna hafi heilt yfir kannski verið í takt við dagsetninguna var jafnt á öllum tölum og spennandi lokamínútur kættu lýðinn. Liðin skiptust nokkrum sinnum á forystunni í leikhlutanum en Pablo kom sínum mönnum yfir 75-74 þegar ein mínúta lifði leiks. Julius Jucikas svaraði með mestu hnoðkörfu tímabilsins (og þó því væri lokið!) og Finnur Freyr færði gestunum eitt stig í viðbót með mótmælum, staðan 75-77 og 48 sekúndur eftir. Valssóknin í kjölfarið virtist ekki ætla að enda vel en gerði það samt, hinn nýlenti Pavlovic henti í snarörvhentan þrist, 78-77! Varnarleikur Vals leit svo allan tímann vel út og Hinn þriðji fékk dæmda á sig sóknarvillu áður en yfir lauk. Kristó fór skömmu síðar á vítalínuna og hefur það sem vinnureglu að setja bæði þegar mikið liggur við! Friðrik Anton átti sæmilega þriggjastiga skottilraun á þeim örfáu sekúndum sem eftir lifðu en gekk ekki – lokatölur 80-77 og Valsmenn meistarar meistaranna!

Menn leiksins

Hjálmar Stefáns spilaði gríðarlega vel í þessum leik þó stigin hafi að vísu ekki orðið nema 10 (samkvæmt stattinu, voru þau ekki fleiri?), fráköstin 8. Pablo setti 20 stig og Ozren Pavlovic lauk leik með 14 stig og mikilvægustu körfu leiksins þó hann rati sennilega ekki heim til sín ennþá!

Hinn þriðji var atkvæðamestur eins og oft áður hjá Stjörnunni með 24 stig og 4 fráköst. Julius Jucikas setti 18 stig og tók 6 fráköst.

Kjarninn

Oft er gert lítið úr þeim bikar sem var í boði í kvöld en Finnur Freyr benti á í viðtali eftir leik að þetta væri e.t.v. erfiðasti titillinn til að vinna enda aðeins meistarar sem fá að spila þennan leik! Einnig hlýtur að vera extra sætt fyrir Valsmenn að taka þennan eins þunnskipaðir og þeir voru í leiknum. Kári og Benzi ekki með, enginn Kani, Ástþór spilaði aðeins í korter og Pavlovic ratar ekki enn heim til sín! Auðvitað var ekki allt fullkomið hjá liðinu í kvöld en miðað við ofangreind atriði og að það er 2. október hljóta Valsmenn að brosa tvöfalt í kvöld.

Stjörnumenn þurfa að beita öllum mögulegum brögðum til að sætta sig við ósigurinn í kvöld. Þetta er bara æfingaleikur…það er bara 2. október…við eigum eftir að spila okkur mikið betur saman…og eitthvað í þessa áttina. Spilamennska liðsins var á allan hátt meira og minna átakanlega léleg og undirritaður telur næsta víst að við fáum að sjá allt annað og betra Stjörnulið í sama húsi á fimmtudaginn!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Fréttir
- Auglýsing -