spot_img
HomeFréttirÞung byrjun banabiti heimamanna - Einvígið jafnt 1-1 á milli Vals og...

Þung byrjun banabiti heimamanna – Einvígið jafnt 1-1 á milli Vals og Stjörnunnar

Stjarnan tók á móti Val í öðrum leik þeirra í dag á föstudaginn langa í 8-liða úrslitum Subwaydeildar karla. Í fyrsta leik liðanna í rimmunni höfðu Stjörnumenn aldeilis komið á óvart með útisigri gegn Íslandsmeisturum síðasta árs og nýkrýndum deildarmeisturunum þessa tímabils sem var að ljúka. Það var í fyrsta sinn síðan úrslitakeppnin var spiluð með núverandi fyrirkomulagi að liðið í 8. sæti næði að vinna fyrsta leikinn gegn 1. sætinu í 8-liða úrslitum.

Garðabæingar mættu eflaust í Ásgarð í skítaveðri með það fyrir sjónum að sjá Stjörnumenn aftur spila góðan leik og jafnvel eygðu von um að komast í 2-0 gegn ríkjandi Íslandsmeisturunum. Það kom hins vegar fljótlega í ljós að veðrið væri ekki eins slæmt og frammistaða Stjörnunnar yrði í leiknum.

Valur var miklu betur en heimaliðið og þó mörgum leiðist að heyra klisjuna um stjörnuhrap þá mætti vissulega kalla þetta það. Leikurinn endaði 73-95, Valsmönnum í vil.

Gangur leiksins

Valsmenn voru mættir frá fyrstu mínútu með öfluga vörn og refsuðu öllum mistökum Stjörnunnar með hraðaupphlaupskörfum trekk í trekk. Stjarnan virtist ekki getað fundið rétta taktinn sóknarlega og eftir 5 mínútur höfðu þeir skorað 9 stig gegn 15 hjá gestunum. Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, nýtti þá fyrsta leikhléið sitt og ræddi aðeins við sína menn til að reyna laga það sem var að.

Það heppnaðist ekki betur en svo að Stjörnumenn skoruðu aðeins 2 stig það sem eftir lifði af fyrsta leikhlutanum gegn 7 stigum Valsmanna. Staðan var því 11-22 eftir 10 mínútur, engin krísa svo sem en þó ekki vænleg staða.

Stjarnan prufaði mismunandi varnarfærslur í öðrum leikhlutanum en það dugði ekki til að hægja á Valsmönnum sem virtust hafa svör við öllum útspilum heimamanna. Ef Stjarnan setti skot, svöruðu Valsmenn yfirleitt strax með svipuðu eða jafnvel með þriggja stiga skoti. Eftir tvær mínútur var staðan orðin 35-20 og þó að Stjörnumenn voru að taka aðeins við sér sóknarlega gátu þeir ekki stemmt stigu við Völsurum. Í stöðunni 42-25 tók Arnar annað leikhléið sitt í fyrri hálfleiknum með 5:40 eftir og lið hans búið að skora fleiri stig fyrstu fjórar mínútur annars leikhlutans en í öllum fyrsta leikhlutanum.

Júlíus Orri, sem hafði byrjað leikinn illa, tók örlitla rispu á þessum tímapunkti til að Valsmenn næðu ekki að breikka bilið en bandarískur atvinnumaður Stjörnunnar, Armani Moore, var á sama tíma alveg afleitur. Staðan í lok fyrri hálfleiks var 33-50 fyrir Val, með Pablo Bertone alveg að fara á kostum en hann skoraði 17 stig í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki ýkja vel hjá heimamönnum þar sem Pablo Bertone hélt áfram að skora og þó Stjarnan gat svarað sumum körfunum var það ekki nóg. Valsarar voru einfaldlega að leggja sig meira fram og sýndu meiri baráttu og vilja til að sigra þennan leik.

Stjarnan féll í þá gryfju á tímapunkti í þriðja leikhlutanum að fara einbeita sér að því hvað hallaði mikið á þá í dómgæslunni, sem gerði ekki mikið fyrir leikinn þeirra og skilaði ekki mörgum körfum. Punkturinn yfir i-ið í leikhlutanum var í lokasókninni þegar Stjarnan tapar boltanum, Hjálmar kemst í hraðaupphlaup og skorar á flautunni á sama tíma og brotið er á honum. Þar virtist loftið alveg ætla út úr Garðbæingum.

