10:13:44
LeBron James náði þeim ótrúlega árangri í nótt að setja þrennu í þriðja leiknum í röð (34/10/13), þegar Cleveland Cavaliers sigruðu Phoenix Suns, 119-111.
Sigurinn kemur Cavs enn betur fyrir á toppi Austurdeildarinnar en gerði einnig nær útaf við vonir Suns um að komast í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni.
Leikurinn var jafn og spennandi allt þar til um 7 mínútur voru til leiskloka þegar Cavs náðu loks að hrista Suns af sér með 10-2 spretti. Nokkru áður fékk troðslumeistarinn fyrrverandi Jason Richardson færi á að jafna leikinn þegar hann komst einn í hraðaupphlaup, en þegar hann ætlaði að gera 360-troðslu náði James honum og varði skotið. Richardson hélt, réttilega, fram að um brot hafi verið að ræða, en ekkert var dæmt.
Cleveland er nú tveimur sigrum á undan Boston í Austurdeildinni og Phoenix er sex leikjum á eftir Dallas í keppninni um áttunda sætið í Vestrinu.
Þá lögðu LA Lakers San Antonio Spurs að velli í toppslag NBA-deildarinnar í nótt, 95-102. Lakers byrjuðu leikinn miklu betur og náðu mest 18 stiga forskoti áður en Spurs rönkuðu við sér og söxuðu jafnt og þétt á forskotið. Munurinn fór minnst niður í tvö stig, 93-95, með þriggja stiga körfu Tony Parkers, en Kobe Bryant svaraði í sömu mynt og nær komust Spurs ekki.
Þessi sigur tekur af öll tvímæli í baráttunni um efsta sætið í Vesturdeildinni og Lakers eru þegar búnir að tryggja sér efsta sætið í Kyrrahafsriðlinum.
Bryant var með 23 stig líkt og Pau Gasol sem bætti við 11 fráköstum og Lamar Odom var með 12 stig og 10 fráköst.
Hjá Spurs voru Parker og Michael Finley með 25 stig hvor og Tim Duncan var með 16 stig og 11 fráköst.
ÞJ