spot_img
HomeFréttirÞórsstelpur með fjórða sigurinn í röð

Þórsstelpur með fjórða sigurinn í röð

Þórsarar unnu sinn fjórða leik í röð í 1. deild kvenna þegar þeir lögðu Laugdæli að velli 69:33 í dag. Gestirnir byrjuðu leikinn vel en smá saman tóku Þórsarar völdin og með góðri vörn náðu þær að byggja upp gott forskot. Þórsarar létu aldrei þetta forskot af hendi og fóru að lokum með 36 stiga sigur, 69:33.
Gestirnir frá Laugarvatni byrjuðu þó leikinn betur en heimamenn. Með ágætis hittni náðu þær mest sex stiga forskoti 10:16. En þá vöknuðu heimamenn heldur betur og fór þá í hönd góður leikkafli hjá Þórsurum. Þórsarar náðu góðum 8-2 spretti og leiddu því leikinn með einu stigi, 18:17 þegar fyrsta leikhluta lauk. Þórsarar byrjuðu annan leikhluta af sama krafti og þær luku þeim öðrum. Með góðri pressuvörn og svæðisvörn náðu heimamenn að byggja upp góða forystu. Erna Rún dró vagninn í sóknarleik stelpnanna þar sem hún var ansi dugleg að keyra upp að körfunni. Vörn heimamanna var þó í aðalhlutverki og gestirnir fundu nánast enga glufu í vörn heimamanna. Laugdælir náðu einungis að skora fimm stig í leikhlutanum og því leiddu heimamenn með 14 stigum, 36-22 þegar liðin gengu til búningsklefa.
 
Þórsarar byrjuðu síðari hálfleikinn eins og þær enduðu þann fyrri. Vörnin hélt áfram að vera í aðalhlutverki, en Þórsarar héldu áfram í pressuvörn sem og í svæðisvörn. Gestirnir áttu í mestum vandræðum með að koma knettinum ofaní körfuna. Gestirnir skoruðu aðeins eitt stig í þriðja leikhlutanum og það stig kom af vítalínunni. Aftur á móti gekk sóknarleikur heimamanna ágætlega, þrátt fyrir að misnota nokkur fín skotfæri. Rut Konráðsdóttir og Hulda Þorgils spiluðu nokkuð vel í sókninni og settu skot niður utan að velli. Þórsarar leiddu leikinn eftir þriðja leikhluta með 28 stigum, 51-23. Fjórði leikhluti var frekar rólegur og greinilegt að það var komið smá kærileysi í heimamenn, sem er kannski ekkert skrýtið þar sem þær leiddu með 28 stigum í byrjun fjórðungsins. Lítið var skorað í upphafi fjórðungsins en Þórsarar náðu að halda þessu góða forskoti á gestina og náðu að sigla öruggum 36 stiga sigri í höfn, 69:33.
 
 
Umfjöllun – Sölmundur Karl Pálsson

Mynd: Rebekka Unnur Rúnarsdóttir 7 ára – fleiri myndir á http://www.runing.com/karfan

 
Fréttir
- Auglýsing -