Það gerðist þó ekki! Friðrik Anton Jónsson, sem hafði verið í byrjunarliðinu í upphafi deildarkeppninnar en kom núna ekki inn á fyrr en á lokamínútu þriðja leikhlutans, opnaði lokafjórðunginn fyrir Stjörnumenn með þristi úr horninu. Valsmenn voru ennþá að komast í gegnum vörn Stjörnunnar en hlutirnir fóru skyndilega að ganga upp sóknarlega hjá Stjörnunni á sama tíma.

Þegar u.þ.b. sjö mínútur lifðu leiks var munurinn aðeins 18 stig og skyndilega var möguleiki á endurkomu. Tækifærið kom fljótlega eftir það; Kristófer Acox tapaði boltanum í sókn og fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að brjóta á Júlíusi Orra Ágústssyni í hraðaupphlaupinu sem fylgdi. Júlíus Orri setti bæði vítaskotin og Stjarnan átti síðan boltann.

Adama Darboe náði eftir leikfléttu hjá Stjörnunni að hleypa af þriggja stiga skoti þar sem Kári Jónsson braut á honum. Þetta var fimmta villan á Kára og Darboe endaði á að setja öll þrjú vítaskotin niður. Skyndilega var staðan aðeins 67-80 og Kári Jónsson, mögulega verðmætasti leikmaður deildarinnar, útilokaður frá frekari þátttöku í leiknum!

Allt kom þó fyrir ekki. Í sókn rúmlega mínútu seinna setti Callum Lawson þriggja stiga skot þegar skotklukkan var við það að gella og Stjarnan hafði spilað góða vörn áður en boltinn endaði hjá tvöfalda Íslandsmeistaranum frá Englandi. Það var tilfinnanlegt að tækifæri Stjörnumanna á að ná Völsurum dó með þessum rýtings-þristi.

Eftirleikurinn var þannig að Valsmenn gátu aftur hægt og rólega aukið muninn og leikurinn endaði sem fyrr segir með 22 stiga tapi Stjörnunnar, 75-93.

Valur jafnar því einvígið 1-1.

Tölfræði leiksins

Vendipunkturinn

Vendipunktur leiksins var annað hvort upphaf leiksins þegar Valsarar byrjuðu leikinn með hörkuvörn og góðum sóknarleik sem þeir héldu eiginlega út allan leikinn.

Líklegast er þó þristur Callum Lawson með 5 mínútur eftir af lokaleikhlutanum sem gerði endanlega út um vonir Stjörnunnar um að ná Val. Heimamenn höfðu séns, voru 13 stigum á eftir með smá meðbyr þegar Lawson setti skotið og gerði þar með út um vonir Stjörnumanna.

Atkvæðamestir

Fremstur meðal jafningja var líklegast Pablo Bertone, bakvörður Vals, sem skoraði 27 stig á tæpum 27 mínútum. Skotnýtingin var frábær hjá honum (62% utan af velli og 100% í vítaskotum) og hann endaði því framlagshæstur með 27 framlagspunkta.

Hjá Stjörnunni var Dagur Kár Jónsson stigahæstur með 16 stig og þ.a.a. gaf hann 6 stoðsendingar.

Tölfræðimolinn

Byrjunarlið Vals skoraði 31 stigum meira en byrjunarlið Stjörnunnar (79 stig gegn 48). Mestu munaði þar andleysi Armani Moore og William Gutenius, sem skoruðu samtals 16 stig. Samtals.

Valur hafði betur en Stjarnan í nær öllum tölfræðiþáttum; þeir hittu betur, tóku fleiri fráköst, gáfu fleiri stoðsendingar, töpuðu færri boltum og svo framvegis og svo framvegis. Verðskuldaður sigur.

Kjarninn

Valur hefur þá endurheimt heimavallarréttinn og getur tekið forystuna með sigri heima í Origo-höllinni að Hlíðarenda á þriðjudaginn 11. apríl, strax eftir páskafríið.

Stjarnan átti við ofurefli að etja í dag. Þessi leikur bar þess merki að liðið í 8. sæti væri að spila við toppliðið. En þeir geta kæst yfir því að sérían er ekki búin og þeir Stjörnumenn kunna aldeilis að vinna Val á þeirra heimavelli (staðan hingað til í viðureignum Vals og Stjörnunnar í Origo-höllinni er 2-1, Stjörnunni í vil).

Þetta er allt opið ennþá, nú er bara að sjá hvort liðið mætir undirbúnara og beittara í leik 3.

Viðtöl

Kári Jóns: “Ég var frekar stressaður, það er ekkert eðlilega óþægilegt að sitja á bekknum í þjáningu.”
Finnur Freyr: “Næsti leikur byrjar bara 0-0.”
Arnar Guðjóns: “Erum að spila við besta lið landsins. Pressan er á þeim að vinna næsta leik.”

Viðtöl og umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -