spot_img
HomeFréttirÞú verður að detta!

Þú verður að detta!

16:26

{mosimage}

Svakalegur leikur í gærkvöldi í Grindavík.  Ég átti því miður ekki heimangengt en horfði á upptöku í sjónvarpinu.  Ég er búinn að dæma tvo leiki milli þessara liða í vetur og átti því auðvelt með að setja mig í spor dómara leiksins.  Leikurinn hafði allt til brunns að bera til að hann teldist erfiður fyrir dómarana.  Fullt, lítið hús, topplið, mikill hraði, mikil barátta, líflegir þjálfarar og allt í beinni!  Það er erfitt að dæma svona leiki og útilokað að gera það gallalaust.  Úti í henni Evrópu er sagt að svona leikir þurfi þrjá dómara og ég held að flestir sem tengjast leiknum hérna heima séu farnir að skilja það og viðurkenna.  Það er vert að hafa allar þessar staðreyndir á hreinu þegar leikurinn er gerður upp, ramma fyrir ramma.

Annars voru það ekki svo mörg atriðin í leiknum sem voru á einhvern hátt sérstök.  Þó rifjaðist það upp fyrir mér þar sem ég horfði á leikinn gamla mýtan um að varnarmaður verði að detta á rassinn til að dæmt verði sóknarbrot á andstæðinginn.  Ég meira að segja heyrt það að í öðrum heimshornum sé slíkt fall æft rétt eins og sniðskot.  Fátt er hvimleiðara en menn sem láta sig falla fyrir engar sakir til þess eins að villa um fyrir dómaranum eða til að láta andstæðinginn líta illa út.

Eins og hægt er að lesa í fyrstu grein minni um “Snertingar milli varnar og sóknarmanna ?” leggur körfuknattleiksforystan mikið uppúr því að virða rétt varnarleikmanna og í vafatilfellum eiga dómarar að dæma sóknarbrot ef villa verður ekki umflúin.  Sóknarmenn nútímans eru líka sterkir og áræðnir og hika ekki við  að skapa snertingar við varnarmenn, en slíkt var fátítt þegar ég byrjaði að dæma.  Um leið hefur forystan reynt að uppræta “flopp”, það er þegar leikmenn láta sig falla vegna lítillar eða engrar snertingar.  Maður hefur heyrt kallað í ófá skiptin: “þú verður að detta til að fá ruðning!”.  Fátt er ósannara.  Dómarar geta ekki á sama tíma refsað mönnum fyrir að láta sig falla og gera þá kröfu að þeir detti til að þeir dæmi sóknarbrot.  Þetta er augljóst.

Að lokum langar mig að hnykkja á því að þegar dómari dæmir sóknarbrot er það vegna þess að varnarmaðurinn gerði allt rétt.  Það er ekkert skilyrði að sóknarmaður noti olnboga, hendi öxl eða höfuð til að ýta.  Aðal atriðið er að varnarmaður má hreyfa sig til hliðar og aftur á bak til að viðhalda varnarstöðu sinni, hann verður að vera á undan á staðinn og snertingin verður að vera á skrokkinn.  Ef snerting verður á þennan hátt þannig að réttur varnarmannsins rýrni skal dæma sóknarbrot, hvort sem hann dettur eða ekki.

Samantekt:
Leikir toppliða þar sem er fullt hús, mikill hraði, mikil barátta, líflegir þjálfarar í beinni útsendingu eru erfiðir fyrir dómarana

Í Evrópu eru slíkir leikir dæmdir af þremur dómurum, en tveimur hér.

Varnarmenn þurfa ekki að detta til að dæmt sé sóknarbrot.

Með bestu kveðjum,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari

Fyrri skrif Kristins
Er að finna til vinstri á forsíðu karfan.is undir liðnum „Dómaramál með K.Ó.“

Fréttir
- Auglýsing -