spot_img
HomeFréttirÞriggja stiga stórfljót í vegi Stjörnumanna

Þriggja stiga stórfljót í vegi Stjörnumanna

Ferð Garðbæinga í úrslitakeppninni heldur áfram. Liðið heillaði ekki á slóðum eldgossins í átta liða úrslitum en heimaleikirnir voru eins og göngutúr meðfram bæjarlæknum í morgunsólinni. Í höfn Þorláks ráku Stjörnumenn svo af sér slyðruorðið á útivelli, höfðu sigur í fyrsta leik fjögurra liða úrslita og geta komist í þægilega 2-0 stöðu í einvíginu með sigri í kvöld.

Þorlákshafnar-Þórsarar slógu nafna sína frá Akureyri nokkuð örugglega út 3-1 í átta liða úrslitum, að mestu án Litháans litríka Drungilas. Annað sætið í deildarkeppninni og stórkostlega skemmtileg spilamennska tryggir ekki árangur í úrslitakeppninni eins og alkunna er. Segja má að nú sem aldrei fyrr reyni á styrk liðsins, tap í kvöld þýðir nánast sumarfrí.

Spádómskúlan: Hvað sérð þú út úr þessu, Kúla góð?

,,Það sér hver heilvita og jafnvel hálfvita maður að Stjarnan vinnur öruggan sigur, 93-82. Himinn hefur glaðnað fagur á fjallabrún og sópurinn verður tekinn með yfir heiðina í Höfnina í þriðja leik.“

Byrjunarlið:

Stjarnan: Hlynur, AJ, Gunni, Addú, Ægir

Þór Þ.: Drungilas, Lawson, Larry, Styrmir, Raggi

Gangur leiksins

Það var sjóriða í mönnum, einkum gestunum, á fyrstu mínútunum. Ekkert var ofan í og varnarleikur beggja liða til fyrirmyndar. Heimamenn neyddu fram fyrstu 6 stig leiksins áður en Styrmir braut ísinn fyrir sína menn, setti 5 stig og staðan var 6-5 eftir tæpar 6 mínútur. Hlynur og Gunnar hristu af sér mestu klakabrynjuna í framhaldinu og komu Stjörnunni 21-12 yfir en Emil Karel gaf sínum mönnum von með þristi og staðan 23-15 eftir einn.

Kúlan og Arnar voru rífandi sátt með stöðu mála eitthvað frameftir öðrum leikhluta en þá tóku gestirnir upp á því að hrista af sér mesta stressið. Drungilas var áberandi á þessum kafla leiksins og sýndi að hann getur fleira en gefið olnbogaskot. Um miðjan leikhlutann var staðan 33-31 og Larry kom svo Þórsurum yfir 33-34 í fyrsta sinn skömmu síðar með þristi. Kóngurinn bætti við öðrum í kjölfarið og stemmningin öll gestanna. Síðustu mínúturnar voru hins vegar heimamanna, Þórsarar voru í tómu rugli, Halldór Garðar fékk á sig óíþróttamannslega villu og Ægir kom Stjörnunni í 46-39 með þristi. Ægir bætti við tveimur stigum í blálokin með geggjuðu gegnumbroti en síðasta sekúndan var þó gestanna þar sem Lawson setti EKKERT nema net þrist fyrir aftan miðju, svona til að nesta sína menn upp fyrir pásuna. Staðan 48-45 sem er auðvitað enginn munur.

Þórsarar unnu með einhvers konar svæðisvörn í þriðja leikhluta og þó hún hafi ekki alltaf litið vel út skoruðu heimamenn aðeins 11 stig í leikhlutanum! Stjörnupiltar fengu allnokkuð af ágætum þriggja stiga skotum en allt rúllaði uppúr. Gestirnir voru ekkert að raða stigunum heldur en 17 stig dugðu til að snúa taflinu við fyrir lokafjórðunginn, gestirnir nú 3 stigum yfir 59-62.

Þórsarar skoruðu ekki stig síðust tvær í þriðja en bættu það upp í byrjun fjórða og gerðu sig líklega til að ganga frá leiknum. Fyrirliði Þórsara, Emil Karel, bauð upp á 7 stig í tveimur sóknum og gestirnir leiddu 62-74 þegar 7:47 voru eftir og Arnar tók leikhlé. Hlynur skoraði af harðfylgi í framhaldinu og stöðvaði blæðinguna frægu. Lawson svaraði því með þristi en Addú og Gunni héldu spennu í leiknum og munurinn var aðeins 3 stig þegar 3 mínútur voru eftir, 77-80. Styrmir átti þá 4 stig í röð fyrir sína menn en Addú og Gunni sáu til þess að lokamínúturnar voru æsispennandi og þegar 1 og hálf var til leiksloka var staðan 82-84. Vörnin var þétt og góð hjá heimamönnum og sóknarleikur gestanna stirður en Lawson-Laufey henti þá í alveg fáránlegan þrist og aftur var tveggja körfu munur. Alex fékk svo 3 víti þegar 28 sekúndur voru eftir, sökkti þeim öllum og minnkaði muninn aftur í 2 stig, 87-89. Heimamenn neyddust til að brjóta, enda rétt um skotklukka eftir, en Styrmir, Larry og Lawson stóðust pressuna og kláruðu leikinn á línunni. Alex setti einn þrist fyrir heimamenn en það dugði ekki til, lokatölur 90-94 í stórskemmtilegum leik!

Menn leiksins

Sex leikmenn gestanna skoruðu 10+ stig í leiknum en það er nánast orðið sjálfsagt í þessari geggjuðu deild á þessu tímabili. Þó má taka Styrmi út því hann var stigahæstur með 20 stig, tók 11 fráköst og setti 5 mjög mikilvæg stig undir lok leiks. Lawson var einnig áberandi í leiknum og það má segja að hann hafi verið í björgunarhlutverkinu, hann bjargaði fyrri hálfleik með fyrrnefndum þristi, setti fáránlegan þrist þegar allt var í volli sóknarlega í lokin og kláraði leikinn með síðasta stigi leiksins á línunni. Hann setti 17 stig, tók 7 fráköst og skaut 4/8 í þristum.

Gunnar og Addú voru bestu menn Stjörnunnar, skoruðu báðir 19 stig. Ekki verður kvartað undan framlagi Ægis og Hlyns en aðrir þurfa að skila meiru, ekki síst erlendir leikmenn liðsins.

Kjarninn

Undirritaður vill meina að Stjörnumenn hafi spilað fína vörn í þessum leik (Arnar er sennilega mjög ósammála!), Gunnar var t.a.m. frábær og hélt Larry í 13 stigum. En það dugði bara ekki til að þessu sinni, gestirnir settu allnokkur risaskot í leiknum og því fór sem fór. Ferðinni er auðvitað ekki lokið hjá Garðbæingum, staðan er 1-1, en það er harður straumur í stórfljótinu, jafnvel fyrir bestu fáka.

Þessi leikur var risastórt próf fyrir Þórsara frá Þorlákshöfn. Kúlan veit ekki neitt frekar en vanalega og liðið er nú búið að taka heimaleikjaréttinn aftur til baka eins og stundum er sagt. Þórsarar hittu ekki neitt í byrjun leiks en unnu sig inn í leikinn eftir því sem á leið og enduðu með 40% þriggja stiga nýtingu (17/42) þegar allt kom til alls. Hvað gerist í næsta leik veit enginn, allra síst Kúlan, svo við bíðum bara spennt eftir framhaldinu!

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -