Dallas Mavericks tóku í nótt 3-2 forystu í úrslitum NBA deildarinnar með 112-103 sigri á Miami Heat. Dallas þarf því aðeins einn sigur til viðbótar til þess að verða NBA meistari en leikurinn í nótt var sá síðasti í röðinni á heimavelli Dallas, næsti leikur fer fram í Miami sem og oddaleikurinn ef til hans kemur.
Þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka setti Jason Kidd niður þrist fyrir Dallas sem kom þeim í 105-100. Skömmu síðar var Jason ,,The Jet“ Terry á ferðinni og kom Dallas í 108-101 þegar 33 sekúndur voru til leiksloka og þar með var björninn unninn og lokatölur 112-103 Dallas í vil.
Dirk Nowitzki gerði 29 stig og tók 6 fráköst í liði Dallas en fimm leikmenn liðsins gerðu 13 stig eða meira í leiknum. Jason Terry gerði 21 stig og gaf 6 stoðsendingar og Jose Juan Barea bætti við 17 stigum en kappinn setti niður 4 af 5 þristum sínum í leiknum.
Dwyane Wade gerði 23 stig og gaf 8 stoðsendingar í liði Heat og Chris Bosh setti niður 19 stig og tók 10 fráköst. LeBron James landaði þrennu með 17 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar en hann brenndi af öllum fjórum þristunum sínum í leiknum og setti aðeins 8 af 19 teigskotum sínum.
Sjötti leikur liðanna fer fram í Miami aðfararnótt mánudags en með sigri þar getur Dallas orðið meistari en vinni Miami kemur til oddaleiks.
Mynd/ Jose Juan Barea setti niður 4 af 5 þristum sínum í nótt en kappinn hefur sýnt góða takta með Dallas í úrslitaseríunni.